04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (2969)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég þakka iðnrh. fyrir þær góðu undirtektir sem hann lýsti hér áðan og vil vænta þess að sú nefnd sem fær þessa þáltill. til meðferðar, sem er væntanlega atvmn. Sþ., hraði afgreiðslu málsins. Eins og hv. þingdeildarmenn hafa heyrt af því sem hér hefur verið sagt er um mjög brýnt mál að ræða og veldur satt að segja vonbrigðum að allir þm. kjördæmisins skyldu ekki hafa skrifað undir þessa tillögu. En það er nú stundum svona að þegar áhuginn er mikill, þá kunna menn sér ekki hóf og í þessu tilviki hygg ég að ekki sé því til að dreifa að hv. 6. þm. Norðurl. e. vilji ekki láta athuga þessi mál út frá öllum hliðum, heldur hitt að hann sé svo áhugasamur að hann megi ekki vera að því að bíða eftir afgreiðslu nefndarinnar. En einmitt með hliðsjón af því vil ég biðja nefndina um að hraða mjög störfum til þess að þessi gamli vinur okkar róist nú og geti staðið með okkur að lokaafgreiðslu málsins.

Ég þakka iðnrh. fyrir hans góðu undirtektir sem væntanlega staðfesta það að þess sé ekki langt að bíða að Norður-Þingeyingar fái úrbætur í sínum málum og að hringtenging verði þá á norðaustursvæðinu frá Kópaskeri til Vopnafjarðar.