04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4221 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Níels Árni Lund:

Herra forseti. Mig langar til að lýsa yfir stuðningi við þá þáltill. sem hér er til umræðu um gerð áætlunar um úrbætur í raforkumálum í Norður-Þingeyjarsýslu. Mér er málið nokkuð skylt, hef verið varaþm. fyrir þetta kjördæmi í átta ár og auk þess er hér um mínar heimaslóðir að ræða. Ég leiði hugann að því að þegar ég kom hingað fyrst inn á virðulegt Alþingi, þá fjallaði einmitt mín fyrsta ræða um raforkumál í Norður-Þingeyjarsýslu, sem var fsp. um hvenær mundi ljúka þar sveitarafvæðingu sem dregist hafði úr hömlu þá í mörg, mörg ár. Ég veit ekki hvort það ýtti á eftir. Alla vega dróst það enn í ein fimm ár. Þrátt fyrir góð loforð, bæði ráðherra og annarra sem áttu hlut að máli um að þetta væri að koma, þá dróst samt stöðugt að þessir bæir sem þar um ræddi fengju rafmagn. Í máli hv. flm. þessarar tillögu, Valgerðar Sverrisdóttur, kom það einmitt fram að Norður-Þingeyjarsýsla væri viss botnlangi hvað varðar raforkumál og hún er það einnig varðandi mörg önnur mál.

Ég held þess vegna að þessi tillaga sem hér er lögð fram sé af hinu góða þó hún geri ekki nema það eitt að ýta á eftir málinu enn frekar. Þó svo að einhverjir þm. hafi fengið loforð einhverra manna einhvern tímann um það að þetta sé í lagi, þá hef ég reynslu fyrir því sjálfur að slíkt er haldlítið veganesti. Alla vega hefur oft lítið miðað þó svo að slík loforð hafi komið fram og vitna ég þar enn til þeirrar sveitarafvæðingar sem ég nefndi fyrr í ræðu minni.

Ég vil síðan einnig lýsa yfir ánægju minni með upplýsingar iðnrh. sem hér komu fram, bæði það að hann sé að skoða þetta mál og kannski ekki síður þeim yfirlýsingum hæstv. iðnrh. að hann vonaðist til að byggðin á þessum stað mundi styrkjast fremur en veikjast á næstu árum. Undir það tek ég hjartanlega.

En ég ítreka að ég fagna þessari þáltill. og tel að þó hún verði ekki nema rétt til þess að ýta enn frekar á þetta mikilvæga mál fyrir þá íbúa sem þarna búa, þá nær hún vel tilgangi sínum.