04.02.1988
Sameinað þing: 43. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4207 í B-deild Alþingistíðinda. (2955)

230. mál, innflutningur á gölluðum Subaru-bifreiðum

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé alls ekki erfitt að svara fyrir þetta mál og vil vísa því á bug að svar mitt hafi á nokkurn hátt borið því vitni.

Það er rétt sem fyrirspyrjandi sagði, að sumir bílanna lentu í flóði. Það mun hins vegar ekki hafa verið sjóflóð því mér er sagt og hef reyndar séð fyrir því efnafræðilegar skýrslur að saltstigið í vatninu sem flæddi um þessa bíla upp á miðjar síður — eins og stundum kemur nú fyrir í ám, jafnvel sunnanlands — hafi verið, hvað á ég að segja: miður salt en venjulegt drykkjarvatn í mörgum plássum á Íslandi. Fyrir þessu eru skjalfestar sannanir.

Að þetta hafi verið siðleysi á einhvern hátt tel ég algjörlega fráleitt. Þetta var hins vegar skynsamlegt vegna þess að þetta gaf fólki færi á að kaupa bíla á lægra verði — sem þó voru lítt eða ekki skemmdir vegna þessa óhapps — fyrst og fremst vegna tryggingaskilmála og tollareglna í öðru landi.