04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4217 í B-deild Alþingistíðinda. (2965)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Stefán Valgeirsson:

Virðulegur forseti. Ég hafnaði því að vera meðflm. að þessari till. og tel því rétt að ég geri hér og nú grein fyrir því hvers vegna það var. Ég ætla samt að byrja á því að segja frá því að Sigtryggur Þorláksson, hreppstjóri á Svalbarði, hefur verið með þetta mál um langan tíma og er ég hér með í höndum skýrslu frá honum um þetta málefni. Hann hefur komið hingað suður, kom t.d. á sl. hausti og ég átti samtal við hæstv. iðnrh. og Kristján Jónsson, framkvæmdastjóra RARlKs um þessi málefni.

Það kom fram hjá Kristjáni að ekki væri ástæða til að gera neitt í þessum málum að sinni. Það væri á áætlun að leggja línu 1992 og það væri útlit fyrir að það væri hægt að halda hinni við með sæmilegu móti fram að þeim tíma. Hann óskaði þess að hæstv. ráðherra beitti sér fyrir því að fá fjármagn til þess að ljúka athugun á Sandárvirkjun.

Með okkur Sigtryggi var Guðmundur Björnsson verkfræðingur sem hefur gert þessa athugun. Það kom fram hjá Sigtryggi að sýslunefndin væri búin að kosta til um einni milljón til að gera þessar athuganir. Ég er hér með mikla skýrslu um þetta mál allt saman frá Verkfræðiskrifstofu Guðmundar og Kristjáns.

Það var líka ósk hans að þessi milljón, sem sýslunefndin er búin að leggja í þetta, yrði endurgreidd. Því miður var það nú ekki gert. En strax þegar þessar bilanir komu fram á línunni og auðséð var að ofmetinn hefði verið styrkur þessarar línu, þá átti ég að ósk Sigtryggs og fleiri manna fyrir austan samtal við Kristján Jónsson og hæstv. iðnrh. um þetta vandamál og fór enn fram á það að í lánsfjáráætlun yrði sett fjármagn til þess að geta á næsta sumri lokið þessari könnun.

Ráðherra og Kristján Jónsson tóku máli Norður-Þingeyinga mjög vel. Ráðherra vildi ekki beita sér fyrir því að koma inn á lánsfjáráætlun fjármagni til þess að ljúka þessu og það varð að samkomulagi við þá báða að þegar yrði hafist handa til þess að gera skýrslu um úrbætur á þessu máli. Ráðherrann taldi að ef í ljós kæmi að það væri betri kostur að athuguðu máli að virkja Sandá heldur en að flýta línunni mundi hann finna ráð til þess að fá fjármagn með einhverjum hætti til þeirra hluta.

Af þessari ástæðu, þar sem það sem felst í þáltill. var komið af stað, gat ég ekki og sá ekki ástæðu til að fara að flytja um það tillögu, enda hafði ég ekki möguleika á því að ná til ráðherrans og hefði aldrei farið að flytja tillögu eftir þá vinsamlegu viðræðu fyrir hönd þeirra fyrir austan við hann um þetta mál.

Það kemur fram hjá RARIK, þar sem ég gríp inn í skýrslu þeirra, með leyfi forseta: „Sé litið á málið frá þjóðhagslegu sjónarmiði gerir staðsetning virkjunarinnar það að sé hún byggð á réttum tíma má fresta byggingu 66 kílóvolta línu frá Kópaskeri til Brúarlands. Sé miðað við nýjustu orkuspá gæti þessi frestun orðið 10-13 ár eða frá 1992 fram til 2002–2005.

Heildarkostnaður við þessa línulögn ásamt nauðsynlegum breytingum í aðveitustöðvum er án tolla og aðflutningsgjalda nálægt 100 millj. Til þess að fá fram þessa frestun á línulögninni er nauðsynlegt að virkjunin verði tilbúin til notkunar 1992, eða skömmu eftir að Blönduvirkjun verður tekin í notkun. Verði ekki samið um frekari sölu til stórnotanda samhliða Blönduvirkjun mun hún anna aukinni notkun á almennum markaði fram yfir aldamót.

Þjóðhagslega verður því ekki þörf á annarri virkjun á þessum árum og frestun á línulögn, sem er ódýrari en virkjunin, getur því ekki réttlætt virkjunina út frá þjóðhagslegu sjónarmiði ef umframorkuvinnslugeta verður í landskerfinu á þessum árum. Út frá hagsmunum Rafmagnsveitna ríkisins getur þessi virkjun hins vegar verið hagkvæm.“

Ég viðurkenni það nú að ég skil nú ekki þennan málflutning. (HBl: Þá er að lesa það aftur.)

„Með því að fresta 66 kv. línunni frá Kópaskeri til Brúarlands um 10–13 ár gætu sparast 50–60 millj. kr. að núvirði í fjárfestingu. Á móti koma meiri orkutöp á línunni Kópasker-Brúarland þar sem hún væri rekin á 33 kv. spennu í stað 66 kv. Þessi munur gæti samsvarað um 20 millj. að núgildi á þessum 10–13 árum. Óbeinn hagnaður Rafmagnsveitnanna af virkjuninni gæti því orðið 30—40 millj.

Ef þessi óbeini hagnaður er dreginn frá stofnkostnaði lækkar árlegur kostnaður sem orkuframleiðslan þarf að standa undir í 8,3–9 millj. og miðað við það gæti virkjunin staðið undir sér jafnvel í slæmum vatnsárum.“

Það væri freistandi að lesa miklu meira upp úr þessum skýrslum. Eins og raunar kemur fram, þó að það sé nokkuð mótsagnakennt í því sem ég las, þá virðist það vera hagkvæmt að fresta línunni en virkja Sandá. En það verður að ákveða það nú þegar því að þessar truflanir eru alls ekki liðnar hjá. Það var verið að vinna við viðgerð á línunni í allan gærdag til kl. eitt í nótt, og hafa fleiri bilanir orðið á undanförnum árum.

Tími minn er nú búinn, en ég mun ræða þetta frekar síðar.