04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4213 í B-deild Alþingistíðinda. (2961)

184. mál, frárennslis- og sorpmál

Stefán Valgeirsson:

Virðulegur forseti. Þetta mál er þess eðlis að það er mjög brýnt að taka á því. En við höfum reynslu af því að oft og tíðum hrindir flutningur þáltill. ekki máli áfram. Hún hefur ekkert lagagildi. Hún er aðeins ályktun Alþingis, viljayfirlýsing raunar um hvað Alþingi vilji láta gera í hinu og þessu máli. Reynslan sem við höfum af slíkum tillöguflutningi og samþykktum þeirra er hörmuleg. Það er hægt að benda á það í mjög mörgum tilvikum að það er ekkert með þessar tillögur gert þótt samþykktar séu.

Þetta er eitt af þeim málum sem er þess eðlis að það verður að taka á því. E.t.v. næst sá tilgangur að félmrh. skipi nefnd eða hafi samband við sveitarfélögin, en við höfum raunar enga tryggingu fyrir því og allt aðra reynslu á undanförnum árum. Ég á ekki við hæstv. félmrh. heldur bara alla ráðherra sem hafa verið hér á undanförnum árum.

Hvernig á að taka á svona flóknu máli til að tryggja því framgang er svo erfiðara mál. Ég held að engum blandist hugur um það að frárennsli frá þéttbýlisstöðum, Reykjavíkurborg og ýmsum öðrum, er ekki í því lagi sem við verðum að krefjast. Þó er þetta e.t.v. enn þá verra á þröngum innfjörðum því að hér eru þó nokkuð miklir straumar í kring. Hins vegar kemst frárennslið allt of stutt frá fjöruborði og það er vandamálið.

En það er ekki eingöngu frárennslið sem um er að ræða. Það er líka vandamál með ýmislegt annað í sambandi við okkar umhverfismál.

Það er orðin vaxandi krafa hjá þjóðinni og auðvitað víðar — það er vaxandi krafa erlendis þó að það sé misjafnt hvernig umhverfismálin þar eru — að þessi mál séu athuguð og við hljótum að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að taka á þessu máli.

Ég er þó með efasemdir í sambandi við hugleiðingar síðasta hv. ræðumanns um laxeldið, a.m.k. þar sem það er ekki í þröngum fjörðum. Ég held að okkur stafi ekki hætta af því. Okkur stafar kannski meiri hætta af því að hafa kvíar stutt frá þéttbýlisstöðum, að það geti orðið til þess að slys verði í sambandi við fiskinn sem við erum að framleiða. En það vill svo til að a.m.k. alls staðar utan þröngu fjarðanna er það mikil hreyfing að ég hef ekki trú á því að það komi að sök. Hins vegar er það þekkt í Noregi að úrgangsefnin, fyrst og fremst fóðurúrgangurinn, hafa orðið til þess að drepa fiskinn. En þetta er bara mín skoðun og er sjálfsagt að athuga það, en ég held að það sé hættulegt fyrir okkur að hafa þessar kvíar í námunda við þéttbýli frekar en að við þurfum að vera svo hrædd við mengunarhættu af fiskeldinu sjálfu.