04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4254 í B-deild Alþingistíðinda. (2981)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Stjórnarandstaðan er að auglýsa eftir stefnu núv. ríkisstjórnar og það er þegar vel er að gáð dálítið skiljanlegt. Ríkisstjórnin hefur nefnilega verið svo upptekin af því á undanförnum vikum og mánuðum að vinna verkin sín, að koma fram umbótamálum sínum þar sem aftur á móti stjórnarandstaðan hefur verið svo upptekin af því að hlusta á sjálfa sig að það er kannski ástæða til að staldra núna við og rifja upp: Við hvaða vanda var að fást þegar þessi ríkisstjórn tók við? Hver er hennar stefna? Rifjum upp.

Þegar þessi ríkisstjórn tók við á miðju sumri var hallarekstur í ríkisbúskapnum um 31/2 milljarður kr. Í annan stað: Ef haldið hefði verið sama útgjaldastigi og Alþingi komst að niðurstöðu um nú fyrir jólin í fjárlögum, en haldið áfram að byggja tekjuöflun ríkissjóðs á því ónýta skattkerfi sem við tókum við, hefði hallinn í ríkisbúskapnum verið á bilinu 6–8 milljarðar kr. Þá hefði mér þótt gaman að heyra ræður stjórnarandstæðinga um velferðarríkið, um þá sem eiga bágt og þá sem eru hjálparþurfi og þá sem hefði þurft að rétta hjálparhönd og um byggðastefnuna margfrægu ef ekkert hefði verið að gert. Þá hefði verið ástæða til að biðja um ábyrga ríkisstjórn, eins og hv. seinasti ræðumaður bað um, með hjartað á réttum stað.

Í ágúst sl. var það staðfest að lánsfjáráætlun hafði farið úr böndunum með þeim hætti að ætla mátti að innstreymi erlends lánsfjármagns væri komið á fimmta milljarð umfram það sem lánsfjárlög gerðu ráð fyrir. Þegar hallinn í ríkisbúskapnum og ástandið í lánsfjármálum var með þessum hætti gat hver maður sagt sér það sjálfur að upphafleg spá um viðskiptahalla var út í hött. Og þá er fyrirsjáanlegt að staðfesting á útgjaldaeyðslu og þenslu umfram tekjuöflun í þessum þjóðarbúskap mundi leiða til viðskiptahalla sem var miklu meiri og hann er núna metinn upp á 61/2 milljarð. Samt tek ég það fram að það var laukrétt hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vandinn sem við er að fást er ekki kreppuástand eða hallærisvandi. Vandinn sem við er að fást er nákvæmlega þessi: að góðæri, hagvaxtarskeið sprottið í sjávarútveginum á undanförnum 2–3 árum snerist upp í þenslu- og verðbólguvanda vegna þess að það var ekki gripið í taumana í tæka tíð af ótta við kosningar. (SJS: Og er ekki enn.) Svo komum við að því, hv. þm. Svo skulum við heldur betur fara yfir þá lexíu, hv. þm., áður en hv. þm. leyfir sér slíka sleggjudóma.

Þetta var ástandið og svo segja stjórnarandstæðingar öðrum þræði: Óvissuástandið er svo mikið og það stafar af því að ríkisstjórnin hefur horft á þetta aðgerðarlaust og ekkert aðhafst. En vikum saman hlustaði ég á síbylju þeirra um það að þessi ríkisstjórn sæist ekki fyrir í athöfnum sínum, að hún keyrði hina dauðþreyttu stjórnarandstöðu svo hart fram við að koma fram umbótamálum, m.a. í því að endurskipuleggja frá grunni 4/5 hluta af tekjustofnum ríkisins. Stjórnarandstaðan mátti vart mæla fyrir þreytu og mælti þó lon og don í síbylju. M.ö.o.: ríkisstjórnin er svo aðgangshörð, hún er svo athafnasöm, hún hefur á sex mánaða ferli gert svo mikið að sáran er undan kvartað. Svo segja þeir: Það er svo mikil óvissa í efnahagslífinu af því að ríkisstjórnin hefst ekki að.

Og hvað er það sem þessi ríkisstjórn hefur gert? Ég lýsti því við hvernig ástandi hún tók og ég segi: Það var ekkert kreppuástand. Það var ástand sem kallaði á aðgerðir til að stöðva stórhættulega verðbólguþróun. Og því næst það að þegar fram kom á þetta haust varð vandinn erfiðari aðallega af tveimur ástæðum: dollarahrun sem þýddi auðvitað tekjumissi að því er varðar þær útflutningstekjur sem verslað er með í dollurum, í annan stað hækkun evrópskra gjaldmiðla og þar af leiðandi innflutningsverðs sem af því leiðir og í þriðja lagi horfur á samdrætti í afla. Þetta jók á vandann vegna þess að það varð að taka harðar á því að stöðva útgjaldaþensluna umfram þjóðartekjur við þessi skilyrði af því að það var minna til skiptanna. Að öðru leyti þýddi þetta að misgengisvandinn í íslenskum þjóðarbúskap, sem að langstærstum hluta til býr við dúndrandi góðæri, varð með aukinni áherslu vegna þess að sjávarútvegur og fiskvinnsla, útflutningsatvinnuvegirnir, höfðu orðið í vaxandi mæli að þola áföll þar sem aftur á móti mjög margar greinar lifðu í gósentíð og það varð misgengi í lífskjörum fólks.

Á sl. tveimur árum hefur kaupmáttaraukning launþega orðið 40% (Gripið fram í.) og þá grípa menn fram í og segja: Já, en, já, en, ekki allra, ekki allra. (KH: Að meðaltali.) Að meðaltali, já. Og þá er spurningin þessi: Það er misgengi í starfskjörum atvinnuvega og það er misgengi í lífskjörum fólks. Af hverju? Vandinn er m.ö.o. ekki meiri en þessi: Það þarf að skapa bætt rekstrarskilyrði fyrir útflutningsatvinnuvegi og það þarf að leiðrétta misgengi í kjörum, en það er af nógu að taka.

Þessi ríkisstjórn sat ekki aðgerðarlaust hjá. Hún byrjaði á því í fyrsta lagi að draga stórlega úr hallarekstri ríkissjóðs með tekjuöflun upp á 1 milljarð á sl. ári. Hún greip til aðgerða gegn innstreymi erlends lánsfjár. Hún lagði skatta á erlendar lántökur. Hún hækkaði ábyrgðargjöld vegna ríkisábyrgða vegna veittra lána. Hún steig m.ö.o. fyrstu skrefin í því að rétta við fjárhag ríkissjóðs, draga úr lánaþenslu.

Því næst vann hún það sem hún hefur verið gagnrýnd einna harðast fyrir en er alveg vafalaust rétt og nauðsynlegt við þessar aðstæður. Hún hætti við að sætta sig við það að reka ríkissjóð eftir 2–3 ára góðæri og við þessi skilyrði með halla í tvö ár og ákvað að ná jöfnuði á einu ári og skemmri tíma en það. Og þetta gerði þessi ríkisstjórn. Það er leitun að ríkisstjórn sem hefur markað svo afdráttarlaust slíka stefnu. Það er reyndar leitun að ríkisstjórn á Vesturlöndum sem hefur snúið svo miklum viðvarandi halla í ríkisbúskap við á jafnskömmum tíma. (Gripið fram í.) Það fer ekki saman að segja: Ríkisstjórnin er stefnulaus, en verða hins vegar að játa þessum staðreyndum, að ríkisstjórnin hefur á skömmum tíma endurreist tekjuöflunarkerfi ríkisins sem var í molum, að ríkisstjórnin hefur snúið hallarekstri sem stefndi í 6–8 milljarða upp í jöfnuð, að ríkisstjórnin hefur lagt fram aðhaldssama lánsfjáráætlun, lánsfjárlög, sem fól m.a. í sér þau áform að ríkissjóður tæki engin ný erlend lán, sem fól m.a. það í sér, ef við berum það saman við fjárfestingarfyllirí annarra, að samdráttur í fjárfestingum ríkisins skv. fjárlögum og lánsfjárlögum er 15% á sama tíma og aukning fjárfestingar hjá sveitarfélögum er 43%, á sama tíma og fjárfestingaráform Reykjavíkurborgar milli ára aukast um 63%. Segi menn svo að þetta sé ekki ríkisstjórn sem hafi sýnt öfluga viðleitni í þá átt að forða því ástandi sem hlotist hefði af ef hér hefði verið aðgerðarlaus ríkisstjórn. Ég spyr. Mönnum kann að þykja óvissa ríkja í sumum þáttum efnahagsmála hér, en ég bið menn að hugleiða: Hvernig halda menn að ástandið hefði verið, rekstrarafkoma atvinnuvega, kaupmáttur launþega, ef þessi ríkisstjórn hefði ekki gert það sem hún hefur gert, ef við sætum uppi eftir tveggja til þriggja ára góðæri með svona mikinn halla í ríkisbúskapnum, ef engu aðhaldi hefði verið beitt í lánsfjárlögum, ef ekkert hefði verið gert til að efla sparnaðarform eins og gert var með peningaráðstöfunum á sl. hausti, ef það hefði verið látið reka á reiðanum.

Þessi ríkisstjórn hefur þess vegna skilgreint sína stefnu mjög skýrt og skilmerkilega þótt stjórnarandstaðan hafi verið of upptekin við að hlusta á sjálfa sig til að taka eftir því eða skilja það. Hún hefur gert það í ríkisfjármálum, hún hefur gert það í peningamálum og lánsfjármálum, hún hefur gert það með því að viðhalda hér stöðugleika í gengi og láta ekki undan látlausum kröfum ýmissa atvinnurekendahópa um að fella gengið eftir pöntun og ekki gert það þrátt fyrir að sumir stjórnarandstæðingar hafa ekki staðist þá freistingu að taka undir eins og fram kom í þessum umræðum.

Þessi ríkisstjórn hefur heldur ekki gripið inn í þá þróun sem leitt hefur til hárra raunvaxta þótt þeir séu að vísu ekkert hærri en í helstu viðskiptalöndum þegar grannt er skoðað. Hún hefur ekki stöðvað þá þróun og það eru ákveðin rök fyrir því eins og ég kem að síðar. Menn geta gagnrýnt þessa stefnu ef þeir hafa einhver rök til þess og menn geta reynt að leggja fram aðra stefnu, en menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé ríkisstjórn án stefnu. Menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé aðhaldslaus ríkisstjórn. Menn geta ekki kvartað undan því að þetta sé athafnalaus ríkisstjórn.

En síðan spyrja menn: En það er samt sem áður óvissa í íslenskum efnahagsmálum. Hvað með gengið? Það er samt sem áður óvissa í íslenskum efnahagsmálum. Hvað með kjarasamninga? Það er samt sem áður augljóslega við erfiðleika að fást í íslenskum efnahagsmálum. Við erum ekki komnir inn á lygnan sjó. Hvað með þennan háa fjármagnskostnað? Hvað með þessa háu vexti? Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því?

Mér þætti gaman að sjá framan í þann stjórnarandstæðing sem færði rök fyrir því máli sínu að á undanförnum vikum eða mánuðum hefði verið rétti tíminn til þess að verða nú við óskum útgerðarauðvaldsins, sem einu sinni hét á máli Alþb. og annarra, og fella gengið eftir pöntun. Hver væri hugsunin í því eftir tveggja, þriggja ára mesta góðæri Íslandssögunnar að ljúka því með því að fella gengi íslensku krónunnar? Hvers konar eiginlega ræfildómur væri það út af fyrir sig og hvað mundi það þýða? Hvaða áhrif hefði það á verðbólgumarkmiðin? Hvaða áhrif hefði það á fjármagnskostnaðinn? Hvaða áhrif hefði það á erlend aðföng, ekki aðeins útvegsins, fiskvinnslunnar og atvinnulífsins? Hvaða áhrif hefði það á þensluna og verðbólguna að spýta í með gengislækkun í þessu ástandi? (AG: Eru ekki upplýsingarnar frá Þjóðhagsstofnun?) Það meinar enginn neitt með þessu tali sínu, með þessum kröfum sínum um gengislækkun. Að vísu kvarta ákveðnir aðilar, en stjórnarandstaða sem hefur ekkert annað að gera en taka undir með hverjum þeim manni sem í eiginhagsmuna skyni, vegna þess að hann horfir framan í afleiðingarnar af eigin gerðum, heimtar gengislækkun er ekki upp á marga fiska.

Hvaða tilefni er til gengislækkunar? Það er halli á frystingu. Það er halli í fiskvinnslunni. Það er hagnaður í saltfiskvinnslu og útflutningi. Það er hagnaður hjá útgerðinni. Það er halli á bátaútgerð. Það er umtalsverður hagnaður á útgerð minni togara. Það er einnig hagnaður á útgerð stærri togara. Það er verulegur hagnaður á frystitogurum. Ef menn vilja meta þetta í einhverjum prósentum er hallinn alvarlegastur hjá frystingunni, gæti verið allt að 7%. Það er hagnaður á söltun um 2,6%, það er hagnaður á minni togurum upp á 6,4%, það er hagnaður á stærri togurum upp á 6,8%, það er hagnaður hjá útgerðinni alls um 2,7%. Og allt er þetta miðað við 3% ávöxtunarkröfur og stöðu mála í janúar. (SJS: Hvað eru þetta gamlar upplýsingar?) Splunkunýjar.

Nú rifja ég upp: 80% fyrirtækja í útgerð er samrekstur með fiskvinnslu. Það er halli í fiskvinnslu, mjög alvarlegur vandi hjá frystingu. Hvað er að segja um útgerðina? Hvað er að segja um fjárfestingaráform útgerðarinnar? Er það rétt að þessir sömu aðilar stefni að nýfjárfestingu, nýjum fiskiskipum, meiri háttar endurnýjun á eldri skipum, stækkun skipaflotans, þrátt fyrir horfurnar, upp á 31/2–4 milljarða, að verulegu leyti fjármagnað með erlendum lánum? Bendir það til voðalegrar afkomu? Bendir það til þess að það sé nauðsynlegt að almenningur í landinu rétti fram núna sérstaklega umtalsverðar fjárhæðir til að rétta hag útgerðarinnar? Er stjórnarandstaðan að heimta það eða mættu menn kannski staldra við og spyrja sjálfa sig, vega og meta? Vandinn er sá, hann er nýstárlegur, að útgerðin stendur mun betur en vinnslan. Að svo miklu leyti sem hægt er er þetta ekki vandamál stjórnvalda því ef þessar tilfærslur geta farið fram innan fyrirtækja er það auðvitað gott. En ef það þarf að gerast að frumkvæði stjórnvalda er vandinn sá að færa til fjármagn frá útgerð m.a. til vinnslunnar að hluta. Er gengislækkunin rétta leiðin til þess? Vilja menn stafa það fyrir sjálfum sér hvaða afleiðingar slík gengislækkun hefði við þessar kringumstæður? Og vilja menn bera það saman við þær kröfur sem menn eru að gera um það að varðveita kaupmátt, um það að koma í veg fyrir óðaverðbólgu, um það að reyna að ná þeim árangri að fá hér lækkandi verðbólgu þegar líða tekur á árið?

Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið sagt: Ríkisstjórnin er búin að gera, eins og ég tíundaði áðan, margt og mikið til þess að reyna að koma hér á jafnvægi, draga úr þenslu, draga úr vexti einkaneyslu, endurreisa ríkisfjárhag, beita aðhaldi í lánsfjármálum. Við höfum hins vegar sagt: Það vantar herslumuninn til þess að ná vissu um það að þessi jafnvægispólitík beri árangur á seinni hluta árs og sú vissa getur ekki komið fyrr en við höfum vitneskju um að það takist hérna kjarasamningar sem samrýmast þessum markmiðum. Það verða engar yfirlýsingar gefnar um gengisbreytingar fyrr en sú vitneskja liggur fyrir og ef kjarasamningar verða með raunsæjum og skynsamlegum hætti á engin gengislækkun að verða. Það tryggði best það að varðveita kaupmáttinn og ná lækkun verðbólgu þegar líða tekur á árið, en það væri líka ávísun á það að þá gæti ríkisstjórnin beitt sínu frumkvæði til þess að fá seðlabanka til að lækka nafnvexti í þrepum í takt við lækkandi verðbólgu og niðurstaðan yrði sú hin sama fyrir atvinnuvegi og almenning og ekki hvað síst hina lægst launuðu, að við værum þá komnir út úr óveðrinu inn á lygnari sjó í átt til traustari lífskjarabóta á seinni hluta ársins.

Sumir hafa þóst geta haft efni á því að hella sér yfir Vestfirðinga fyrir kjarasamningana sem þeir gerðu og hafa lítið gert af því að setja sig í spor annars vegar verkafólksins þar og vinnuveitenda þar, fólksins sem starfar eingöngu nánast við útgerð og fiskvinnslu. Hvernig stóð á því að það tókst að gera þessa samninga til ársloka þrátt fyrir að það er halli á frystingu? Hóflegir launasamningar já, en þeir dugðu samt sem áður til þess að rétta hlut fiskvinnslufólksins í samanburði við aðra hópa. Af hálfu atvinnurekenda voru þeir gerðir í trausti þess að ef kjarasamningar væru leystir eftir slíkum leiðum mundu þeir þola taprekstur fyrri hluta árs í voninni um það að uppskera árangur á seinni hluta ársins í lækkaðri verðbólgu. Ég þekki engan þann mann sem hefur efni á því að hella sér með skömmum eða skætingi yfir þá menn sem af þjóðhagslegri ábyrgð og raunsæi gera slíka samninga. Og þó að það sé hverju orði sannara að þeir verði ekki fyrirmynd kjarasamninga fyrir önnur svæði þar sem atvinnulíf er fjölbreyttara er raunsæið, ábyrgðartilfinningin vissulega fyrirmynd þeim sem nú ætla að setjast að kjarasamningaborði.

Á undanförnum vikum og mánuðum hefur því verið haldið fram að aðgerðir ríkisstjórnarinnar við að endurskipuleggja tekjuöflunarkerfi ríkisins og fjárhag ríkissjóðs hafi verið gerðar með þeim hætti að þar með hafi verið lagðar byrðar fyrst og fremst á hina tekjulægstu. Þar hafi verið lagðir steinar í götu kjarasamninga. Þar hafi breiðu bökunum, fyrirtækjunum og öðrum slíkum verið hlíft. Allar hafi þessar byrðar verið lagðar á þá sem síst skyldi. Við heyrðum þessi rök í ræðu fulltrúa Kvennalistans áðan.

Við erum að tala um laun, kaupmátt, lífskjör heimilanna í landinu. Athyglisverðasta staðreyndin um þá hluti er í mínum huga sú, að útgjöld meðalfjölskyldunnar miðað við verðlag og laun í janúarmánuði, þ.e. þessarar frægu vísitölufjölskyldu, eru 135 000 kr. í janúarmánuði. Og nú tek ég fram: Ég er ekki að tala um framfærsluþörf. Ég er að tala um könnun á því hverju þessi meðalfjölskylda eyddi í reynd árið 1988 í janúar. Hún eyddi 135 000 kr., trúlega með 11/2–2 fyrirvinnur. Af þessum 135 000 kr. eyddi hún rúmlega 24 þús. kr. í matvæli miðað við verðlag í janúarmánuði og hún eyddi þar af leiðandi um 110 000 kr. og gott betur í annað en matvæli, þessi meðalfjölskylda upp á 3,7 persónur. Þetta eru ekki tilbúnar tölur. Þetta er verðlag í janúar miðað við að það hafi hækkað frá desember til janúar um 10%, ekki 7% eins og fjmrn. sagði að mundi gerast þegar tollalækkunin væri komin til skila heldur um 10%. Samkvæmt vísitölumælingunni í byrjun janúar, þegar engar tollalækkanir höfðu skilað sér, ekki nokkrar, söluskattshækkunin ein var komin, var hækkunin 11%. Miðað við 10% hækkun frá desember til janúar er þetta útgjaldamynstur fjölskyldunnar: 24 000 kr. í matvæli, afgangurinn í annað. Afgangurinn hefur enn ekki lækkað sem hann mun gera vegna þess að áhrifin af tolla- og vörugjaldslækkuninni eru ekki komin til skila.

Og þegar hinn ágæti og mildi fulltrúi Kvennalistans var að fara með sín dæmi hér áðan trúði ég varla mínum eigin eyrum vegna þess að ég veit að hér er um að ræða menntaðan eðlisfræðing sem mætti vafalaust treysta til að halda búreikninga hinnar hagsýnu húsmóður og sýna svolitla sanngirni í umfjöllun um mál af þessu tagi.

Það er hægt að afskrifa sannleikann með ýmsum hætti. Það er hægt að einblína á einn þátt söluskattsbreytingarinnar, æpa matarskattur! og reikna dæmið síðan út frá þeirri forsendu. En það er rangur útreikningur. Það sem á að gera er þetta: Það var annars vegar um það að ræða að þá var verið að lækka tolla og vörugjöld. Það var hins vegar um það að ræða að þá var verið að breikka söluskattsstofn og hækka söluskatt. Jafnhliða var innleitt staðgreiðslukerfi skatta. Og það var verið að hækka skattfrelsismörk einstaklinga og barnafjölskyldna mjög verulega og það var verið að auka beinar útgreiðslur af auknum tekjum ríkissjóðs til fyrst og fremst barnmargra fjölskyldna. Ef menn vilja meta áhrif þessara breytinga í heild á hag fjölskyldnanna skulu menn reikna það dæmi rétt og taka tillit til þess í fyrsta lagi: Hvaða áhrif hefur þessi breyting annars vegar miðað við tiltekin laun og fjölskyldumynstur í auknum matarútgjöldum, í lækkun annarra útgjalda, í ráðstöfunartekjum eftir beina skatta að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka? Hverjar eru þá ráðstöfunartekjur þessara fjölskyldna eftir kerfisbreytinguna? Eru þær meiri eða eru þær minni? Og þá lítur dæmið svona út:

Dæmið er um hjón með tvö börn með meðaltekjurnar 135 000 kr. Forsendurnar eru 10% hækkunin frá desember til janúar, hlutföll vísitöluútreikningsins um útgjaldaþætti matvæla og annarra þátta. Þá er hækkunin 1900 kr. í mat, önnur útgjöld þessarar fjölskyldu hafa lækkað um 2500 kr., skattar þessarar fjölskyldu að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka hafa lækkað um 4400 kr., ráðstöfunartekjur þessarar fjölskyldu hafa hækkað um 5000 kr. eða um 3,7%. Þetta eru dæmi um heildaráhrif skattkerfisbreytingarinnar á hag meðalfjölskyldunnar í landinu.

Dæmi 2: Hjón með tvö börn en heimilistekjur undir meðaltali, 80 000 kr. Matarútgjöldin hafa hækkað um 1700 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1300 kr., beinir skattar eftir útborgun barnabóta og barnabótaauka hafa lækkað um 7400 kr., ráðstöfunartekjur þessarar fjölskyldu hafa vaxið um 7000 kr. M.ö.o.: afkoma hennar er betri eftir breytinguna en áður um 8,8%.

Hvernig lítur dæmið út fyrir einstætt foreldri með tvö börn, meðaltekjur þess fjölskylduhóps? Tekjurnar eru 73 000 kr., matarútgjöldin hafa hækkað um 1200 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1200 kr., beinir skattar hafa lækkað um 5800 kr., ráðstöfunartekjur hafa hækkað um 5800 kr. Afkoma fjölskyldunnar hefur batnað um 7,9%.

Meira að segja ef litið er á einstakling sem hefur engin börn á sínu framfæri en lágar tekjur, 71 400 kr., hafa matarútgjöldin hækkað um 700 kr., önnur útgjöld hafa lækkað um 1400 kr., beinir skattar hafa lækkað um 1300 kr. og afkoma hans hefur skánað um 2000 kr., ráðstöfunartekjur eftir skatt, eða batnað um 2,8% . (SJS: Síðan hvenær er samanburðurinn tekinn?) Samanburðurinn er miðaður, eins og ég er margbúinn að segja, við verðtöku í janúar miðað við þá forsendu að hækkunin á matarútgjöldum hafi numið 10% frá desember til janúar þar sem aftur á móti vísitölukönnunin í fyrstu viku janúar gerði ráð fyrir að það hefðu verið 11%.

Og ég bæti við: Þó að hv. þm. sem nú spyr gerði ráð fyrir 50% skekkjumörkum í öllum þessum dæmum mundu samt sem áður öll koma út með bættan hag þessara fjölskyldna sem ég tók dæmi um. (SJS: Var þetta hækkun síðan í ágúst eða september?) Það er ágætt dæmi til um það sem þeir hafa verið að skiptast á orðum um hv. forseti Alþýðusambands Íslands og efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, Ólafur Ísleifsson. Og hvernig líta þær tölur út?

Það var fundið að því að það væri verið að bera saman útgjöld vísitölufjölskyldu og hins vegar lágmarkstekjur einstaklings. Ef hins vegar þar er tekið dæmi af fjögurra manna fjölskyldu, sem er broti stærri en vísitölufjölskyldan, lítur það svona út: Hjón vinna bæði úti fullan vinnudag, bera hvort um sig úr býtum lágmarkslaun. Börn eru tvö og annað undir sjö ára aldri. Alþýðusambandið upplýsir þá að lágmarkslaun hafi hækkað um 2100 kr. á mánuði frá því í júlí, þ.e. um 4200 kr. fyrir bæði hjón. Matvöruútgjöld af öllum ástæðum, ekki bara af skattkerfisbreytingunni, frá því í júlí, hækkun matvöruútgjalda af öllum ástæðum, þar á meðal búvöruverðshækkunarinnar, hv. þm., 1. des. um 9% sem enginn tók eftir og enginn mótmælti, hækkun matvöruútgjalda var 5400 kr. Þá er eftir að taka tillit til þess hver var hækkun barnabóta og barnabótaauka frá því í júlí. Og þegar það dæmi er gert upp er niðurstaðan sú að hagur þessarar fjölskyldu hefur batnað en ekki versnað.

Nánar tiltekið svona: Barnabætur með fyrsta barni voru á fyrra ári eða fyrir 1. júlí, áður en þessi ríkisstjórn tók við, 12 625 kr., en eru 17 888 kr. á fyrri hluta árs 1988. Þessar upphæðir tvöfaldast sé barnið undir sjö ára aldri. Bætur með öðru barni voru 18 900 kr., en eru á fyrri hluta árs 1988 26 800 kr. Hjónin fá óskertan barnabótaauka með hvoru barni um sig þar sem tekjur þeirra ná ekki skerðingarmörkum. Óskertur barnabótaauki nam 30 000 kr. í gamla kerfinu, en 42 400 kr. í hinu nýja. Barnabætur og barnabótaauki til þessarar fjölskyldu eru því 3618 kr. hærri fjárhæð í janúar 1988 en í júlí 1987. Á móti hækkun matvöruliðar um 5400 kr. kemur því launahækkun um 4200 kr. og hækkun barnabóta og barnabótaauka um liðlega 3600 kr. eða um 7800 kr. Er þetta nægilega skýrt?

Þessi dæmi, sem ég hef verið að rekja, eru á forsendum um verðbreytingar í janúar og þá er enn eftir að taka tillit til tveggja þátta, að verðlækkanir sem tekur vikur og mánuði áður en þær koma fram að fullu vegna tollalækkunar og vörugjaldslækkunar, eru ekki komnar inn í þetta dæmi. Fjölskyldan á eftir að njóta verðlækkana í vaxandi mæli. Og í annan stað: Ég er hér að miða við neyslugrundvöll sem er úreltur um tíu ár. Þegar menn skoða þetta í ljósi nýja neysluvörugrundvallarins athuga menn það að vegna hækkandi rauntekna hefur útgjaldamynstur fjölskyldunnar breyst. Matarútgjöldin þar eru nefnilega enn þá lægri en útgjaldaaukinn í öðrum þáttum enn þá meiri þannig að matarútgjöldin eru ofmetin í dæmunum sem ég tók, en lækkunin, sem að lokum skilar sér til þessarar fjölskyldu, er vanmetin.

Hefur þessi kerfisbreyting verið gerð í þágu hinna efnameiri? Einstætt foreldri með tvö börn og meðaltekjur: aukning ráðstöfunartekna um 7,9%. Hjón undir meðaltekjum með tvö börn: aukning ráðstöfunartekna um 8,8%. Hjón með meðaltekjur hins vegar, 135 000 kr. á mánuði og tvö börn: aukning ráðstöfunartekna um 3,7%. En einstaklingur með meðaltekjur: þar er bótin lægst, 2,8%. Hvað sýnir þetta? Þetta sýnir að hér er um að ræða ráðstafanir sem búið er að afflytja og breyta í öfugmæli. Sú staðreynd að þessi ríkisstjórn varði 3 milljörðum kr. til að lækka vöruverð í landinu og 2,8 milljörðum kr. til að greiða út til þeirra sem á þurfa að halda barnabætur og barnabótaauka leiðir til þess ásamt með stighækkandi forsendum tekjuskattskerfisins að hér er um að ræða tekjutilfærslur frá hinum betur settu, meðaltalinu og ofar, og til þeirra fjölskyldna sem meiri hafa framfærslu og bágari afkomu. Það er þveröfugt við alla síbylju stjórnarandstöðunnar. Hún er röng og hún stenst ekki. (Gripið fram í.) Þetta er ekki svaravert. Svara þú fyrir þitt mál. Stattu fyrir máli þínu með rökum. (AG: Þetta er staðreynd.) Ég er að rekja staðreyndir fyrir hæstv. fyrrv. fjmrh. og ég vona að hann skilji þær. (AG: Þetta eru útgjöld ríkissjóðs, en hverjar eru tekjurnar á móti? — Komdu með tekjurnar? Þetta voru útgjöldin.) Við skulum koma að því nánar síðar hver hafi verið aukning á skattbyrði, hæstv. fyrrv. fjmrh., hver hafi verið raunveruleg aukning á skattbyrði. Menn hafa nefnilega líka verið að skemmta sér við það að nefna tölur um að skattadæmið þýddi álögur á þjóðina, ekki 5 milljarða, nei, nei, 7 milljarða, 8 milljarða, 9 milljarða, 10 milljarða, í auknum skattaálögum á þjóðina.

T.d. leyfa menn sér það, eins og t.d. fyrrv. formaður Alþb. gerði og hafði að gamanmálum, að það væri náttúrlega svo um alla skatta að þeir væru greiddir út. En er enginn munur á því þegar menn skattleggja ákveðna vel setta tekjuhópa til að greiða út í formi millifærslna hjá öðrum sem verr eru settir? Það sem skattlagt er í hópi A verður að tekjum hjá hópi B og er væntanlega allt annað en venjuleg skattlagning til samneyslu í ríkissjóð. Þeir sem eru nú að gagnrýna þetta eru auðvitað ekki Borgarafl., afl., nei, en það eru fulltrúar Alþb. og Kvennalistans, málsvarar félagshyggjunnar, þeir sem vilja kenna sig við hina sígildu jafnaðarstefnu eins og Alþb.

Því hefur verið haldið fram líka, til þess að reyna að renna stoðum undir áróðurinn sem er rangur, að skattkerfið í staðgreiðsluskatti, sem var afgreitt hér svo til ágreiningslaust, væri ekki stighækkandi vegna þess að það vantaði í það hátekjuþrep. Þetta er rangt og er auðvelt að sýna fram á það með mörgum dæmum. Það er rangt vegna þess að skattfrelsismörkin voru hækkuð mjög verulega bæði fyrir einstaklinga og hjón. Og það er samspil milli hækkunar á skattfrelsismörkum og útborgunar á skattfrjálsum barnabótum og barnabótaauka. Það er rangt líka vegna þess að persónuafslátturinn er föst upphæð þar sem þú ert staddur í tekjuskalanum. Og það er rangt vegna þess að afnámið á frádráttarliðunum var auðvitað skattaskjól hinna betur settu með hærri tekjurnar. Nú mun birtast innan tíðar nákvæmur samanburður á því á réttum forsendum hvernig fjölskyldur í ólíkum tekjuflokkum og ólíkum fjölskyldugerðum fara út úr samanburðinum á gamla tekjuskattskerfinu og staðgreiðslukerfinu núna. Það er sannað með ótal dæmum að m.a.s. í staðgreiðslukerfinu einu er um að ræða „prógressjón“, þ.e. kerfið er stighækkandi eftir tekjum og þeir koma best út úr því sem lægstar hafa tekjurnar. Ég skal nefna eitt dæmi um það.

Við skulum taka dæmi af hjónum sem bæði eru útivinnandi. Annar makinn hefur 60 000 kr. á mánuði en hinn 30 000, samtals 90 000 kr., og tvö börn á framfæri. Staða þessarar fjölskyldu í staðgreiðslukerfinu verður sú að hún fær útborgað á mánuði hverjum 5700 kr. á mánuði í eins konar neikvæðum tekjuskatti að teknu tilliti til barnabóta og barnabótaauka. Ef þú tekur nákvæmlega jafnsetta fjölskyldu, hjón með tvö börn, en helmingi hærri tekjur, sem skiptast í 120 000 kr. og 60 000 kr., þ.e. mánaðarlaun væru 180 000 kr., mundi þessi fjölskylda greiða skatt upp á 28 500 kr. eða 16% af tekjum sínum. Farirðu ofar í tekjuskalanum sérðu auðveldlega hversu „prógressíft“ dæmið er.

Þeir sem halda því fram að það hefði verið til tekjujöfnunar að því er varðaði launþega að setja annað hærra þrep í þetta kerfi hafa ekki rétt fyrir sér. Þeir hefðu að vísu náð til sjómannastéttarinnar sem er tekjuhá í góðærinu. Þeir hefðu líka náð til launþegahópa þar sem báðir aðilar vinna úti og leggja á sig mikla vinnu af því að þeir eru að byggja. En þeir hefðu ekki náð, hvorki í þessu kerfi að sinni né hinu eldra, til þeirra sjálfstæðu atvinnurekenda sem telja fram þurftarlaun eða eru skattlagðir á grundvelli áætlaðra launa ríkisskattstjóra. (Gripið fram í.) Þið hefðuð ekki náð þessu með þessu þrepi, það er staðreynd, hvorki ég né þið. Til þess þarf að fara aðrar leiðir.

Svo hef ég gaman af því þegar hinn mjúkmáli Kvennalisti fer með rórillið sitt um að þessi nauðsynlega forsenda fyrir endurreisn ríkisfjárhags og velferðarríkis á Íslandi, þessi skattkerfisbreyting, sé fólgin í því að leggja nú skatta á nauðsynjar, en hlífa lúxusvörum. Meðalfjölskyldan, þessi sem eyðir 135 000 kallinum, hvað eyðir hún miklu í lífsnauðsynjarnar sínar? 24 000 kr. Hvað eyðir hún þá miklu í ónauðsynjar, í lúxus? Bróðurpartinum, rúmlega 110 000 kr. á mánuði. Og hvað er lúxusinn? Er það ekki húsnæði, er það ekki fatnaður, eru það ekki barnavörur, eru það ekki t.d. íþrótta- og tómstundavörur, eru það ekki ferðalög, eru það ekki sjónvörp, er það ekki bíll og rekstur á bíl, eru það ekki hjólbarðar? Eruð þið að segja mér að þessi stærsti útgjaldapóstur fjölskyldu í nútímasamfélagi sé lúxus? Eruð þið að halda því fram? Auðvitað meinið þið ekkert með þessu. Þetta, sem einhvern tíma var lúxus yfirstétta, er hversdagsleg nauðsynjavara alls almennings á Íslandi sem flytur inn 23 000 bíla á þessu ári og m.a.s. 500 sjóbíla og munar ekkert um það, þjóðar sem heldur uppi neyslu af því tagi sem þið sjáið fyrir augunum, (Gripið fram í: Sjóbíla?) sjósaltaðra bíla, niðursoðinna, nætursaltaðra. Mig langar til að spyrja málsvara félagshyggjunnar í þessum þingsal, Alþb. og Kvennalista: Hvað er lúxus alþýðuheimilanna á Íslandi í dag? (KH: Ert þú ekki málsvari félagshyggju?) Mér er brugðið um annað, er það ekki? Hef ég ekki mátt sitja undir skömmum, skætingi, níði og rógi og afflutningi á þeim málum sem við höfum verið að flytja einmitt undir þeim formúlum að hér sé ekki um að ræða jafnaðarmenn. Ég ætla að spyrja ykkur: Hvað kallið þið lúxus? Að mínu mati er það ekki lúxus fyrir alþýðufjölskylduna í landinu hvort hún á bíl, sjónvarp eða útvarp eða hvort hún getur farið í einhver ferðalög í orlofi. En það er lúxus fyrir eina fjölskyldu að þurfa ekki að skulda peninga í dag. Það er lúxus að hafa komið þaki yfir höfuðið á sér áður en það kerfi var afnumið að lán væru gjöf. Það er lúxus í dag að þurfa ekki að búa í leiguhúsnæði. Það væri reyndar lúxus í dag að eiga kaupleiguíbúðir og hafa aðgang að þeim fyrir láglaunafólk. Það er lúxus í dag fyrir marga að búa ekki í byggðarlögum þar sem atvinnulífið, atvinnufyrirtækin eru bara útgerð og fiskvinnsla sem stendur kannski á veikum grundvelli. Það er lúxus í dag að geta komið barninu sínu á barnaheimili, á dagvistarheimili til þess að bæði hjónin geti aflað tekna. Það er lúxus að eiga samhenta fjölskyldu í stað þess að horfa á eftir henni leysast upp í ofþreytu, taugaveiklun, fíkniefnum, áfengisböli o.s.frv. Það er lúxus að geta lifað friðsömu lífi, stundað tómstundir, notið tómstunda o.s.frv. Og af hverju er ég að segja þetta? Það er vegna þess að ég er hér að tala um að það kostar peninga að reka velferðarríki á Íslandi.

Þeir menn sem þora ekki að endurreisa ónýtt skattakerfi, sem þora ekki að standa fyrir máli sínu gagnvart alþýðu manna og segja: Menn eiga að vera jafnir fyrir skattalögum og menn eiga að greiða skattana sína af því að það er það verð sem menn eiga að borga fyrir siðmenntað þjóðfélag — menn sem á undanhaldi sínu frá öllum hugmyndum og hugsjónum verja hið ónýta skattakerfi sem við bjuggum við, menn sem ausa þá sem beita sér fyrir slíkum umbótum óhróðri og afflytja allt þeirra mál, menn sem á sama tíma flytja tillögur um stóraukin útgjöld ofan á þá tekjuöflun sem þessi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir, slíkir menn eru hræsnarar og um þá þarf ekki meira að segja.

Þeir málsvarar barnafjölskyldnanna í landinu sem hafa uppi þau orð að það skipti engu máli að barnafjölskyldurnar fá núna senda heim ávísun fjórum sinnum á ári upp á 550 millj. kr. og með barnabótaauka upp á 650 millj. kr. og fara um þetta óvirðulegum orðum og segja að þetta skipti engu máli eru ekki góðir málsvarar barnafjölskyldnanna í landinu. Þeir mættu gjarnan bóka það hjá sér af því að það er spurt um: Hefur þetta ekki verið áður? Jú, þessar upphæðir voru að vísu ekki útborgaðar. Þær voru teknar frá skatti upp að vissum mörkum áður, nú útborgaðar og skattfrjálsar. Þær voru í fyrra fyrir kerfisbreytinguna 1,9 milljarðar. Þær verða á þessu ári alls 2,8 milljarðar og það er aukning upp á tæpar 900 millj. kr. Það er líka staðreynd upp á lífskjör fjölskyldna að skattfrelsismörk hjóna með tvö börn, annað yngra en sjö ára, hækka upp í 100 þús. kr. að teknu tilliti til barnabóta, að skattfrelsismörk einstæðra foreldra hækka um 76 þús. kr., að barnabætur til einstæðs foreldris með tvö börn, annað yngra en sjö ára og tekjulágt einstætt foreldri með óskertan barnabótaauka fær útborgað á þessu ári 210 þús. kr. Menn geta svo sem fussað yfir þessu og sagt að þetta séu einhverjar sjónhverfingar. En þetta er stefnubreytingin, sem við erum að boða, að hætta að bora gat á skattalögin, að hætta að gera skattheimtuna óframkvæmanlega, að gera menn jafna fyrir skattalögum, að afla tekna en greiða þær síðan út til þeirra sem helst þurfa á að halda. Menn gætu sagt: Það ætti að greiða út meira. Menn gætu nefnt hér tölurnar um hlut hinna öldruðu í þessu þjóðfélagi og sagt: 32 þús. kr. á mánuði, hæstu tölurnar fyrir ellilífeyrisþega, þetta er skammarlegt, þetta er of lítið, þetta er of lágt. En þá skyldu menn ekki koma jafnframt og hafa allt á hornum sér og endasteypast um allt þjóðfélagið með fordæmingu á þeim mönnum sem hafa kjark í sér til þess að leggja á skatta fyrir þessum útgjöldum. (Gripið fram í.) Já, og svo skulum við koma að því, hv. þm.

Því er t.d. haldið fram að þessir skattar hafi bara verið lagðir á hina efnaminni. Ég er búinn að nefna dæmin um það, hv. þm. Því er haldið fram að það hafi ekki verið komið nálægt fyrirtækjunum í landinu. Á sama tíma kemur stjórnarandstaðan og segir: Það er búið að ganga svo hart að fyrirtækjunum í landinu að það verður að endurgreiða þeim, það verður að endurgreiða þeim uppsafnaðan söluskatt. Jafnframt vegna ástandsins í landbúnaðinum er of langt gengið að skerða framlög til stoðdeilda landbúnaðarkerfisins um 300 millj.

En hverjar eru staðreyndirnar um skattlagningu á fyrirtækin? Hvað hefur þessi ríkisstjórn gert? Hún hefur í fyrsta lagi lagt á erlent lántökugjald sem bitnar á fyrirtækjum. Hún hefur í annan stað hækkað ábyrgðargjöld vegna lána til fyrirtækja. Hún hefur hækkað álagningu á tekjuskatt félaga um nokkur hundruð millj. kr. Hún hefur lagt launaskatt á fyrirtæki. Hún hefur lagt skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði. Hún hefur krafið ríkisfyrirtæki um arðgreiðslur. Og hún hefur lagt sérstakt gjald á verktaka í þágu varnarliðs. Alls að upphæð 1,6 milljarðar kr. af þeim nettó 5 milljörðum sem um er að ræða í aukinni skattheimtu. Jafnframt var í fjárlagafrv. gert ráð fyrir því að draga úr og minnka millifærslur til fyrirtækja og stofnana upp á 1 milljarð þó að Alþingi legði ekki blessun sína yfir það og drægi úr þeim greiðslum aftur. M.ö.o.: það voru 2–21/2 milljarður sem lagðir voru á fyrirtækin, enda linnir ekki kröfunum núna af hálfu forsvarsmanna fyrirtækja um að hér hafi verið gengið of langt og svo veður stjórnarandstaðan um land allt og segir: Fyrirtækjunum var hlíft. Og það er rangt. Það er líka rangt.

Þessi ríkisstjórn breytti tekjuskattsálagningu fyrirtækja á þann veg að það er ekki lengur heimilt að færa niður útistandandi vörubirgðir og gjaldfæra þær síðan eins og áður var upp á 10%. Það er aðeins upp á 5%. Skattfrjáls framlög í fjárfestingarvarasjóði voru lækkuð úr 40% af tekjum í 25%. Skattfrjáls framlög í varasjóð eru afnumin. Fyrning á bifreiðum í eigu fyrirtækja er lækkuð úr 20% í 10% og það er ekki lengur leyfilegt að fjármagna bílakaup fyrirtækja með fjármögnunarleigum nema samkvæmt eðlilegum skattalögum, þ.e. það er bara tekið tillit til fyrningar og eðlilegra vaxta sem færa má sem reksturskostnað. Ég tók eftir því að málsvarar Alþb. voru dálítið hissa að þetta skyldi verða samþykkt, en þetta var dálítið líkt tillögum sem Alþb. flutti og ég hef lýst yfir stuðningi við þó það gengi ekki eins langt og þeirra tillögur gengu, enda gengu þær að sumu leyti of langt.

Það er m.ö.o. ekki rétt, sem hv. þm. hefur haldið fram og ég hef hlustað á hann segja 10, 20, 30 sinnum í málþófsræðustólnum, að fyrirtækjunum hafi verið hlíft þó ég hafi sparað mér það að svara honum þangað til núna. Það er rangt, hv. þm. Ég hef hins vegar sagt nægilega margt um það hvað þurfi að gera framvegis til að ljúka þessari heildarskattaendurskoðun að því er varðar virðisaukaskatt, að því er varðar skattlagningu fjármagnstekna og ég get ímyndað mér að milli okkar t.d. sé ekki mikill ágreiningur um það. En það er ekki sanngjarnt að segja: Þið áttuð að byrja á þessu, vegna þess að það er ekki hægt. Það var dúndrandi halli á ríkissjóði og það varð að byrja á söluskattinum sem er stærsti tekjustofninn. Það var búið að taka ákvarðanir um staðgreiðsluna og það var búið að leggja svo mikið á skattkerfið í landinu að það réði ekki við meira. Þess vegna varð að fara í þetta í þessari röð. Það eru rétt rök.

Það er alrangt, sem haldið hefur verið fram af hálfu stjórnarandstöðunnar, að hún hefði getað brúað bilið, náð jöfnuði í ríkisfjármálum þótt hún hefði flutt, sem hún ekki gerði, einhverjar tillögur um stóreignaskatt. Hún hefur ekki flutt neinar tillögur um stóreignaskatt. Það gerðum við þm. Alþfl. hins vegar 1983–1984, um stigbreytilegan stóreignaskatt sem þá átti að skila nokkrum hundruðum milljóna. Við féllum hins vegar frá því. Af hverju gerðum við það? Við fluttum þær tillögur ekki aftur. Hvers vegna ekki? Vegna þess að sú breyting er orðin á í þessu þjóðfélagi að hinir raunverulegu stóreignamenn eiga ekki eignirnar sínar í steinsteypu. Þeir ávaxta sitt fé með öðrum hætti sem ber meiri arð. Í steinsteypunni er hins vegar margt af tekjulágu öldruðu fólki sem hefur ekki tekjur til að standa undir slíkri skattlagningu. Það er þess vegna röng leið og hún hefði ekki skilað neinum tekjum upp í það stóra gat sem ég er að tala um. M.ö.o.: það er rangt, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram, að hún hefði komið með einhverjar raunsæjar tillögur sem hefðu skilað þessum árangri eftir öðrum leiðum. Það er hreinlega ekki satt.

Það bar dálítið á því og ber kannski dálítið á því enn að einstaka kaupmenn hafi ætlað að hagnast á skattkerfisbreytingunni, að þeir hafi ætlað að nota skattkerfisbreytinguna sem tilefni til þess að læða fram hjá verðhækkunum eða hækkun á álagningu sem átti ekkert skylt við skattkerfisbreytinguna og skattkerfisbreyting gaf ekkert tilefni til. Auðvitað hefur verið hér verðbólga, hefur ekki stjórnarandstaðan verið að lýsa því, há og mikil verðbólga. Vita menn að hækkun Evrópugjaldmiðla þýðir verulega hækkun á innflutningsverði? Tóku menn eftir verðhækkuninni á búvörum? Tóku menn eftir dæminu um fiskverðið þar sem reynt var að réttlæta óréttmæta hækkun með tilliti til einhverra upplýsinga um hækkun á fiskverðsmörkuðum sem reyndar reyndust rangar? Tóku menn eftir tilraun bakara til að hækka brauð umfram þessi tilefni? Ég get ekki að mér gert að segja það, en það eru tveir aðilar sem eiga nokkuð sameiginlegt í þessu máli, hafa reynt að hagnast með óeðlilegum hætti á réttmætri skattkerfisbreytingu. Það eru kaupahéðnarnir og stjórnarandstaðan hvor með sínum hætti, báðir með svikinni mynt, og aðrir þeir sem halda sig til hlés og þora ekki að bera ábyrgð á gerðum sínum. Þeir verða ekki menn að meiri áður en lýkur.

Hvernig væri nú að þeir sem kenna sig við félagshyggjuna og vildu gjarnan bera kratarósina í barminum undir forustu nýs formanns litu til fyrirmyndarríkisins, velferðarríkisins Svíþjóðar, og hættu að afgreiða mál eins og kjánar með „frösum“ heldur settust nú niður og stúderuðu rækilega rannsóknina sem fjmrn. sænska, ekki sænski krataflokkurinn, gerði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins á spurningunni: Eigum við að afnema matarskattinn í Svíþjóð? Kynnið ykkur skýrsluna. Það er eina almennilega rækilega úttektin sem fram hefur farið á því máli. Og hver var niðurstaðan? Niðurstaðan varð sú einfaldlega að það hefði orðið til tjóns fyrir barnafjölskyldur og láglaunahópa í Svíþjóð að afnema virðisaukaskatt á matvæli vegna þess að það hefði þýtt að þar með hefði fallið frá tekjuöflun, þeir hefðu orðið að hækka virðisaukaskattinn á afganginum upp í 35%. Menn geta hugsað hvaða afleiðingar það hefði haft. Það hefði þýtt að í staðinn fyrir að greiða út af öflugu, heilsteyptu kerfi, eins og við erum hér að taka upp, til barnafjölskyldna og hinna tekjulágu, með því að afnema virðisaukaskattinn, en fella þá auðvitað niður greiðslurnar, þá hefði niðurstaðan orðið sú, og það er þrælrannsakað, að það hefði orðið barnafjölskyldunum í óhag. (SJS: Er þá ekki best að leggja 100% á þetta?) Nei, það er ekki rökrétt ályktun af þessu, hv. þm. Ég skora á þig, hv. þm., að kynna þér þetta mál vandlega. (SJS: Ég hef gert það.) Það er stundum ekki nóg að segja: Kratarnir á Íslandi eru nú öðruvísi en í Svíþjóð — og það er rétt, Ísland er öðruvísi en Svíþjóð. Þrátt fyrir allt tal ykkar um Íslandsmet í skattheimtu er það nú samt sem áður svo að tekjuskattar á Íslandi eru einhverjir hinir lægstu, kannski hinir lægstu í öllu OECD-ríkjabandalaginu. Neysluskattar eru tiltölulega háir, en hlutur ríkis og sveitarfélaga, opinberra aðila í heildarskattheimtu af þjóðartekjum er 29% hér, þriðja lægsta hlutfalli af skattheimtu í OECD. Svíþjóð 52%, Noregur 49,8%, Danmörk 51%. Voruð þið ekki að tala um fyrirmyndarríki, velferðarríki? (AG: Hvað með Alaska?) Ég er að tala um heildarskattheimtu. Það sem ríki og sveitarfélög taka í sinn hlut af þjóðartekjum er þetta. Við erum innan við 30%, þessi lönd 50%. Meðaltalið í OECD er 38,8%. Þá vita menn það.

Það er auðvelt að slá sig til riddara í pólitík. Það er auðvelt að fara með falleg orð um hin mjúku gildi. Það er auðvelt að segja að maður beri fyrir brjósti alla þá sem sjúkir eru og hrjáðir. Allir komið þið til mín. Það er auðvelt að biðja um fleiri dagvistarheimili. Það er auðvelt að segja: Hlynnið betur að hinum sjúku. Byggið fleiri sjúkrahús, fleiri heilsugæslustöðvar, fleiri sambýli o.s.frv. Þetta hljómar ákaflega vel og fagurlega þegar það er fram borið af hlýju hjarta indælla kvenna og það er mikill munur á þessu eða kvótapólitíkinni hans Halldórs eða skattapólítíkinni hans Jóns Baldvins. Það er mikill munur á því að hafa hjartað á réttum stað.

Vitið þið hvað það kostar að liggja á sjúkrahúsi í einn dag? Það kostar 12 þús. kr. á dag. Vitið þið hvað það kostar að liggja á minni háttar sjúkrahúsi úti á landi? 8000 kr. á dag. Vitið þið hvað það kostar að liggja á langlegudeild? 5000 kr. á dag. Dagvistun fatlaðra sem greidd er af sjúkratryggingum: 1200 kr. á dag. Dagvistun aldraðra sem greidd er af sjúkratryggingum: Mjög lítið. 975 kr. á dag, minna en ef vistmaður er á elliheimili. Í sambýli fyrir fatlaða 3400–4800 kr. á dag.

Lítið nú yfir fjárlögin. Lítið yfir hvað velferðarríkið á Íslandi gerir, hvað það ver miklum hluta af tekjum, tekur mikla skatta til þess að borga út kostnað við að byggja sjúkrahús, heilsugæslustöðvar, við að halda uppi almannatryggingum, við að halda uppi sjúkratryggingum, við að halda uppi atvinnuleysistryggingum, við það að halda uppi skólakerfi, við það að halda uppi umönnunarstofnunum fyrir öryrkja, fyrir fatlaða. Lítið síðan á landsbyggðarpólitíkina, á vegina, á hafnirnar, brýrnar, flugvellina, samgöngurnar. Og lítið þið svo á stjórnarandstöðuna sem hefur í síbylju vikum og mánuðum saman hrópað: Þið eruð skattpíningarmenn! skattpíningarmenn! skattpíningarmenn! með þriðju lægstu skatta í OECD, flytur síðan tillögur um meiri útgjöld á öllum sviðum, meiri útgjöld! meiri útgjöld! meiri útgjöld! og stærra gat! Og svo kemur hún og segir: Hvar er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar? Veldur hún ekki óvissu? Jesús minn almáttugur! Ja, ríkisstjórn sem hefur svona stjórnarandstöðu þarf ekki að kvíða sinni framtíð. (Gripið fram í.)

Hér á meðal þm. er einn hv. þm. sem í umræðum um skattkerfisbreytinguna lýsti miklum áhuga á að við færum að bandarískri fyrirmynd og gerðum m.a. eitthvað í því að tryggja bætt skattaeftirlit með því að taka hér upp sjóðvélar sem fyrrum formanni Alþb. fannst svo fyndið að hann veltist um af hlátri, aðgerð til að koma á bættum skattskilum. Ég hef tekið þetta mál upp á mína arma, rannsakað það í þaula, talað við tæknimenn, haft samráð við kaupmenn, aflað upplýsinga erlendis frá og mun á morgun gefa út reglugerð um það að þann 1. maí skal hver einasti smásöluaðili í þessu landi hafa slíka löggilta innsiglaða sjóðvél. Ég hef haft marga vinnufundi með skattakerfinu svokallaða. Ég hef rætt við ríkisskattstjóraembættið, skattrannsóknarstjóra og skattyfirvöld í Reykjavík og á Reykjanesi. Ég hef lagt fram sjálfur tillögur og ég hef heimtað tillögur um hvað menn ætla að gera til þess að tryggja það að nú þegar búið er að skapa forsendur fyrir eftirliti og innheimtu, undanþágulaust söluskattskerfi á matvörur og engar refjar, engin svik og engir prettir, þá sjái þeir til þess að þessi verðmæti skili sér í velferðarkerfi á Íslandi. Það má heita svo að það hafi enginn fjmrh. talað við þetta skattakerfi síðan Magnús frá Mel var. Það er nærri því eins og rykfallið. Og það er fullt af mönnum sem eru hissa á því að það þarf að gera til þeirra kröfur. En þær verða gerðar. Og það verða ekki bara þessir búðarkassar. Það verða settar á eftirlitssveitir tveggja manna til að taka fyrir úrtök, áhættugreinar, fyrirtækjahópa, ekki til einhverrar allsherjarrannsóknar eða ofsóknar heldur að tryggja með tíðum heimsóknum að eftirlitið og innheimtan sé í lagi.

Ég er ekki að lýsa lögregluríki á Íslandi. Ég er ekki að boða að hér eigi að setja upp einhverja skattalögreglu með miklum fjölda manns, enda er skattakerfið á Íslandi vanmegnugt og fámennt og hvað snertir heimildirnar sem hæstv. fyrrv. fjmrh. hafði til að ráða hérna nýja menn, 20 manns, sem samþykkt var á Alþingi að okkar frumkvæði, þá eru allir hættir nema einn, allir.

Auðvitað þarf að gera margvíslegar breytingar, skipulagsbreytingar, lagabreytingar til þess að straumlínulaga þetta kerfi og gera það árangursríkt. En það verður gert. Það þarf líka að endurskoða bókhaldslög og það verður gert. Það þarf að herða viðurlög. Það verður gert. Það verður tryggt að þeir sem eru vörslumenn almannafjár skili því.

Var ekki einhver að segja, tók ég ekki rétt eftir því — jú, það var hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, að kjósendur á Íslandi hefðu áreiðanlega ekki átt von á þeim ósköpum sem nú hafa yfir þá dunið af málflutningi Alþfl. fyrir kosningar. Ég gróf upp úr kassa hjá mér blað sem dreift var á vinnustöðum um land allt og heitir: Tvær hliðar á sama máli, minnisblað til þín frá Alþýðuflokknum. Önnur hliðin: stöðugleiki og nýsköpun í efnahagsmálum ný atvinnustefna. Þar segir um ríkið: Hlutverk ríkisins verði skilgreint að nýju. Heildarendurskoðun á ríkisbúskapnum á kjörtímabilinu. Kannast menn eitthvað við það? Hallarekstur ríkisins verði stöðvaður með nýju tekjuöflunarkerfi og fækkun útgjaldaliða. Endurskipulagning banka og sjóðakerfis. Auknar fjárveitingar í húsnæði, skóla og samgöngumál. Kannast menn við það að þetta hafi verið efnt? Hin hliðin á sama málinu: skattar. Staðgreiðslukerfi skatta, já. Upprætum skattsvikin, herðum skatteftirlit, fyrirtækin beri sinn hlut skattbyrðarinnar. Virðisaukaskatt í stað söluskatts. Já, en lægra skatthlutfall og án undanþága. Skattbyrði tekjuskatts lækki um leið og bætur almannatrygginga og fjölskyldubætur hækki. Kannast menn við að þetta hafi verið efnt? Sveitarfélög fái aukið frjálsræði um skattstofna, álagningu og gjaldskrár þjónustufyrirtækja. Og hvað er sagt um valddreifingu? Fækkun og stækkun sveitarfélaga. Gjöld og fjármagn heim í héruð. Verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð. Kannist þið við þetta? Ætlið þið svo að halda því fram að kjósendum hafi ekki verið sagt hvert við stefndum og hvert við ætluðum? Er ekki hér Jónsbók eða stjórnarsáttmáli? (AG: Það eru þrír flokkar í ríkisstjórn. Eru þeir búnir að samþykkja þetta?) Ertu ekki að kvarta undan því, hv. þm.? Er ekki verið að kvarta undan því að það sé verið að framkvæma þessa stefnu?

(AG: Ég er ekki að kvarta undan því. Ég er að spyrja.) Með leyfi forseta segir í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar um heildarendurskoðun skattakerfisins:

„1. Staðgreiðsla beinna skatta einstaklinga kemur til framkvæmda í ársbyrjun 1988.“ Er það ekki komið? Höfum við ekki staðið við það?

„2. Tekjuskattsálagning atvinnurekstrar verður jafnframt endurskoðuð og einfölduð og að því stefnt að ný skipan taki gildi á árinu 1988.“ Hefur það ekki verið gert? Búið.

„3. Launaskattur og tryggingagjöld atvinnurekenda vegna launþega verða einfölduð og samræmd og leggist sem jafnast á allar atvinnugreinar.“ Er ekki búið að leggja á launaskatt? Það er ekki búið að samræma hann. Hann er enn 3,5% í verslun og þjónustu. En það er búið að stíga fyrsta skrefið.

„4. Athuguð verður skattlagning fjármagns- og eignatekna og samhengi slíkrar skattlagningar og eignarskatts og skatta af öðrum tekjum.“ Það stendur hér: athuguð verður. Það er ekki tímasett. Það er í undirbúningi. Starfshópur vinnur að því. Menn munu sjá það.

„5. Tekin verður upp ný, samræmd og einfölduð gjaldskrá aðflutnings- og vörugjalda sem gæti komið til framkvæmda á árinu 1988.“ Er það ekki búið?

„6. Virðisaukaskattur, eða nýtt og endurbætt söluskattskerfi, verði komið í varanlegt horf 1989. Undanþágum frá núverandi söluskatti verður fækkað í áföngum sem aðdraganda að breyttu skattkerfi. Fyrsta skref í þessa átt kemur til framkvæmda um mitt ár 1987 og annað í ársbyrjun 1988.“

Er ekki búið að framkvæmda þetta í áföngum? 1987? Er það ekki komið í framkvæmd? 1988? Munið þið kannski ekki á næstu vikum fá að sjá virðisaukaskattsfrv.? Var ekki einhver að spyrja að því hér hvort þessi ríkisstjórn vissi hvaðan hún legði upp og hvert hún ætlaði? Getur hugsast að þessi ríkisstjórn sé að vinna samkvæmt áætlun? Ég held að það sé leitun að ríkisstjórn sem eftir sex mánaða tíma getur flett upp á bls. þetta í sínum starfssáttmála og sagt um viðamesta málið í stjórnarsáttmálanum, endurskoðun skattakerfisins: Þetta er búið á sex mánuðum. (SJS: Hvað með kaflann um kvótann? Var hann ekki felldur?) Ég er að tala um skattamál. Getið þið nefnt mér dæmi um ríkisstjórn sem hefur staðið jafnvel við sín kosningaloforð og þessi? Þið gætuð ekki nefnt mér hana þó þið færuð heiminn á enda. (AG: Hvað hefur breyst í söluskattinum? Það hefur ekkert breyst.)

Ég held ég hafi gert það eins skýrt og unnt er að áróðurinn sem beint hefur verið af hálfu stjórnarandstöðunnar gegn aðgerðum þessarar ríkisstjórnar við að endurreisa skattakerfið, sem allir vissu að var í molum, standa við sín fyrirheit, standa við sína starfsáætlun, áróðurinn um áhrif þessarar skattkerfisbreytingar er rangur og staðreyndirnar sjálfar munu afhjúpa það þegar fram líða stundir. Og ég endurtek: Það verður hlegið að lokum að þeim úrtölumönnum sem í nafni félagshyggju a.m.k. andæfðu þessum nauðsynlegu þjóðfélagsumbótum. Það sem menn spyrja síðan um er þetta: Það er samt sem áður óvissa og hún lýtur að gengi og hún lýtur að kjarasamningum. Ekkert af því sem ríkisstjórnin hefur gert er steinn í götu kjarasamninga. Þvert á móti. Það er verið að leggja grundvöll að framtíð velferðarríkis á Íslandi með traustara tekjuöflunarkerfi. Það er hlutur sem verkalýðshreyfingin mun skilja betur, ef hún skilur það ekki þegar, síðar meir.

Það er ekki mark takandi á þeim sem hrópa á gengislækkun. Það er ekkert tilefni til neinnar gengislækkunar í þessu ástandi. Það á að taka þetta í einn punkt. Við skorum á fulltrúa launþega, við skorum á atvinnurekendur í landinu að gæta sameiginlegra hagsmuna sinna, setjast að samningaborði, semja út árið, semja um varðveislu kaupmáttar, leiðréttingu á misgengi hinna lægst launuðu. Ríkisstjórnin mun þá vera reiðubúin að koma inn í það dæmi til að greiða fyrir rekstrarafkomu í sjávarútvegi eftir því sem henni er fært án þess að það verði gert á kostnað trausts ríkisfjárhags. Fari menn þessa leið eru menn komnir yfir erfiðasta hjallann vegna þess að þá, þegar slíkir samningar lægju fyrir árið á enda, er gefinn hlutur að verðbólga mun fara ört lækkandi á seinni hluta árs. Þá en fyrr ekki er hægt að taka ákvörðun um lækkun nafnvaxta. Þessi leið, og það vita menn af reynslu og það geta menn reiknað sjálfir, mun tryggja betur afkomu atvinnuveganna, sérstaklega afkomu útflutningsatvinnuveganna, og hún mun tryggja betur kaupmátt launþega en allar tölur um lögbundin lágmarkslaun upp í 40 þús. kr. Það vita allir sem eitthvað hafa komið nálægt kjaramálum.

En eins og fram kom í máli forsrh. er það ekkert launungarmál að ríkisstjórnin hefur verið að vinna að og undirbúa tillögur um valkosti og greinargerðir, hvað hún geti gert að því er varðar hugsanlega endurgreiðslu á uppsöfnuðum söluskatti. Ég tek það fram, leyni ekki þeirri skoðun minni: Það á ekki að borga neitt til útgerðar, ekki neitt. Hagur hennar er góður. Fjárfestingaráform hennar eru stórbrotin. Það á að beina þessu fé að vinnslunni til þess að skapa forsendur fyrir því að greiða hærri laun hjá fiskvinnslufólki. Það á að bjóða fiskvinnslunni upp á skuldbreytingar 1–2 ár, framlengingu á skuldbreytingum. Það er í undirbúningi hjá hæstv. sjútvrh. og viðskrh. endurskoðun á verðjöfnunarsjóði fiskvinnslunnar sem getur komið ýmsum öðrum greinum til góða. Og það á, ég tek undir það með hæstv. sjútvrh., að taka á fjárfestingaráformum sem eru langt umfram okkar efni. Nefndi ég ykkur ekki tölur í upphafi máls míns, ég man það ekki? Reykjavíkurborg 63% milli ára, sveitarfélögin 43%. Og ætla menn svo að halda áfram ræðunum sínum um að það sé verið að eyðileggja fjárhag sveitarfélaga, Jesús minn almáttugur!, og nota það sem átyllu fyrir því að leggja stein í veg þeirra merku umbóta að færa verkefni yfir til sveitarfélaganna, enda hefur fjárhagur þeirra verið styrktur um 1200 millj. milli áranna og hana nú? Það má líta á skipin. Það má líta á fjárfestingaráform sem ekkert liggur á. Ég hins vegar minni á að af hálfu hins opinbera, þ.e. ríkisins, var búið að skera býsna mikið niður. Það var ekki gert ráð fyrir neinum erlendum lántökum ríkisins, engum. Það er ekki um að ræða neinar umtalsverðar framkvæmdir á vegum ríkisins eða ríkisstofnana nema hjá Landsvirkjun og raforkugeiranum, hitaveitunum. Það er hins vegar mjög hátt stig fjárfestingaráforma hjá einkaaðilum og sveitarfélögum. Hér hefur ríkisstjórnin ekki ótvíræð völd. Hún á að beita fortölum, sannfæringarkrafti. Það er mjög þýðingarmikið að þetta verði gert. Þetta er það áhrifaríkasta sem hægt er að gera til að draga úr spennunni, eftirspurnarspennunni, miklu áhrifaríkari aðferð en reyna að freista einhverra hlutaskipta í þjóðfélaginu í gegnum gengislækkun sem mundi vara í nákvæmlega þrjá mánuði og skilja alla eftir í verra ástandi eftir en áður.