04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4282 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Þórður Skúlason:

Herra forseti. 50–60 manns hefur verið sagt upp í frystihúsi á ótilgreindum stað úti á landi vegna þess að rekstrargrundvöllur er brostinn. 25 manns hafa misst vinnu á prjóna- og saumastofu sem hefur verið lokað vegna gjaldþrots. Mikill samdráttur og óvissa ríkir í byggingariðnaði vegna þess að enginn þorir að fjárfesta í íbúðarhúsnæði sökum þess að mikið misgengi er á milli söluverðs og áhvílandi lána. Verslun og þjónusta dregst saman vegna samdráttar í landbúnaði og fólksfækkunar í sveitum. Bændur fá ekki uppgert fyrir haustinnlegg og afurðasölufyrirtæki berjast í bökkum.

Er þessi lýsing ekki dæmigerð fyrir fréttaflutning af landsbyggðinni um þessar mundir? Svarið er jú. Því miður. Þannig birtist efnahagsstefna þessarar ríkisstjórnar okkur landsbyggðarfólki í raun, í samdrætti, stöðnun og óvissu á meðan þenslan vex stöðugt hér á höfuðborgarsvæðinu fyrir sunnan.

Samtals tapaði landsbyggðin um 1500 íbúum hingað til höfuðborgarsvæðisins á sl. ári og það þarf að leita langt aftur í tímann til þess að finna sambærilegar tölur. Ástæðan er augljós og blasir alls staðar við hvar sem litið er yfir sviðið: Stefna ríkisstjórnarinnar og aðgerðir hennar allar eru landsbyggðinni fjandsamlegar. Og ég spyr hæstv. ríkisstjórn: Á þetta ástand að vera viðvarandi í byggðamálum? Er þetta framtíðarbyggðastefna þessarar stjórnar? Er þetta e.t.v. byggðastefna unga fólksins sem var kjörorð Sjálfstfl. á Norðurl. v. fyrir síðustu kosningar? Stjórnarþm. mega líka gjarnan svara þessari spurningu. En landsbyggðarmenn eiga heimtingu á svörum og skipulagsstofa höfuðborgarsvæðisins á líka heimtingu á svörum. Hún býr sig nú reyndar undir það að taka við tugþúsundum landsbyggðarfólks á þeim fáu árum sem enn eru eftir til aldamóta. Skipulagsstofan hefur svarað sér sjálf. Og miðað við stefnu ríkisstjórnarinar er svar hennar skynsamlegt. Miðað við hagsmuni þjóðarheildarinnar er svarið hins vegar rangt og óskynsamlegt. Það er beinlínis rangt og hættulegt að efna til meiri fólksflutninga af landsbyggðinni hingað til höfuðborgarsvæðisins en þegar eru orðnir. Það þjónar heldur ekki hagsmunum þessa svæðis þegar til lengri tíma er litið. Og ég spyr enn og aftur: Er framtíðarspá skipulagsstofunnar um fólksflutninga í samræmi við stefnu stjórnarinnar í byggðamálum? Ef svo er ekki: Til hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til að spáin rætist ekki?

Hver á Ísland? er sígild spurning. Ísland er í tröllahöndum undir þessari stjórn sem hefur frjálshyggjuna að leiðarljósi eins og gleggst kemur fram í ástandi efnahagsmála um þessar mundir. Jafnvel stjórnarþm. er tekið að blöskra. Oftrúin á peningana og fjármagnið er allsráðandi. Engin verðmæti í þjóðfélaginu eru betur tryggð en peningarnir. Peningarnir, sem teknir voru að láni til húsbygginga og aðeins voru hluti af byggingarkostnaði, eru fyrr en varir orðnir meira virði en öll húseignin. Húsbyggjandinn hefur tapað öllu því sem hann lagði í bygginguna af eigin fé.

Þrátt fyrir að afborganir og vextir verði sífellt hærra hlutfall af launum sem bannað er að verðbæta í 30–40% verðbólgu eins og nú er, þá hækka stöðugt áhvílandi lán. (Dómsmrh.: Það er ekki bannað að verðbæta laun.) Nei, en það nást ekki samningar um það og það var bannað á sínum tíma. (Dómsmrh.: Já, það er annað mál.) Afleiðingin af þessu öllu saman er auðvitað sú að stöðugt hækka áhvílandi lán, enda eru þau að fullu verðbætt. Það grípur um sig vonleysi og uppgjöf hjá einstaklingunum sem oftar en ekki endar með því að þeir verða gjaldþrota og nauðungaruppboðin taka við. Slíkir gjörningar eru að sliga embætti borgarfógeta eftir því sem dagblaðið Tíminn sagði í morgun og vextir á Íslandi eru sennilega þeir hæstu í heiminum.

Hæstv. viðskrh. Alþfl. og ríkisstjórnin horfa upp á það að vextir hækki á einu ári um 100%. Trúaratriðið að vextir skuli vera frjálsir er allri skynsemi yfirsterkari. Og auðvitað hefur mismunur útláns- og innlánsvaxta aldrei verið meiri en einmitt núna. Svo dæmi sé tekið eru dráttarvextir nú komnir í 4,3% á mánuði eða 51,6% á ári. Er nokkur furða þó að bankastarfsemin í landinu þenjist út við þessar aðstæður? Var ekki einhvern tíma verið að tala um það að fækka bönkum? Gróði bankanna á sl. ári hlýtur að vera gífurlegur og gróði þeirra sem eiga peninga og ávaxta þá á „gráa fjármagnsmarkaðnum“ er auðvitað enn þá meiri. Það eru fjármagnseigendurnir sem eru sérstakir skjólstæðingar þessarar ríkisstjórnar sem með stefnu sinni gerir þá ríku ríkari og fátæku fátækari. Í stað stóreignarskatts er lagður á matarskattur.

Það eru fjármagnseigendurnir sem eiga Ísland og eignatilfærsla til þeirra hefur aldrei verið meiri og hraðari en einmitt undir handarjaðri alþýðuflokksráðherranna sem fyrir réttu ári gáfu sig út fyrir að vera málsvarar lítilmagnans og réttlætisins.

Auðvitað ber ríkisstjórnin fulla ábyrgð á vaxtaokrinu og getur létt því af með einu pennastriki ef hún vill og hennar ábyrgð er mikil og afleiðingarnar af stefnu hennar eru alvarlegar og slæmar.

En hverjir borga þá þessa háu vexti? Ég hef þegar tekið dæmið af húsbyggjandanum og auðvitað leikur vaxtaokrið margan einstaklinginn og fjölskylduna grátt. En fyrirtækin og framleiðslugreinarnar á landsbyggðinni verða líka hart úti í þessu vaxtafári. Þau geta ekki velt þessum háu vöxtum út í verðlagið. Þau eru með mikið birgðahald, hæga veltu og lítið eigið fé. Afkoma þeirra margra hverra veltur því að miklu leyti á því hvaða stefna er rekin í vaxta- og peningamálum. Þess vegna eru þau nú mörg hver í verulegum rekstrarerfiðleikum. Þess vegna eru málefni fyrirtækjanna og atvinnurekstrarins nú inni á borðum sveitarstjórna vítt um landið því að atvinnulífið er að stöðvast fyrir aðgerðarleysi stjórnvalda og ranga stefnu.

Hvernig er með fiskvinnsluna? Hér hefur verið greint frá því að hún er rekin með tapi. Og hvernig er með skel- og rækjuvinnsluna? Hún er rekin með enn þá meira tapi. Til hvaða aðgerða greip hæstv. ríkisstjórn með skattakónginn Jón Baldvin í broddi fylkingar í sumar gagnvart þessum atvinnurekstri? Það voru lagðar á nýjar álögur, 1% launaskattur og felld niður endurgreiðsla á uppsöfnuðum söluskatti. Þetta er nú allur skilningur stjórnarinnar á högum þessara greina. Nú sér ríkisstjórnin hins vegar að sér þó í litlu sé og uppsafnaður söluskattur skal nú endurgreiddur samkvæmt frv. sem lagt hefur verið fram. En auðvitað er það atriði léttvægt miðað við annað óhagræði af efnahagsstefnu stjórnarinnar sem nú er að sliga atvinnureksturinn.

Og hvað með vaxtarbrodd íslensks iðnaðar sem einu sinni var kallaður, ullariðnaðinn? Hann kom lítillega til umræðu hér í morgun. Það liggur á borðinu að á tæpum tveimur árum hefur nánast tekist að drepa þessa atvinnugrein. Fyrir utan einhverja aðstoð við samruna Álafoss og iðnaðardeildar SÍS hefur ekkert verið gert af hálfu stjórnvalda til að laga stöðu þessarar greinar utan eitt sem kom fram hér í morgun í máli iðnrh. — og það er afleitt að hann skuli ekki vera hér við núna, en mig langar örlítið til að vitna í það sem hann sagði hér í morgun vegna þess að ég álít að það lýsi vel hugarfari ríkisstjórnarinnar til framleiðslugreinanna í landinu.

Hann var einmitt að segja frá því að hann hefði gert einn hlut fyrir ullariðnaðinn: Hann hafði skrifað bréf. Hann hafði skrifað bréf til fjárfestingarlánasjóða iðnaðarins og hann hafði líka skrifað bréf til sveitarstjórna er hýsa ullariðnað og, þar bað hann um lækkun eða niðurfellingu aðstöðugjalda á fyrirtæki í ullariðnaði. Já, þvílíkt bjargráð og þvílík reisn hjá ráðherra og ríkisstjórn sem nýbúin er að leggja launaskatt á þessa atvinnustarfsemi! Mér skilst líka að uppsafnaður söluskattur í ullariðnaði fáist ekki endurgreiddur lengur. Vonandi er það rangt hjá mér. Svo er því vísað til sveitarfélaganna að gefa eftir meðan ríkissjóður eykur sínar álögur og heldur niðri tekjum sveitarfélaganna, skammtar þeim útsvarstekjur neðan nauðþarfa og hirðir af þeim lögbundin og löngu umsamin framlög í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þar fyrir utan hefði ráðherrann auðvitað átt að vita að sveitarstjórnir margar hverjar hafa verið með beina aðild að ullariðnaðinum sem eignaraðilar eða ábyrgðaraðilar.

Það liggur þegar fyrir að sveitarfélög tapa stórfé nú þegar sauma- og prjónastofur verða gjaldþrota vítt um landið. Þær upphæðir nema trúlega á annan tug milljóna, jafnvel meira. Milli 500 og 600 manns hafa misst vinnu vegna erfiðleika og samdráttar í ullariðnaðinum. Sveitarstjórnir vítt um landið hafa örugglega gert sitt til að halda lífi í þessum atvinnurekstri, en ríkisstjórnin ekkert. Hún bregður fyrir hann fæti með nýjum álögum og fer svo fram á að sveitarfélögin felli niður gjöld af greininni. Ja, þvílík ráð og þvílíkar aðgerðir!

Það er auðvelt að vera gjafmildur á kostnað annarra, en stórmannlegt er það ekki. En þannig er nú einu sinni viðhorf ríkisstjórnarinnar til framleiðslugreinanna og sveitarfélaganna og kemur víða fram í stefnu hennar.

Fjölmargar sveitarstjórnir á landsbyggðinni standa nú frammi fyrir því við gerð fjárhagsáætlana að tekjur duga ekki fyrir rekstrargjöldum. Því veldur of lág útsvarsprósenta og óvissa um innheimtu í staðgreiðslukerfi skatta og til viðbótar kemur síðan vegna stefnu stjórnarinnar atvinnureksturinn inn á borð sveitarstjórnarmanna með ógreidd gjöld og skuldir sem hlaðast upp við sveitarfélögin, með beiðni fyrirtækjanna um skuldbreytingar og frestun á greiðslu á gjöldum og þjónustugjöldum líka, með beiðni um lækkun gjalda eða niðurfellingu og með beiðni um nýtt og aukið hlutafé frá sveitarfélögunum. Þessar kröfur dynja nú á verst settu sveitarfélögunum á landsbyggðinni, smærri kaupstöðunum og þéttbýlisstöðunum, kauptúnum og kaupstöðum sem eru að reyna að halda uppi þjónustu þrátt fyrir litla fjárhagslega getu og eru líka að reyna að aðstoða atvinnulífið og halda því gangandi. Þetta á auðvitað ekki við sveitarfélög hér á höfuðborgarsvæðinu sem aldrei í sögunni hafa haft annan eins tekjuafgang og einmitt núna. Manni skilst að samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar verði framkvæmdafé borgarinnar 2 milljarðar á næsta ári. Sveitarfélögin á þessu svæði eru heldur ekki með atvinnureksturinn á sínum herðum og hann kemur aldrei neitt inn á þeirra borð. Þau eru heldur ekki með neinar erfiðar veitustofnanir eins og mörg sveitarfélög úti á landi því þar eiga hitaveitur í mörgum tilfellum í miklum rekstrarerfiðleikum. Reykjavíkurborg sækir gull í greipar allra sinna stofnana, vatnsveitu, hitaveitu og hafnar og er auðvitað með allt aðra aðstöðu en sveitarfélögin úti á landi í þessum efnum.

Stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum sveitarfélaganna miðast við þarfir Reykjavíkurborgar einnar og ekki er litið til neins annars. Aumingjarnir úti á landi mega eiga sig. Sjóndeildarhringur hæstv. ríkisstjórnar nær ekki lengra en upp í Mosfellssveit og suður í Hafnarfjörð. Það er nú allt víðsýnið. Það sannast í efnahags- og fjármálastefnu stjórnarinnar allri sem er landsbyggðinni einstaklega fjandsamleg.