04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4203 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

219. mál, rafskautaverksmiðja við álverið í Straumsvík

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Ég taldi satt að segja að umræðan um steypuskálann væri hluti af því sem spurt var um. Í öðru lagi vil ég benda á að það verður væntanlega ekki til umræðu að byggja hér rafskautaverksmiðju nema í tengslum við stækkun álversins og óvíst er hvort það sé hagkvæmt við þá stækkun sem nú er verið að vinna að. Aðeins þegar fundnir hafa verið hugsanlegir samstarfsaðilar er hægt að finna út hvort hagkvæmt sé að setja upp slíka rafskautaverksmiðju í tengslum við álver við Straumsvík.

Mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar fyrrv. iðnrh., hv. fyrirspyrjandi, gerir athugasemdir við þá samninga sem gerðir voru við Alusuisse á sínum tíma því að þar með lauk því tímabili sem líklega hefur skaðað íslenskan iðnað einna mest frá upphafi. En það er það tímabil þegar hv. fyrirspyrjandi var iðnrh. og hafði í hótunum og setti fram þau sjónarmið varðandi álverið í Straumsvík að ekki tókst um árabil að nýta sér þau tækifæri sem þá gátu verið til staðar til þess að koma íslenskri orku í viðunandi verð og afla fyrir það gjaldeyris.

Að lokum vil ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir það að beina þeirri ábendingu til mín hvernig ég eigi að nota minn ræðutíma hér í þessum ræðustól og vænti þess að hann taki þá mínum ábendingum mjög vel þótt síðar verði um það hvernig hann eigi að haga sínu máli og hvaða efnisatriði hann eigi að taka fyrir þegar hann flytur ræður sínar í þessum stól og notar þá gjarnan til þess lengri tíma en sá sem hér stendur.