04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4273 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við vorum að hlusta á tímamótaræðu. Það er ekki hægt að segja annað. Ég hygg að margir sem hlustuðu á hana hafi haft tilfinningu fyrir því að hæstv. fjmrh. hafi eftir að þinghléið var gefið hrokkið upp við vondan draum, að mál hafi ekki farið á þann veg sem hann og hæstv. ríkisstjórn gerðu ráð fyrir.

Það sem ríkisstjórn verður að athuga, ekki síst ef það er talin ástæða að þrengja að, er að hún verður að sýna réttlæti. En bera þær ráðstafanir sem gerðar voru og það ástand sem er í landinu þess vott að réttlætið hafi verið haft að leiðarljósi? Hæstv. ráðherra las upp alls konar tölur. Ég vil blátt áfram ekki trúa því að hann trúi þeim sjálfur. Þeir sem fara í búðirnar og kaupa í matinn vita betur. Ég held að það væri hollt fyrir hæstv. ráðherra og aðra stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að tala við þetta fólk ef þeir gera sér ekki sjálfir grein fyrir hvað hefur verið að gerast um sl. áramót í þessu máli.

Ég held að orð á Alþingi, fullyrðingar, hvort sem þær eru um hvað hefur hækkað og hvernig þetta komi út, hafi í raun og veru ekki mikið að segja heldur sé það reynslan. Þess vegna ættu þessir hv. þm. og ráðherrar að reyna að fylgjast með sjálfir hvernig þróunin hefur orðið.

Það hefur verið fullyrt hvernig vaxtamunurinn sé í bönkunum. Ég ætla ekki að fara inn á það í þessari umræðu, enda er ég á mælendaskrá um annað mál sem hv. þm. Eggert Haukdal er flm. að og mun ég koma að því frekar þá. En eitt er alveg víst, að ástandið í þessum málum er langt frá því að vera eins og hæstv. fjmrh. vildi vera láta í ræðustól, enda leyndi sér ekki að hann var órólegur út af stöðu mála þó hann læsi upp margar tölur til að reyna að fullvissa þingheim og aðra þá sem hér hlusta um að það væri fyrst og fremst verið að hugsa um þá sem minna hafa í sambandi við þá kerfisbreytingu sem hæstv. ríkisstjórn hefur komið fram. Að halda að matur fyrir fjögurra manna fjölskyldu kosti ekki nema 24 þús. á mánuði. Það má a.m.k. sleppa einu sinni eða tvisvar ýsunni í hverri viku ef það á að duga og ýmsu öðru. Nei, svona ræður þýðir ekki að flytja hér og þýðir ekki að segja þjóðinni. Buddan segir til sín og ég held að hæstv. ráðherrar og þm. stjórnarliðsins ættu að passa sig að vera ekki með of miklar fullyrðingar. Reynslan er nefnilega ólygnust. Reynslan mun sýna og er farin að sýna hvað var verið að gera.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál öllu frekar. Mér sýnist að það bendi flest til þess að það verði farið út í verkföll. Ég skil vel þá sem eru með lágmarkslaun þó að þeir vilji gera allt sem í þeirra valdi stendur til að bæta hag fjölskyldna sinna og reyna að knýja fram kauphækkun — því að hver treystir sér til að lifa á þessum launum, hver treystir sér til þess?

Hæstv. fjmrh. var að tala um lág laun, 71 þús. kr. á mánuði fyrir einstaklinginn. Ég þekki nokkuð af fólki sem er með rúmar 30 þús. og enn fleira sem er með um 40 þús. Hvernig fer það að að lifa? Og það þýðir ekkert að vera með meðaltöl. Það er stór hluti af fólki í landinu sem er með 30–40, kannski upp undir 50 þús. kr. — og ef það er ein fyrirvinna, hvernig kemst sú fjölskylda af?

Hæstv. fjmrh. talaði um hvernig mál stæðu og hverju hefði verið lofað og hann fór í gráu bókina og las upp. En hann las ekki um að það var verið að lofa því að lækka verðbólguna. Hefur hún lækkað? Að lækka vexti. Hafa þeir lækkað? Ég held að hv. þm. og hæstv. ráðherrar ættu að lesa þetta gráa kver. Það er ekki nóg að lesa upp aðeins eina, tvær, þrjár setningar, en ef menn fara að lesa það miðað við staðreyndirnar hljómar það að miklu leyti sem öfugmæli.

Fyrir norðan er farið að syngja eftirfarandi ljóð með viðlagi og það er kannski nóg fyrir mig að lesa það upp því það segir allt sem segja þarf, með leyfi forseta:

Flokkarnir gáfu fyrirheit

um félagslegt jafnrétti í raun,

bæta aðstöðu í bæjum og sveit,

borga lífvænleg laun,

lækka verðbólgu og lánakjör,

loforðin mörg og góð.

Íhaldsstjórn var svo ýtt úr vör.

Eftir stóð þjóðin hljóð.

Og viðlagið:

Fjármagnið sýgur framleiðsluna

og fátækan almenning.

Skattinn fræga á matinn muna

margir sem kjósa á þing.

Ríkisstjórn Reykjavíkur,

ríkisstjórn braskara.

Viljirðu verða ríkur

verðurðu að búa þar.

Fjármagnið frelsi hefur,

fátækir lítinn rétt.

Örlagavefinn vefur

velbúin millastétt.

Og svo kemur viðlagið:

Fjármagnið sýgur framleiðsluna

og fátækan almenning.

Skattinn fræga á matinn muna

margir sem kjósa á þing.