27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 409 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

Stefnuræða forsætisráðherra

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Sú ríkisstjórn sem við tók 8. júlí sl. hefur feril sinn með viðureign við verðbólguna eins og reyndar flestallar ríkisstjórnir á undanförnum áratugum. Þetta er umhugsunarvert, ekki síst eftir þann góða árangur sem náðist á síðasta kjörtímabili. Verðbólga hefur aukist á ný og mun nú vera um 25% sem er að vísu ekki mikið borið saman við 1983, sem betur fer, en þó allt of mikið fyrir þjóðina að þola um lengri tíma. Auk þess eru hættumerkin augljós. Lítið þarf til að ný verðbólgualda hefjist. Til þess að koma í veg fyrir slíkt, og það verður að gera, er nauðsynlegt að skilja hvað veldur og uppræta meinin. Ætla ég að fjalla um það í nokkrum orðum.

Allt of mikil þensla er það svar sem við fáum og það er eflaust rétt en við hljótum þá einnig að spyrja: Hvað veldur þenslunni? Svarið er að finna á fyrstu síðu þeirrar þjóðhagsáætlunar sem dreift hefur verið hér á hinu háa Alþingi. Þar eru ástæðurnar taldar tekjuaukning í sjávarútvegi, hallarekstur ríkissjóðs, miklar erlendar lántökur og útþensla í bankakerfinu. Þá fyrstu, tekjuaukningu í sjávarútvegi, á ég erfitt með að samþykkja sem verðbólguvald. Eftir erfið undanfarin ár veitir sjávarútveginum ekki af auknum tekjum. Vafalaust er hins vegar að hin þrjú atriðin ráða mestu um þá miklu þenslu sem verið hefur upp á síðkastið og öll eru þau nátengd, þau eru öll peningalegs eðlis.

Í raun og veru segir þjóðhagsáætlun okkur í fáum orðum að fjármagnið hafi leikið lausum hala og til þess megi rekja þensluna sem ógnar efnahagslífinu öllu. Frelsið er gott, en því aðeins verður það til heilla að efnahagslífið sé nógu þróað til þess að þola það og einstaklingarnir nægilega þroskaðir til þess að beita því. Frelsið verður einnig að vera undir eftirliti ríkisvaldsins og þeirra stofnana sem til þess eru settar. Þetta virðist hafa brugðist.

Á þessu ári er talið að erlendar lántökur verði um 4,2 milljörðum kr. meiri en gert var ráð yfir. Þar af eru 2 milljarðar kr. vegna fjármögnunarleigu, sem síðasta ríkisstjórn heimilaði til þess að auðvelda kaup á meiri háttar framleiðslutækjum, en hefur á þessu ári losnað úr böndum. Því fer auðsýnilega fjarri að nægilegt jafnvægi sé orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar eftir óðaverðbólgu undanfarinna ára og áratuga og við Íslendingar höfum enn sýnt að í góðæri störfum við meira af kappi en forsjá.

Úr þjóðhagsáætlun má einnig lesa að það eftirlit sem Seðlabanka er falið með lögum hafi brugðist. Fyrir tæpu ári voru vaxtaákvarðanir færðar til Seðlabankans, en þá með því skilyrði að vaxtamunur yrði hóflegur og raunvextir hér svipaðir og gerist í viðskiptalöndum okkar. Í október fyrir ári, segir í þjóðhagsáætlun, voru raunvextir u.þ.b. 5% en eru nú u.þ.b. 9% og langtum hærri en gerist í nágrannalöndum okkar. Vaxtamunur hefur og aukist og mun óvíða eða hvergi vera meiri en hér á landi. Þrátt fyrir lög sem gera bankaeftirlitinu skylt að hafa eftirlit með verðbréfasölu hefur það eftir því sem ég best veit ekkert verið og augljóslega ekki með fjármögnunarleigu eða erlendri lántöku bankanna. Einnig verður að viðurkennast að á meðan á kosningabaráttu og stjórnarmyndun stóð var ekki það eftirlit og aðhald af hálfu ríkisstjórnar sem nauðsynlegt er.

Eftir að Sjálfstfl. og Alþfl. höfðu reynt flestar aðrar leiðir til stjórnarmyndunar var þess óskað að við framsóknarmenn tækjum þátt í myndun ríkisstjórnar ásamt þessum tveimur flokkum. Á það féllumst við en settum sem ófrávíkjanlegt skilyrði að hinni nýju verðbólguöldu yrði snúið við og jafnvægi skapað í efnahagsmálum þjóðarinnar. Til þess er nauðsynlegt að ríkissjóður verði hallalaus, dregið verði úr erlendri lántöku og hert á stjórn almennra peningamála.

Á tveimur fyrstu þáttunum er tekið með frv. til fjárlaga og lánsfjárlaga. Gert er ráð fyrir að ríkissjóður verði rekinn hallalaus á næsta ári og dregið úr erlendri lántöku um rúmlega 4 milljarða kr. Á þriðja þættinum, stjórn almennra peningamála, er einnig óhjákvæmilegt að taka og mun verða gert. Ég efast um að við verðbólguna verði ráðið ef vextir lækka ekki og fjármagnskostnaður.

Hallalausum ríkisbúskap á að ná bæði með niðurskurði og auknum tekjum. Hvort tveggja er að sjálfsögðu mjög viðkvæmt og eðlilegt að skoðanir um það séu skiptar. Við framsóknarmenn leggjum áherslu á að tekjuaukning ríkissjóðs verði sem mest með því að draga úr skattsvikum eins og að er stefnt. Þó mun ekki verða hjá því komist að skattar verði hækkaðir nokkuð enda hygg ég að orðið sé tímabært að horfast í augu við þá staðreynd að það velferðarkerfi sem við höfum skapað verður ekki rekið með skattheimtunni eins og hún er orðin, því miður. Við framsóknarmenn getum ekki fallist á að draga úr því öryggi og jafnrétti sem nú er veitt í gegnum tryggingar, heilbrigðisþjónustu, félagslega aðstoð og menntakerfið. Ekki verður heldur hjá því komist að gera átak í byggðamálum og nauðsynlegt er að búa vel að æsku þessa lands og heilbrigðum athöfnum eins og t.d. íþróttum. Einnig verður að leggja aukið fé til rannsókna og tilrauna, m.a. til nýsköpunar í íslensku atvinnulífi og aukinnar framleiðslu á komandi árum. Enda er þetta allt saman vandlega staðfest í þeim stjórnarsáttmála sem flokkarnir hafa gert. Slíkir þættir sem þessir verða að hafa forgang.

Á þenslutímum er skynsamlegast að draga úr framkvæmdum. M.a. efast ég um að rétt sé að gera ráð fyrir lánum til fleiri en t.d. 4000 nýrra íbúða á ári á meðan sú þensla er sem ríkir. Á samdráttartímum gegnir allt öðru máli. Þá á ríkissjóður að stuðla að auknum framkvæmdum. Ríkissjóði á að beita eins og kostur er til þess að skapa jafnvægi í efnahagslífinu. Við það verða menn að sætta sig. Ríkisstjórnin hefur jafnframt tekið þá ákvörðun að byggja á stöðugu gengi. Með því eru línurnar lagðar fyrir kjarasamningana sem fram undan eru. Ljóst er að með þessari ákvörðun er teflt á tæpasta vaðið.

Samkeppnisatvinnugreinar standa ýmsar í erfiðleikum, iðnaðurinn á og í erfiðleikum og fiskvinnslan þolir litlar verðhækkanir. Fram hjá því verður ekki horft að nauðsynlegt er að athuga hvort samkeppnisstöðu iðnaðarins megi bæta, t.d. með því að sporna gegn innflutningi undirboðsvarnings erlendis frá.

Þegar síðustu samningar um kaup og kjör voru gerðir í desember var gert ráð fyrir að kaupmáttur atvinnutekna ykist um sjö af hundraði. Nú er talið að sú aukning verði á árinu um 16 af hundraði að meðaltali og reyndar meiri hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna. Þjóðarframleiðslan hefur einnig aukist mikið eða um 6,5 af hundraði. Það er þó ekki nema rúmlega þriðjungur af kaupmáttaraukningunni. Hin mikla aukning kaupmáttar er því ekki nema að hluta byggð á innlendri framleiðsluaukningu. Að verulegu leyti byggist kaupmátturinn á þeirri erlendu lántöku sem ég hef áður rætt um. Sá kaupmáttur er með öðrum orðum byggður á sandi, því miður.

Ríkisstjórnin leggur til að nú verði staldrað við og áhersla lögð á að varðveita þann mikla kaupmátt sem hefur náðst. Að seilast eftir enn meiri kaupmætti er vonlaust og getur ekki leitt til annars en nýrrar verðbólguöldu. Það er einlæg von okkar framsóknarmanna að um þessa stefnu náist samstaða verkalýðshreyfingar, annarra launþega, atvinnurekenda og ríkisvaldsins. Það er áreiðanlega þjóðinni fyrir bestu.

Stuttur tími minn leyfir ekki umfjöllun um ýmsa aðra mikilvæga málaflokka sem ég hefði viljað ræða um. Í fáum orðum vil ég þó fjalla um þann málaflokk, sem ég hef nú með höndum, utanríkismálin.

Eins og fram kemur í stjórnarsáttmála er gert ráð fyrir að byggja áfram á þeirri grundvallarstefnu í utanríkismálum sem verið hefur á undanförnum áratugum. Í heiminum hafa hins vegar orðið miklar breytingar og um leið á stöðu okkar Íslendinga. Því er eðlilegt að framkvæmd stefnunnar breytist.

Nálægt helmingurinn af þjóðarframleiðslu okkar er fluttur úr landi. Við verðum með hverju ári háðari utanríkisverslun. Í því skyni að nýta utanríkisþjónustuna sem best í þágu þessa mikilvæga þáttar í okkar þjóðarbúskap er ákveðið að flytja útflutningsverslunina til utanrrn. þar sem þegar hefur verið komið á fót sérstakri deild sem um þetta á að fjalla. Trú mín er að þessi breyting muni reynast mikilvæg og farsæl. Þess má geta að Norðmenn eru nú að gera svipaða breytingu hjá sér.

Lögð verður áhersla á aukna aðild okkar Íslendinga að ýmsum mikilvægum ákvörðunum sem teknar eru innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta tengist m.a. og ekki síst þeim breyttu viðhorfum sem nú hillir undir í afvopnunarmálum og bættum samskiptum austurs og vesturs. Við Íslendingar eigum og munum beita okkur eins og við getum fyrir friði, fækkun og eyðingu kjarnorkuvopna og bættu ástandi heimsmála almennt. Við munum gera það með málflutningi og atkvæði okkar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, innan Atlantshafsbandalagsins og hvar sem við komum fram í samtökum þjóða og á opinberum vettvangi. Það er einlæg von mín að hin íslenska utanríkisþjónusta verði þrátt fyrir fámenni virk og viðurkennd bæði í þjónustu íslensks útflutnings og íslensks mannlífs og reyndar bætts mannlífs í heiminum öllum. Við megum ekki láta smæðina standa í vegi fyrir því að við beitum okkur af alefli hvar sem við getum til þess að þoka málum á betri veg.

Góðir Íslendingar. Hin nýja ríkisstjórn á mörg erfið málefni fram undan. Efnahagsmálin verða e.t.v. stærst en þau verða fleiri. Samkomulag verður að nást um trausta og skynsamlega stjórnun í sjávarútvegi og um búháttabreytingar í landbúnaði eftir þeim leiðum sem ákveðnar hafa verið og um hefur verið samið. Ná verður saman um skynsamlega framkvæmd í húsnæðismálum í samræmi við það sem okkur er fjárhagslega kleift, um uppstokkun verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og um yfirstjórn náttúruverndarmála á einni hendi svo eitthvað sé nefnt. Skiptar skoðanir munu reynast á milli manna og flokka um þessi mál en það er mín einlæg von að stjórnarflokkarnir beri gæfu til að vinna þannig saman að ríkisstjórnin sitji út kjörtímabilið. Þjóðinni er fátt nauðsynlegra en stöðugleiki í stjórnmálum.