04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4222 í B-deild Alþingistíðinda. (2970)

226. mál, úrbætur í raforkumálum Norður-Þingeyjarsýslu

Pálmi Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu að marki. Sú till. sem hér er flutt sýnist mér að séu eðlileg viðbrögð hv. þm. Norðurl. e. við þeim áföllum sem orðið hafa á stofnlínu á milli Kópaskers og Brúarlands í Þistilfirði á undanförnum vikum og raunar, eins og fram hefur komið, nokkuð títt á undanförnum árum.

Í janúarmánuði urðu tvisvar sinnum ísingarveður á þessu svæði sem ollu bilunum svo sem hæstv. iðnrh. hefur lýst og einnig var þar bilun nú í gærkvöld eða nótt.

Það er nú svo að það er aldrei hægt að segja fyrir um það hvenær alvarleg ísingarveður skella á og sumpart er það svo að línukerfi okkar er ekki í stakk búið til að mæta öllum slíkum áföllum. Eigi að síður er eðlilegt að menn vilji bregðast við þessu með þeim hætti að reyna að bæta úr eftir því sem föng eru á. Hæstv. iðnrh. hefur rætt þetta mál hér með jákvæðum hætti.

Ég kem hér upp í þennan ræðustól til þess að vekja enn athygli á því að Rafmagnsveitur ríkisins, sem annast raforkudreifingu á þessu svæði, gera framkvæmdaáætlanir í fyrsta lagi til langs tíma, í öðru lagi til fimm ára, í þriðja lagi til tveggja ára og í fjórða lagi til eins árs, sem gert er með fjárlögum hverju sinni sem ákveðin eru og samþykkt af Alþingi.

Í áætlunum Rafmagnsveitna ríkisins um framkvæmdir er reynt að sinna tveimur markmiðum. Í fyrsta lagi að leitast við að tryggja það að afhending raforku sé með sæmilegu öryggi á því svæði sem Rafmagnsveiturnar eiga að þjóna. I öðru lagi að gæta hófsemi í útgjöldum vegna fjárfestingar eftir því sem kostur er.

Þrátt fyrir að Rafmagnsveitur ríkisins byggi upp sínar áætlanir með þessi tvö markmið í huga, þá verður það fyrirtæki að sæta því að þær áætlanir eru skornar niður ár frá ári við gerð og undirbúning fjárlaga. Þetta er öllum kunnugt. En þetta veldur því að ekki tekst að fá fjármagn til allra þeirra hluta sem við kynnum að óska. Ef hraðar væri farið í fjárfestingu mundi það auðvitað líka kalla á aukin útgjöld. Annað tveggja, og langlíklegast, í hærra raforkuverði. En þá að öðru leyti, ef stjórnvöldum sýndist svo, að hraða meira fjárfestingu og auka útgjöld til þeirra, þá yrði það að koma fram í beinum framlögum ríkisins.

Ég vil segja frá því varðandi þetta mál að línulögn á milli Kópaskers og Brúarlands hefur verið á áætlun Rafmagnsveitna ríkisins á árunum 1991–1992. Engin vissa er fyrir því á þessari stundu að hægt sé að fullyrða um þann framkvæmdatíma. Það fer eftir fjármagni. Rafmagnsveitur ríkisins hafa nýlokið við mjög kostnaðarsama framkvæmd, sem er bygging stofnlínu á milli Laxár og Kópaskers, og er það vitaskuld gert til þess að tryggja raforku inn á þetta svæði þó svo að línur frá Kópaskeri séu ekki jafnöruggar og þyrfti að vera. En þessi lína, frá Laxá að Kópaskeri, hefur verið viðamesta framkvæmd á vegum Rafmagnsveitnanna á undanförnum árum.

Nú er okkur vitaskuld ljóst hjá Rafmagnsveitum ríkisins, eftir þau áföll sem orðið hafa, að það er nauðsynlegt að leitast við að finna skjótari lausnir en hér hefur verið rætt um. Þess vegna hefur verið rætt um það að hraða því að auka varaafl á þessu svæði sem gæti að mestu leyti bætt úr því öryggisleysi sem þetta fólk á við að búa sem þarna býr. Þess er þó að geta að varaaflsvél, sem sett kynni að verða niður á Þórshöfn, er ekki á fjárlagaáætlun þessa árs og það er verið að athuga möguleika á því hvort unnt sé að tryggja þetta mál, þrátt fyrir að það sé ekki inni á fjárlögum, þá með því að láta eitthvað annað víkja. En þetta er sú skjótasta lausn í þessum málum til þess að bæta úr öryggisleysi sem hægt er við að koma.

Ég vil ekki fullyrða hvort þetta verður gert eða á hvern máta þetta verður gert, en aðeins láta þessar upplýsingar koma hér fram til viðbótar við hinar jákvæðu undirtektir sem fram komu hjá hæstv. iðnrh.

Þess má að lokum geta að fjárlagatillögur Rafmagnsveitna ríkisins fyrir þetta ár til fjárfestingar námu 150 millj . kr. Stjórnvöld og Alþingi ákváðu að hækka tillögur Rafmagnsveitnanna um 55 millj. kr. til þess að byggja línu niður á Krosssand frá Hvolsvelli sem kostar um 55 millj. og auka lántökur fyrirtækisins til þess að mæta því. En miðað við þessar tölur hefur hér verið sagt, sem er rétt, að talið er að lína milli Kópaskers og Brúarlands kosti um 100 millj. kr. og grófar áætlanir um byggingu virkjunar við Sandá eru um 150 millj. kr. Þetta verður athugað nánar í þeirri framvindu málsins sem hér hefur verið lýst og hæstv. iðnrh. hefur tekið undir það.