04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4247 í B-deild Alþingistíðinda. (2979)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég þarf út af fyrir sig ekki að hafa mjög langt mál því hæstv. forsrh. hefur gert ítarlega grein fyrir stöðu efnahagsmála. Ég fagna því hins vegar að þessi umræða fer fram og ég fagna því að stjórnarandstaðan hefur hafist handa um að taka upp þessa umræðu hér á Alþingi. Ég tel að það sé til góðs að það sé gert, sérstaklega ef það má verða til þess að auka raunsæi í efnahagsmálum, hér á Alþingi, hjá þjóðinni allri, hjá launþegum og hjá vinnuveitendum og ég ætla ekkert að undanskilja ríkisstjórn í því sambandi. Auðvitað er það mikilvægt til þess að við getum tekið réttar ákvarðanir og þá án þjóðfélagslegra átaka. Mér þótti leitt að heyra síðasta ræðumann, hv. 16. þm. Reykv., halda því fram að hún óskaði þess helst, ég skildi hana svo, að verkalýðshreyfingin fengi sína fyrri reisn. Ég hef ekki orðið var við það að verkalýðshreyfingin hafi misst sína reisn. En ef það þarf til að vinna reisn að efna til átaka í þjóðfélaginu er illa fyrir okkur komið.

Við verðum hins vegar að gera okkur fulla grein fyrir hvaða ástandi við stöndum frammi fyrir og höfum staðið frammi fyrir lengi. Við stöndum frammi fyrir því að viðskiptahalli verði 4–5% af þjóðartekjum eða svipað og var 1983. Á árinu 1983 varð allt að því hallæri í þessu landi. Við urðum fyrir miklum áföllum og tekjur okkar lækkuðu mikið. Við höfum smátt og smátt verið að vinna okkur út úr þessu ástandi. Við höfum stóraukið okkar þjóðartekjur, við höfum stóraukið kaupmátt og ráðstöfunartekjur eins og hér hefur komið fram. Það er því ekki um það að ræða að við höfum orðið fyrir stórkostlegu áfalli. Það er hins vegar um það að ræða að tekjur okkar hafa hækkað mikið á undanförnum árum og það er eins og allt þjóðfélagið vænti þess að þessar tekjur geti haldið áfram að hækka og það sé vandalaust að halda kaupmætti ráðstöfunartekna síðasta árs jafnvel þótt þjóðartekjur dragist eitthvað saman og nauðsynlegt hafi verið að lækka halla á ríkissjóði eða koma á hallalausum ríkisbúskap.

Auðvitað hlaut sú ákvörðun, að koma á hallalausum ríkisbúskap, að leiða til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna lækkaði. Það varð ekkert hjá því komist. Það má auðvitað deila um það hvernig það skuli gert og hvaða sköttum skuli beitt í því sambandi. Ég tel að þar hafi verið rétt haldið á málum en það varð ekki hjá því komist að slíkt leiddi til nokkurrar kjararýrnunar, nema það hafi þá verið ætlunin að velta slíku yfir á atvinnuvegina sem geta ekki undir því staðið.

Ég vildi aðeins gera að umræðuefni rekstrargrundvöll atvinnuveganna, þá einkum sjávarútvegsins. Ég vænti þess að um það sé samstaða hér á Alþingi, og mér heyrist það, að þessi rekstrargrundvöllur, þ.e. botnfiskvinnslunnar, er óviðunandi. Botnfiskvinnslan getur ekki staðið undir neinum kostnaðarhækkunum. Það hefur verið mikið á hana lagt að undanförnu. Fiskverð hefur hækkað, laun hafa hækkað þrátt fyrir allt og vaxtakostnaður hefur hækkað mikið. Ef svo heldur fram sem horfir getur ekkert annað gerst en að þessi botnfiskvinnsla stöðvist og þar með undirstaða okkar samfélags. Og ætli það muni nú ekki koma við okkur öll, hvar sem við stöndum í þjóðfélaginu, ef þessir atvinnuvegir stöðvast? Hjá því þarf að komast. Það er eitt af þeim verkefnum sem ríkisstjórnin á nú við að glíma og er jafnframt helsta viðfangsefni kjarasamninga um þessar mundir.

Það hefur verið til umfjöllunar í ríkisstjórn, eins og hæstv. forsrh. tók fram, með hvaða hætti yrði aftur tekin upp endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti í meira mæli en þegar hefur verið ákveðið og hvernig að því verður staðið. Það er ekki komin niðurstaða í það mál en ég held að sú skoðun sé ótvíræð að hjá því verði ekki komist miðað við þá stöðu sem nú er uppi.

En það er fleira sem verður að gera. Ég minni á þann viðskiptahalla sem við stöndum frammi fyrir sem áreiðanlega verður vart undir 10 milljörðum ef svo fer fram sem horfir. Það er nokkuð sem við Íslendingar getum ekki staðist til langframa og er óafsakanlegt í því árferði sem nú er.

Menn hafa haldið því fram að ríkisstjórnin hafi setið auðum höndum í þessu máli. Svo er alls ekki. Ríkisstjórnin hefur verið að vinna að því í samvinnu við Alþingi, að sjálfsögðu, að koma á hallalausum ríkisbúskap. Á sl. hausti, þegar laun hækkuðu vegna ákvæða um svokölluð rauð strik, var rætt við aðila vinnumarkaðarins um það hvort ekki væri rétt að fresta þeirri hækkun og nota það svigrúm sem þar kom til þess að jafna launin í landinu. Þær umræður sem þá fóru fram í ríkisstjórn báru þess vott að menn skildu það að slík launahækkun mundi verða til þess að það yrðu brestir í undirstöðuatvinnuvegunum og því væri mikilvægt að koma í veg fyrir þá launahækkun og það svigrúm yrði notað til þess að jafna launamun í landinu. Á það var ekki fallist af aðilum vinnumarkaðarins og þeir töldu réttara að sú launahækkun gengi fram og tekið yrði til við kjarasamninga síðar. Ég tel að þarna hafi orðið mikil mistök og ríkisstjórnin reyndi að gera sitt til að koma í veg fyrir að svo yrði.

Hitt er svo annað mál að ég held að ekki verði hjá því komist að gripið verði til frekari aðhaldsaðgerða í þessu þjóðfélagi til að draga úr viðskiptahallanum. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir því að sú lækkun sem þarf að verða á viðskiptahallanum komi eingöngu fram í rýrnandi kaupmætti fólks hér í landinu. Það verður jafnframt að koma fram í minnkandi fjárfestingum.

Það liggur fyrir samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar að fjárfestingar muni aukast í allmörgum greinum á árinu 1988. Þannig er gert ráð fyrir að fjárfestingar í íbúðarhúsnæði aukist verulega sem er að sjálfsögðu þenslumyndandi og enginn vafi á því að það þarf að gera ráðstafanir til að svo verði ekki. Það er gert ráð fyrir að fjárfestingar í atvinnuvegum, bæði fiskveiðum og iðnaði, verði verulegar og að mínu mati of miklar. Það hefur gætt mikillar bjartsýni í sjávarútvegi og það hefur orðið til þess að margir hyggja á endurnýjun skipa sinna og endurnýjun í sínum fyrirtækjum. Það er út af fyrir sig eðlilegt vegna þess að það hefur verið lítið svigrúm til að endurnýja flotann á undanförnum árum og hann er á margan hátt úreltur. Það má hins vegar ekki gerast nema fyrir því sé fjárhagslegur grundvöllur og því miður hefur það gerst í allmörgum tilvikum að út í slíkar fjárfestingar hefur verið farið án þess að rekstrargrundvöllur væri fyrir hendi og viðkomandi fjármálastofnanir hafa ekki stöðvað slíkar fjárfestingar.

Ég hef fyrir mitt leyti átt viðræður við stjórn Fiskveiðasjóðs og lagt á það áherslu að slíkt gerist ekki og að þar verði gætt mikils aðhalds í öllum lánveitingum. Um það hefur verð rætt í ríkisstjórn að það sama eigi einnig við aðra fjárfestingarlánasjóði.

Það vekur einnig athygli hversu miklar fjárfestingar eru fyrir höndum hjá sveitarfélögunum og þá einkum hjá Reykjavíkurborg. Og það er ástæða til að fara þess á leit við stjórnendur þess sveitarfélags að gæta raunsæis í fjárfestingum og reyna að halda þeim í skefjum því að ábyrgð þess stóra sveitarfélags er mikil í þessu þjóðfélagi. Það eru ekki eingöngu atvinnurekendur, launþegar, ríkisvald og fjármálastofnanir sem bera ábyrgð, heldur ekkert síður sveitarfélögin í landinu. Þetta sveitarfélag hefur gefið út áform um það að fjárfestingar þess verði á árinu 1988 tæplega 41/2 milljarður kr. Þetta mun að sjálfsögðu valda mikilli þenslu hér á Reykjavíkursvæðinu. Og ekki er nú á bætandi. Það hlýtur að vera á ábyrgð þessarar sveitarstjórnar, sveitarstjórnar Reykjavíkur að koma í veg fyrir að slíkt þensluástand sé hér.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil aðeins leggja á það áherslu að við verðum að ráðast gegn þeim viðskiptahalla sem við horfum nú fram á, viðskiptahalla sem mun valda verðbólgu og þenslu ef ekki verður á tekið. Það er alveg sama hvaða kjarasamningar verða undirritaðir af aðilum vinnumarkaðarins. Ef okkur tekst ekki að koma í veg fyrir þensluna mun okkur ekki takast að koma í veg fyrir launaskrið og launahækkanir og það mun koma verst við þá sem minnst bera úr býtum og lágtekjuhópana.

Hv. 16. þm. Reykv. hefur mikla reynslu í sambandi við kjaramál, reynslu sem er mikils virði og rétt er að hlusta eftir hennar reynslu. Hún sagði áðan að hún hefði ekki trú á því að aðilar vinnumarkaðarins mundu geta bætt kjör hinna lakast settu. Þetta er nú samt það verkefni sem aðilar vinnumarkaðarins hafa. Og þetta eru þau hugtök sem aðilar vinnumarkaðarins nota þegar nú er verið að standa í kjarasamningum. Ef það er rétt hjá hv. þm. að það sé alls ekki svo — og hún sagði að ríkisstjórn yrði að tryggja það að kjarabætur yrðu fyrst og fremst til þessa fólks. Það hefur oft verið reynt og það hefur verið gripið inn í kjarasamninga undir þeim merkjum að það ætti fyrst og fremst að bæta kjör þeirra sem minnst bæru úr býtum. Ég minni t.d. á að það var gert hér 1978 í febrúar og það er enginn vafi á því að þær aðgerðir lutu að því að bæta fyrst og fremst kjör hinna lægst.launuðu. En þær aðgerðir voru brotnar niður af aðilum vinnumarkaðarins og ekki virtar af þeim. Það er alveg sama hvað ríkisvaldið gerir í reynd. Þegar upp verður staðið er það fyrst og fremst ábyrgð aðila vinnumarkaðarins að sinna þessu verkefni og koma því til leiðar að laun þeirra lægst launuðu hækki sem mest. Það er hins vegar hlutskipti ríkisvaldsins að gæta þess að félagsleg aðstaða þessa fólks sé sem best og skattlagning á það sé hófleg. En ég á von á að það sé mjög erfitt að koma tekjuauka til þessa fólks í gegnum skattakerfið eins og það er í dag því að persónuafsláttur og barnabætur og ýmislegt fleira er þrátt fyrir allt svo hátt að lægstu laun bera litla sem enga skatta.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Steingrími Sigfússyni fyrir að hefja máls á þessu alvarlega máli. Ég hafði vænst þess að það kæmi betur fram í hans máli hvað þeir í stjórnarandstöðunni vildu gera. Það er út af fyrir sig eðlilegt að krefjast svara af hæstv. ríkisstjórn, en stjórnarandstaðan ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð í þessu máli jafnframt. Það er ekki hennar hlutskipti á nokkurn hátt og ég vænti þess að það sé ekki hennar ætlan að fara að efna til deilna og jafnvel átaka eða hvetja til þeirra á vinnumarkaði. Það hefur stjórnarandstaða stundum gert en ég vænti þess að stjórnarandstaðan ætli sér ekki slíkt í dag að efna til átaka á vinnumarkaði því að síst af öllu megum við við því miðað við þá stöðu sem nú er í þjóðarbúinu.