04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4227 í B-deild Alþingistíðinda. (2976)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs utan dagskrár til að ræða þá stöðu sem uppi er í efnahagsog kjaramálum og leggja fyrir hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar spurningar í því sambandi.

Ég vil leyfa mér í upphafi að þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa þessa umræðu þar sem ég tel það mjög brýnt að þessi mál séu rædd hér á Alþingi, mjög brýnt að hæstv. ríkisstjórn greini frá áformum sínum, ef einhver eru, um aðgerðir og lýsi afstöðu sinni til þeirrar stöðu sem kjaramál og samningar aðila vinnumarkaðarins eru nú í. Ég vil leggja nokkrar spurningar fyrir hæstv. forsrh., spurningar sem í raun og veru brenna á allra vörum þessa dagana.

Svör hæstv. ríkisstjórnar hafa verið næsta fátækleg fram að þessu hvað varðar stefnuna í efnahagsmálum. Menn hafa jafnvel haft á orði að ástæða væri til að auglýsa eftir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar í Ríkisútvarpinu eða í tapað/fundið dálkum dagblaðanna.

Vegna óvissu í efnahagsmálum og algers stefnuleysis eða a.m.k. aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar hefur verkalýðshreyfingin undanfarið sett stefnuna á skammtímaaðgerðir til að rétta við fallandi kaupmátt launafólks. Nú hefur hins vegar óbilgirni vinnuveitenda siglt þeim tilraunum í strand og allt eins líklegt er að fram undan sé tími nýrrar kröfugerðar og átaka, þar sem tekist verður á um kjörin til lengri tíma litið. Ég tel að þessi niðurstaða sé mikið áfall fyrir hæstv. ríkisstjórn vegna þess að þetta dregur enn frekar en áður athyglina að stefnu- og aðgerðarleysi hennar í efnahagsmálunum. Hafi það verið erfitt fyrir aðila vinnumarkaðarins að gera kjarasamninga við þá óvissu sem ríkjandi er til skamms tíma, þá er það auðvitað enn erfiðara að innsigla og ganga frá kjarasamningum til lengri tíma litið við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ég held einnig að ríkisstjórninni hefði ekki veitt af þeim tíma sem unnist hefði með skammtímalausn, skammtímaniðurstöðu í samningum til að hugsa sig um, til að reyna að finna sína efnahagsstefnu.

Það er greinilegt að hæstv. ríkisstjórn á það sameiginlegt með dínósárusunum fornu, risaeðlunum, að hún er lengi að hugsa. Fornfræðingar, sem kanna lifnaðarhætti þessara fornu skepna, hafa stundum velt því fyrir sér hvort þar sé að finna eina af ástæðum þess að risaeðlurnar hurfu úr lífríki jarðarinnar fyrir um 70 milljón árum síðan, við lok miðlífsaldar, að þær hafi verið svo lengi að hugsa að þær hafi ekki verið samkeppnisfærar við aðrar lífverur sem þá voru uppi. Á sama tíma var og uppi önnur forneðla sem hét týrannósárus og var ráneðla. Sú kenning hefur verð sett fram að ef týrannósárus, ráneðlan, beit í halann á dínósárus, risaeðlunni, þá hafi skilaboðin um það að verið væri að éta halann ekki komist fram í heilann fyrr en hálftíma síðar. M.a. þetta hafi gert það að verkum að dínósárus varð algjörlega ósamkeppnisfær, eins og það heitir á nútímamáli markaðshyggjumanna.

Ég hygg að þessi líking, þó hún eigi kannski hóflega vel við, veki mann samt til umhugsunar um það að þeir sem eru allt of lengi að hugsa verða að lokum ósamkeppnisfærir og hverfa í burtu. Verða undir í samkeppninni. Ég held að hæstv. ríkisstjórn hafi þegar haft næstum því allan umþóttunartíma sinn. Og nú spyrja menn um aðgerðirnar vegna þess að tíminn er skammur. Vegna þess að Róm brennur, eins og hæstv. utanrrh. hefur orðað það.

Þessi staða sem nú er uppi kallar enn frekar á það að hæstv. ríkisstjórn geri grein fyrir stefnu sinni í efnahagsmálum, afstöðu sinni til kjaramála og skýri hvers er að vænta á næstunni af hennar hálfu í þessum efnum. Í því sambandi vil ég ræða nokkur efnisatriði sérstaklega og spyrja hæstv. forsrh. lið fyrir lið um væntanlegar aðgerðir ríkisstjórnar á þeim sviðum.

Í fyrsta lagi um stöðu atvinnuveganna. Einkum útflutningsgreinanna. Það er upplýst að botnfiskveiðar í heild séu nú reknar með 3–5% tapi, þar af frystingin með a.m.k. 7–9% tapi og fer vaxandi. Þetta byggir á könnun frá því í nóvember eftir fiskverðsákvörðun sem þá var tekin. Síðan er það augljóst mál að staðan hefur versnað hvað þetta varðar. Staða útflutningsiðnaðarins, einkum ullariðnaðarins er mjög alvarleg eins og kom fram í fyrirspurnatíma hér á Alþingi fyrr í dag. Þar er við mikla erfiðleika að etja. Sama má segja um samkeppnisiðnaðinn. Á hans hlut hallar núna stórlega. Störfum fækkar í iðnaði svo tugum eða hundruðum nemur á hverjum mánuði og markaðshlutdeild innlendra samkeppnisgreina minnkar. Þegar hugsað er til þessa ástands er það í raun og veru með ólíkindum að fyrir fáeinum vikum keyrði hæstv. ríkisstjórn hér í gegnum Alþingi auknar álögur á þessar atvinnugreinar, á sjávarútveginn og á útflutningsiðnaðinn, í formi þess að dregið var úr endurgreiðslum á uppsöfnuðum söluskatti og lagður var launaskattur á þessar greinar. Því spyr ég varðandi rekstrarstöðu atvinnuveganna: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir í sambandi við rekstrarskilyrði í fyrsta lagi sjávarútvegsins og í öðru lagi iðnaðarins? Eða á að horfa á störfum fækka um tugi og hundruð í hverjum mánuði í þeirri grein án þess að hafast nokkuð að?

Í öðru lagi vil ég spyrja um vextina. Og það er nátengt því sem rætt var hér á undan. Vaxtakostnaður fjölmargra fyrirtækja í landinu er nú sambærileg stærð, eða meiri, og launagreiðslur fjölmargra venjulegra fyrirtækja sem hafa þannig lagaða starfsemi að hún krefst mikils vinnuafls. Engu að síður er þessi kostnaðarliður í bókhaldi fjölmargra þeirra fyrir árið 1987 sambærileg, eða hærri, tala og allar launagreiðslur.

Hæstv. ríkisstjórn og vinnuveitendur eru fáorð, næsta fáorð um þær hækkanir sem orðið hafa á fjármagnskostnaði. Það er ekki rekið upp sambærilegt ramakvein yfir þeim geysilegu álögum sem þannig leggjast á atvinnulífið og gert er ef launin eiga að hækka um eina einustu krónu. Þá er allt í voða. En þó að fjármagnskostnaður fyrirtækjanna, eins og í sjávarútvegi og iðnaði sem búa við taprekstur, vaði núna upp úr öllu valdi er ekki kvartað yfir því, a.m.k. ekki með sama hætti og grátið er yfir því ef mönnum dettur sú ósvinna í hug að leiðrétta, þó ekki nema í litlu væri, kjör þeirra sem lægst hafa launin. Og við skulum huga að því að taprekstur, eins og sá sem nú liggur fyrir í fiskvinnslunni og iðnaðinum, verður auðvitað þeim mun alvarlegri með hverjum deginum sem líður sem vextirnir eru hærri, sem fjármagnskostnaður fyrirtækjanna er meiri. Vaxtamunurinn í þessu landi er svo óheyrilegur, er með þeim fádæmum, að það er auðvitað algjört undirstöðuatriði, ef ríkisstjórnin ætlar að taka á efnahagsmálunum, að gripið verði inn í vaxtamálin.

Hér kom út skýrsla í desembermánuði, áfangaskýrsla frá Seðlabanka Íslands samkvæmt nýjum lögum um bankann þar sem gert er ráð fyrir því að hann geri ríkisstjórn og Alþingi og öðrum aðilum tvisvar á ári grein fyrir þróun peninga- og vaxtamála og gjaldeyrismála. Seðlabankinn, trúr þessum lögum, gerði þetta með ársskýrslu sinni sl. vor og aftur með sérstakri skýrslu nú í desember. Það væri ástæða til, herra forseti, að hæstv. viðskrh. beitti sér fyrir því að þessi skýrsla yrði sérstakt dagskrárefni hér á Alþingi og kæmi til umræðu en ég vil leyfa mér í þessu sambandi vegna umræðna um vextina og spurninga þar að lútandi að vitna örlítið í þessa skýrslu frá Seðlabankanum. Hún dregur í raun upp mjög dökka mynd af stöðunni í peningamálum og vaxtamálum. Þar segir, með leyfi forseta, í 3. kafla á bls. 2:

„Raunvextir á lánamarkaði hafa farið hækkandi og hafa sennilega aldrei verið jafnháir. Raunvextir óverðtryggðra lána virðast þó ekki hafa verið mjög háir fyrri hluta ársins," — sem hlýtur þá að eiga að skilja svo að þeir hafi verið mjög háir seinni hluta ársins. „Ástæðan er sú að innlánsstofnanir hafa sennilega vanmetið verðbólguhraðann á því tímabili. Jafnframt hafa grunnvextir verðtryggðra útlána farið hækkandi og eru nú að meðaltali um 9,5% en voru 5,9-6,2% í upphafi árs. Ákvörðun vaxta inn- og útlána hefur að mestu verið í höndum innlánsstofnana og hefur Seðlabankinn ekki haft frumkvæði að vaxtabreytingum heldur fylgt fast eftir með breytingum eigin vaxta.“ Þetta hefur í raun snúið alveg öfugt. Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi annarra í staðinn fyrir að reyna að hafa áhrif á það sjálfur. „Vonast hefur verið til að hærri vextir myndu draga úr útlánaeftirspurn en sú virðist enn ekki hafa orðið raunin.“ Og enn eru auðvitað spekingarnir hissa á því að þessir óskaplegu vextir skuli ekki leiða til minnkaðrar ásóknar í lánsfé.

En þurfa menn frekar vitnanna við? Er það ekki fullreynt að þessir hlutir ganga ekki þannig fyrir sig, a.m.k. ekki hér í hinu íslenska hagkerfi?

Síðan kemur í þessari skýrslu Seðlabankans nokkuð lúmskt skot á hæstv. ríkisstjórn og reyndar þá fyrrverandi einnig því að það segir í þessum kafla á bls. 3, með leyfi forseta: „Annars er hætt við að tímabundið offramboð peninga leiti út í eftirspurn. Á þetta ekki síður við ár kosninga en önnur. En ætla má að kosningar og stjórnarmyndunarviðræður hafi tafið mjög markvissar ákvarðanir í þessum efnum á yfirstandandi ári.“

Þessi skýrsla er vel að merkja útkomin í desember, þ.e. á sl. ári. Hér er auðvitað undir rós sagt á mjög penan hátt eins og þeir kunna í Seðlabankanum að ekki hafi verið gerð nein heiðarleg tilraun til að stjórna þessum málum allt sl. ár og það er rétt. Það er að vísu fært til málsbóta að það hafi verið kosningar á árinu en eftir stendur mat Seðlabankans á því að í raun og veru hafi ekki verið gerð nein heiðarleg tilraun til að hafa áhrif í þessum efnum.

Síðan vil ég aðeins vitna í töflur sem birtast í þessari skýrslu um vaxtamuninn og það hvernig vextirnir hafa verið að hækka á sl. ári. Þar kemur til að mynda fram að meðalávöxtun óverðtryggðra skuldabréfa og víxla var í októbermánuði 1986 16,3% en í nóvember 1987 38,9%. Og verðtryggð löng lán fóru úr 5% upp í 5,9% á sama tíma.

Hver er svo staðan? Hver er raunávöxtun mismunandi flokka útlána og innlána í nóvemberlok á síðasta ári? Hún er sú að raunávöxtun almennra tékkareikninga, miðað við 26,6% verðbólgu á þessum tímamörkum, 21. nóv. 1987, er mínus 15,4%, neikvæð um 15,4%. Sérstakir tékkareikningar eru með neikvæða raunávöxtun upp á 5,2%, almennar sparisjóðsbækur með neikvæða raunávöxtun upp á 4,6%, þriggja mánaða óverðtryggðir reikningar enn með neikvæða raunávöxtun upp á 2,8% og það eru tveir minni háttar innlánaflokkar sem bera litla eða lága jákvæða ávöxtun.

En útlánin? Hvernig standa svo vextirnir á útlánunum? Hver er sem sagt vaxtamunurinn? Hann er sá að útlánavextir á almennum víxlum skila 11% raunávöxtun í nóvember 1987, útlánavextir á hlaupareikningum 14,1%, almenn skuldabréf með tveimur gjalddögum 9,1%, verðtryggð skuldabréf 9,5% og á 60 daga viðskiptavíxlum er jákvæð raunávöxtun upp á 14,6%. Þannig að ef maður tekur þessa almennu flokka, annars vegar innlána og hins vegar útlána, er innlánamegin um að ræða neikvæða ávöxtun á bilinu 2–16% en útlánamegin jákvæða á bilinu 9–15%. Þetta er myndin sem við okkur blasir í vaxtamálunum. Og er því nema von að spurt sé: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að láta þetta ganga svona lengi til? Hyggst hún grípa til aðgerða? Verður Seðlabankanum skipað að nýta sér heimildarákvæði 9. gr. laga um Seðlabankann og grípa inn í vaxtaákvarðanir eins og ríkisstjórnin og Seðlabankinn hafa nægar lagaheimildir til?

Ég hygg að þetta sé e.t.v. eitt stærsta einstaka atriðið í allri efnahagsmálaumræðunni. Verður beðið áfram, svona séð til, hvort þessi guðlegu lögmál ná að lokum jafnvægi, jafnvel þó að það jafnvægi náist yfir höfuðsvörðum síðasta fyrirtækisins á Íslandi, verði grundvallað á rústum heimilanna og fyrirtækjanna í landinu? Ætlar hæstv. ríkisstjórn að halda tilrauninni svo lengi áfram, ef með þarf, til að fá við því svör hvort markaðshyggjan skili þeim árangri sem menn einu sinni ætluðu henni í þessum efnum, eða hvað?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstvirta ráðherra um gengismálin. Ég er reyndar þeirrar skoðunar eins og fleiri að það sé ekki heppilegt að vera með miklar yfirlýsingar fyrir fram um þau efni, næg sé óvissan og nægar séu áhyggjur manna fyrir þó að ráðamenn séu ekki með stórar yfirlýsingar um þau mál. Og hvers vegna er ég þá að spyrja um það hér? Ég leyfi mér það að gefnu því fordæmi að hæstv. ráðherrar eru blaðrandi um þau mál út og suður, í fjölmiðlum, á fundum, og víðast hvar annars staðar þar sem þeir hafa tækifæri til, ekki færri en þrír hæstv. ráðherrar hafa undanfarnar vikur fjallað með næstum að segja furðulegum hætti um stöðu gengismálanna á fundum eða í fjölmiðlum. Ég nefni hæstv. utanrrh., ég nefni hæstv. fjmrh. og ég nefni hæstv. iðnrh. Allir þessir ráðherrar hafa verið með yfirlýsingar af því tagi að það hlýtur að vera leyfilegt að spyrja hæstv. ríkisstjórn um hvað sé á döfinni varðandi gengismálin. Eru væntanlegar sérstakar hliðarráðstafanir til þess að tryggja óbreytt gengi því að öllum má vera ljóst að án þeirra gengur það ekki upp? Eru þá á dagskrá hjá ríkisstjórninni ráðstafanir í þeim efnum til að styðja við bakið á útflutningsatvinnuvegunum o.s.frv. til þess að forða þá gengisfellingu? Eða á bara að sjá til? Á bara að sjá til með þetta eins og með vextina?

Í fjórða lagi vil ég spyrja um kjaramálin. Hvað hefur ríkisstjórnin hæstv. fram að færa í þeim efnum? Nú hefur verið rætt um í tengslum við gerð kjarasamninga og þegar gerðra kjarasamninga, eins og á Vestfjörðum, ráðstafanir eins og hækkun persónufrádráttar og sérstakan frádrátt fyrir fiskvinnslufólk. Hvað hefur hæstv. ríkisstjórn fram að færa, fram að bjóða, í þeim efnum? Er hæstv. forsrh. sammála atvinnurekendum sem höfnuðu sáttatilboði Verkamannasambands Íslands? Er hann sammála, hæstv. forsrh., um það að 9% eða jafnvel aðeins 7% grunnkaupshækkanir til þeirra sem lægst hafa launin, ásamt með starfsaldurshækkunum og nokkrum öðrum ákvæðum, séu óaðgengileg krafa í dag þegar það liggur fyrir að lægstu launin þurfa að hækka um 13–14% til að halda kaupmættinum og verði beðið út þennan mánuð þarf eflaust að hækka þau um ein 2% í viðbót þannig að nauðsynleg grunnkaupshækkun gæti um næstu áramót, ef ekki hafa náðst samningar, þurft að verða 15, 16, 17% til þess eins að halda kaupmætti lágmarkslaunanna? Er þá krafa um 9% eða jafnvel aðeins 7% ósvinna? Vill hæstv. forsrh. svara því?

Ég vil einnig spyrja hæstv. forsrh. hverju það sæti að svo virðist sem ríkisstjórnin hafi í raun og veru engan áhuga haft á þeim samningatilraunum sem staðið hafa yfir undanfarna daga. Mér er tjáð af samningamönnum Verkamannasambands Íslands að þeir hafi ekki orðið varir við ríkisstjórn í landinu frekar en að hún væri ekki til þessa dagana. Veit þá e.t.v. hæstv. ríkisstjórnin ekki af því að kaupmátturinn hríðfellur og að óbilgirni vinnuveitenda er að öllum líkindum að leiða til stórfelldra kjaraátaka í landinu? Hvert er mat hæstv. ríkisstjórnar á forsendum kjarasamninga, á kaupmáttarhrapinu? Hefur ríkisstjórnin e.t.v. engar áhyggjur af því þó að kjarasamningar dragist á langinn viku eftir viku og mánuð eftir mánuð við þær aðstæður að kaupmáttur lágmarkslaunanna hrapar og að búið er að leggja á matarskatt sem hækkar matarútgjöld þessara heimila um fleiri þúsund krónur á mánuði? Það er von að spurt sé. Er kannski hæstv. ríkisstjórn bara hæstánægð með það að það náist engir kjarasamningar? Vill hún e.t.v. að það ástand vari sem lengst því að auðvitað er kaupmátturinn að hrapa þar með?

Í fimmta lagi væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ríkisstjórn nokkur orð um stöðu ríkissjóðs, m.a. vegna þeirra umræðna sem uppi hafa verið um að auka á ný endurgreiðslur uppsafnaðs söluskatts frá því sem gert var ráð fyrir við afgreiðslu fjárlaga. Hvernig á þá að brúa bilið? Hvers er að vænta frá hæstv. ríkisstjórn í þeim efnum?

Það væri einnig, í sjötta lagi, fróðlegt að fá að heyra eitthvað um viðskiptahallann frá hæstv. ríkisstjórn. Nú liggur það fyrir, samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun sem ég hef undir höndum, dagsettum 22. jan. 1988, að líklega verður viðskiptahallinn enn meiri en síðast var talið, mat manna á viðskiptahallanum hefur verið að hækka með reglulegu millibili sl. vikur. Fyrst úr 1–2 milljörðum í 2–4, í 4,5, í 4,5–6, og nú í 6,5, og nú 22. jan. 1988 segir Þjóðhagsstofnun: Líklega verður viðskiptahallinn enn þá meiri, enn meiri en 6,5 milljarðar. Hvers vegna? Vegna þess að vöruskipta- og þjónustujöfnuðurinn samanveginn, þegar það hefur verið gert upp, kemur til með að auka þetta enn.

Hvernig eru þá horfurnar fyrir árið 1988? Er þá ekki líklegt að talan 10 milljarðar, sem Þjóðhagsstofnun nefndi um áramótin, sé einnig að hækka?

Hvað hyggst hæstv. ríkisstjórn gera af þessu tilefni sérstaklega? Þegar þessi hlutföll standa þannig að raungildi vöruútflutnings jókst um tæp 2% á sl. ári, hvað var þá með innflutninginn? Hvernig fór með hann? Raungildi vöruinnflutnings jókst um 20,5%, meira en tífalt. Þannig standa þessi hlutföll í dag. Finnst mönnum þá ekki ástæða til að spyrja: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera eitthvað í þessu efni eða á að láta þetta afskiptalaust eins og fleira? Á bara að sjá til?

Það er einnig ástæða til að ræða og nefna í þessu samhengi stöðu landsbyggðarinnar sérstaklega vegna þess að þar vega þær greinar, framleiðslu- og útflutningsgreinar, miklu þyngra og eru í raun undirstaða alls atvinnulífs og það er einmitt afkoma þeirra sem hér er sérstaklega verið að ræða um. Versnandi staða í sjávarútveginum og afleit staða kaupfélaganna setja nú mark sitt á ástandið út um landið. Það hygg ég að hv. þm., þeir sem á annað borð hafa haft sig úr höfuðstaðnum út til sinna kjördæma, hafi orðið áþreifanlega varir við hafi þeir rætt við sína umbjóðendur. Og þær fréttir sem berast þessa dagana af afkomu sveitarfélaganna á landsbyggðinni segja í raun sömu sögu. Þar eru miklir erfiðleikar við að ná endum saman í gerð fjárhagsáætlana. Þegar þetta ástand blasir við mönnum ofan í fólksflóttann á síðasta ári sem var meiri en um áratuga skeið er von að spurt sé: Er hæstv. ríkisstjórn að skoða stöðu landsbyggðarinnar, atvinnulífsins þar, sérstaklega eða á að sjá til með það eins og fleira?

Það mætti nefna húsnæðismál og það mætti nefna ýmislegt fleira, herra forseti, en tímans vegna hygg ég að ég láti þessar spurningar nægja. Ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa lýst ástandi hinna íslensku efnahagsmála með þeirri líkingu að Róm sé að brenna. Undir það get ég vissulega tekið. En það sem vekur furðu manna er auðvitað það að einskis lífsmarks verður vart hjá hæstv. ríkisstjórn. Það heyrist ekki einu sinni hljóðfæraleikur, hvað þá meira, á meðan Róm er að brenna. Það er eins og hún sé ekki til, ríkisstjórnin. Hún reynir ekki einu sinni að sarga á fiðlu eða sög á meðan. Hún er bara ekki til. Það heyrist hvergi í henni né sést til hennar.

Þessi umræða hér, herra forseti, er m.a. vakin til þess að gefa talsmönnum hæstv. ríkisstjórnar færi á því að segja hvort og þá hvað stendur til að gera, ef eitthvað. Ætlar hæstv. ríkisstjórn að reyna að slökkva eldana, þó ekki væri nema að taka upp tólið og reyna að hringja á slökkvilið sem hún yrði að fá einhvers staðar annars staðar frá, eða ættar hún bara að horfa á þá, einhvers staðar álengdar?

Það stendur auðvitað næst þeim sem kveikja í að reyna að slökkva. Ef ríkisstjórnin hefur hins vegar enga tilburði uppi til þess og vikur og mánuðir líða geta menn auðvitað ekki setið aðgerðarlausir hjá og horft upp á það ástand. Alþingi Íslendinga hefur ekki leyfi til þess að láta hlutina danka þannig vikum saman við þær aðstæður sem nú eru uppi. Þess vegna er rétt og skylt að þessi mál séu nú tekin hér fyrir og rædd. Og ég hygg að það sé meira en kominn tími á það hjá hæstv. ríkisstjórn, eins og sagt er í dag, að hún fari að svara einhverju til og kveða upp úr um það hvort hún ætlar að reyna að gera eitthvað eða ekki. Spurningin snýst í raun og veru um það.

Í nýjustu samantekt Þjóðhagsstofnunar sem ég vitnaði áður til eru hlutirnir dregnir saman á öftustu síðu með skýrum og hnitmiðuðum hætti og það segir í raun og veru allt sem segja þarf. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þetta fréttaplagg frá 22. jan. aftur. Þar segir:

„Þær horfur um ytri skilyrði þjóðarbúsins sem raktar hafa verið hér að framan fela í sér stöðnun eða jafnvel lítils háttar samdrátt í þjóðartekjum á þessu ári eftir öran hagvöxt sl. þrjú ár. Þessar horfur setja þjóðarútgjöldum þröngar skorður ef takast á að halda verðbólgu og viðskiptahalla í skefjum á næstunni. Efnahagsvandinn sem við er að etja stafar þó ekki af óhagstæðum ytri skilyrðum“.

Ég endurtek, herra forseti: Efnahagsvandinn sem við er að etja stafar þó ekki af óhagstæðum ytri skilyrðum, segir Þjóðhagsstofnun, og það er auðvitað rétt. Vandinn liggur í öðru en því að það séu ekki sköpuð nóg verðmæti í íslenska þjóðarbúinu og að skilyrðin séu ekki hagstæð. Það eru þau einmitt. Við sitjum á toppnum á mestu uppsveiflu íslensks efnahagslífs, en samt brennur Róm.

Vandinn á fyrst og fremst rætur sínar að rekja til þess að þessum verðmætum er vitlaust ráðstafað og það ríkir stjórnleysi í íslenskum efnahagsmálum. Þess vegna er tími til kominn og þó fyrr hefði verið að hæstv. ríkisstjórn greini Alþingi, aðilum vinnumarkaðarins og íslensku þjóðinni frá því hvað hún hyggst gera í málinu.