04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4286 í B-deild Alþingistíðinda. (2986)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Herra forseti. Ríkisstjórnin stendur óneitanlega frammi fyrir talsverðum vanda í efnahagsmálum. Sá vandi er hvorki nýr né óvæntur, en það væri skinhelgi að halda því fram að ríkisstjórnin ætti ekki við vanda að glíma. Sjálfsagt geta menn ekki farið fram á það eða ætlast til þess að allir þm. þriggja stærstu stjórnmálaflokkanna á Íslandi séu sammála um aðgerðir í jafnerfiðum málum og efnahagsmálum, enda er það ekki svo og verður sjálfsagt seint. Það væri skinhelgi að viðurkenna það ekki að margir stjórnarþm. hafa áhyggjur af stöðu efnahagsmála. Í mínum flokki eru miklar áhyggjur. Ég skal lýsa því í fáeinum orðum hvað ég á við með því.

Við stöndum frammi fyrir kjarasamningum í þessu þjóðfélagi. Kjarasamningum fylgir ævinlega nokkur óvissa. Verðbólgan er of mikil og hún hefur verið vaxandi. Staða útflutningsatvinnuveganna er slæm og fer versnandi. Vaxta- og fjármagnskostnaður er of mikill miðað við samkeppnisaðila okkar erlendis. Við rekum hér gengishækkunarstefnu í reynd. Hallinn á viðskiptum við útlönd er allt of mikill og þar ber ríkisstjórnin vissulega ábyrgð. Þar verður að taka til hendinni. Hins vegar hefur tekist að ná jöfnuði í búskap ríkisins. Það er vel. Og fjmrh. á heiður af þeirri baráttu sem hann hefur háð á þeim vettvangi. Jafnvægi er í stjórn ríkisbúskaparins.

En mig langar að fjalla örfáum orðum um hvern þessara þátta. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um kjarasamningana, ég ætla ekki að gerast spámaður á þeim vettvangi og ég ætla heldur ekki að fara að ræða hér almennt um þá stefnu hvort kjarasamningar eigi að vera algjörlega frjálsir eða hvort þeir eigi að vera þríhliða, hvort ríkisstjórnin eigi að koma inn í slíka samninga. Ég hef hins vegar margsinnis bæði í ræðu og riti lýst þeirri skoðun minni að kjör hinna lægst launuðu verði ekki bætt með beinum samningum á vinnumarkaði. Þar verði ríkisvaldið að koma inn í. Ég tek þess vegna algjörlega undir það sem 16. þm. Reykv. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir sagði hér um þau mál. Ef menn eru sammála um það, sem mér finnst margir vera, sem hér hafa talað, þá þurfa menn að taka til höndum. Það er vissulega vandaverk, jafnvel þó að hið opinbera vilji taka þar til höndum vegna þess að það getur hæglega mistekist líka. Mistökin eru of mörg á leiðinni þegar við höfum reynt að bæta kjör þeirra lægst launuðu. Vítin eiga að vera til varnaðar. Ég held að menn verði að gá að sér, hvernig þeir fara að núna, ef menn meina eitthvað með því að þeir vilji ganga þessa braut.

Aðaláhyggjuefni mitt í því hversu há verðbólgan er, er að hún er þetta há þrátt fyrir það að genginu hefur verið haldið nokkurn veginn föstu, þrátt fyrir utanaðkomandi hækkanir, þrátt fyrir stöðugt hækkandi gengi íslensku krónunnar hefur verðbólgan farið vaxandi. Það er áhyggjuefni. Það er mikið áhyggjuefni.

Mig langar líka til að koma hér dálítið inn á vaxtamálin og vil byrja á að segja það að ég er algjörlega sammála viðskrh. um það að vextirnir verði ekki lækkaðir hér úr þessum ræðustól með einhverjum yfirlýsingum. Þeir verða heldur ekki lækkaðir með stjórnvaldsákvörðunum eða lagasetningum. Ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að þeir verði ekki lækkaðir nema með minnkaðri eftirspurn á lánsfjármarkaði og auknu framboði á honum. En kannski greinir okkur dálítið þar á mig og viðskrh. Ég veit það ekki. Mig langar til að gera grein fyrir mínum skoðunum varðandi það einmitt hér úr þessum ræðustól.

Í fyrsta lagi er ég ekki sammála því að raunvextir á Íslandi hafi verið svipaðir og í löndunum í kringum okkur vegna þess að raunvextir eru skilgreiningaratriði. Raunvextir eru gjarnan skilgreindir hér sem vaxtastig yfir lánskjaravísitölu. Lánskjaravísitala er að mínu viti mjög gallaður mælikvarði. Lánskjaravísitalan mælir eingöngu kostnaðarbreytingar í þjóðfélaginu og tekur ekkert tillit til tekjubreytinga. Það er mikill galli. Það er svo mikill galli að ég efast um að við hana verði búið lengi. Og ég hygg að hún sé ónothæf á styttri fjárskuldbindingar. Á sama tíma og menn segja að allt eigi helst að vera frjálst og frjáls markaðsöfl eigi að leita jafnvægis þá eiga menn auðvitað ekki að freista þessa að binda eða reyra með vísitölum ákveðna þætti eins og þarna hefur verið gert. Fyrir utan það að á sama tíma og menn eru flestir hygg ég sammála um það að ekki sé unnt að binda kaupmátt launa við vísitölu, þá held ég að menn hljóti að sjá það að ávöxtun sparifjár eða lánsfjár er óviðunandi að binda á þennan hátt eingöngu við kostnaðarhækkanir. Það þarf ekki annað en að gefa sér einföld dæmi. Ef þjóðin yrði fyrir stórum áföllum, við skulum segja í sjávarútvegi, tekjur þjóðarinnar stórminnkuðu í einu vetfangi, laun þar af leiðandi hlytu að lækka, þá sjá menn allir að þeir sem fé eiga geta náttúrlega ekki fengið ávöxtun af sínu fé í samræmi við kostnaðarhækkanir. Þarna er einn þáttur sem við höfum bundið við kostnaðarhækkanir og að mínu viti ranglega.

Ég tel alveg ljóst að raunvextir hér eru miklu hærri en í löndunum í kringum okkur. Við þurfum ekki annað en bera saman þróun meðalgengis og þróun lánskjaravísitölu og raunvextina sem reiknaðir eru yfir lánskjaravísitölu. Það kann vel að vera að hagfræðingarnir okkar geti sagt: Þetta er bara teorían, þetta er einfalt. Yfir vísitölunni er þetta vaxtastig. Og raunvextirnir eru einmitt þetta sem greitt er yfir verðbólguna. En við hinir, sem borgum þessa vexti, við sjáum að þessi teoría stenst ekki. Ekki síst í samanburði við þá sem við eigum að keppa við á erlendum mörkuðum. Fyrir utan það að lán með þessum vöxtum sem talað er um í bönkunum, 8–9,5% ofan á lánskjaravísitölu, fáum við ekki. Það er ekki hægt að fá þau. Við borgum allir 14–18%. Og það eru ekki bara þeir, eins og viðskrh. heldur, sem reka einhvern erfiðan rekstur eða hafa fjárfest ranglega. Við fáum bara ekki önnur lán. Þetta eru lánin sem eru notuð. Menn selja verðbréf á markaðnum þannig að raunvextirnir yfir lánskjaravísitölu sem við greiðum eru miklu hærri en þetta.

Ég skal bjóða mönnum með mér í bankann og lofa þeim að hlusta á það þegar farið er fram á lán á þessum 9,5%. Það fæst ekki. Því miður. Ef menn skoða raunveruleikann, þá er hann öðruvísi.

En það sem er meginmálið að mínu viti þegar menn tala um þessa vexti og tala um það, eins og hagfræðingarnir gjarnan gera, að allt verði þetta að leita jafnvægis, og ég er sammála því, við lækkum ekki vexti öðruvísi, þá er einn meginþáttur sem menn gleyma og það er að menn eru að loka þessum markaði. Þetta er lítill markaður hér, lokaður á þessu skeri úti í miðju Atlantshafi.

Ef húsgagnaframleiðendur fengju snögglega mikla eftirspurn hér inni þá geta þeir ekki hækkað verðið vegna þess að það er svo mikil eftirspurn og þá getur ekki ríkisstjórnin komið og sagt: Menn verða að bara að búa við svona hátt verð á húsgögnum, ja, þar til að jafnvægi næst. Hvers vegna er þetta ekki hægt? Vegna þess að húsgögnin eru bara flutt inn og þeir verða að keppa við það verð sem kemur erlendis frá.

Alveg það sama skeður með framleiðendur á frönskum kartöflum í Þykkvabænum. Þeir geta ekki selt á því verði sem þeim dettur í hug hér á markaðnum. Menn rísa upp og segja: Við viljum bara fá þessar frönsku kartöflur innfluttar og borga minna.

Þess vegna segi ég: Ef menn vilja búa við frjálsan innflutning og frjálsa álagningu og frjálsa samkeppni og frjálsa vexti, þá verða menn að búa við það. (Gripið fram í.) Og þá verða menn bara að opna markaðinn. (Gripið fram í: Það viljum við.) Já. Og þá viljum við fá að taka lánin þar sem þau eru ódýrust. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.) Já. Þess vegna á ríkisstjórnin ekki að leggja sérstakar hömlur á erlenda lántöku og loka þannig markaðnum. Það verður bara eingöngu til þess að þeir sem eru að reyna að framleiða verða að borga miklu meira fyrir þennan framleiðsluþátt en hinir sem þeir eru að keppa við á erlendum mörkuðum.

Ég er búinn að velta þessu mikið fyrir mér og ég held að þetta séu hreinlega leifar af gamalli haftastefnu. Ég má fara hérna út og kaupa 10 þús. bíla inn í landið. Ég get fengið gjaldeyri til þess. Vegna hvers? Vegna þess að við erum með frjáls viðskipti og frjálsan innflutning og það er enginn sem stöðvar það og það má ekkert stugga við því. Ég er heldur ekkert á móti því. En ef ég vil fá lán til að framleiða lax, þá er það ekki hægt. Það verður að setja á það sérstök gjöld. Vegna hvers? Vegna þess að þessi maður ætlar að taka erlent lán. Það gengur ekki upp. Það gengur ekki upp. Ég held að þarna séu gríðarlega margar mótsagnir. Ég held að menn séu enn í fjötrum þessarar gömlu haftastefnu. Við eigum að opna þetta. Það getur vel verið að við eigum að setja þá kröfu að erlendir bankar komi hér og keppi við þá innlendu. Þið getið ekki bundið þá sem eiga að keppa með framleiðslu sína á erlendum markaði í þessa fjötra lokaðs fjármagnsmarkaðs hérna, lagt gjöld á erlendu lántökurnar og sagt þeim svo að keppa. Ég skal koma seinna að gengisstefnunni.

Ég held að þetta sé mjög alvarlegt mál og ég held að í þessu sé grundvallarskekkja. Í allri vaxtaumræðunni eru tvær skekkjur gerðar: Annars vegar eru raunvextirnir í grundvallaratriðum rangt metnir vegna þess að lánskjaravísitalan er vitlaus mælikvarði til að meta raunvextina út frá. Hins vegar þýðir ekkert að tala um jafnvægi, framboð og eftirspurn á þessum markaði nema hann sé opnaður. Nema hann sé hreinlega opnaður. Af hverju halda menn að fulltrúar erlendra banka, sem eru eigendur að þessum fjármagnsleigum hér að verulegu leyti, beinlínis segi það í samtölum: Þessi íslenski fjármagnsmarkaður, þetta er bara gósenmarkaður, við höfum hvergi nokkurs staðar aðra eins ávöxtun og þar. Það er bara um að gera að komast í að reyna að lána þar því að þar er vissulega ávöxtunin mikil. Halda menn að það sé vegna þess sem viðskrh. segir, að raunvextirnir hjá okkur séu ekkert hærri en í löndunum í kringum okkur? Í raunveruleikanum, þetta er allt spurning um afstæði og viðmiðun, í raunveruleikanum eru þeir miklu hærri. Við höfum að undanförnu opnað á ákveðnum stöðum, eins og í gegnum fjármagnsleigurnar, sem viðskrh. er réttilega að vinna núna að að setja löggjöf um. Þar höfum við opnað. Þar eru erlendir aðilar upp í 6–70% eigendur að þessum fjármagnsleigum. Fjármagnið rennur þar í gegn og þar njóta þeir þessarar ávöxtunar hjá okkur mörgum, sem erum að reyna að framleiða fyrir erlendan markað, ávöxtunar sem er algjörlega „unique“ líklega í allri veröldinni. Það er ekki bara um allan vestræna heiminn sem þarf að leita að öðrum eins fjármálaráðherra og við höfum, eins og hann réttilega skýrði hér áðan út frá stöðu ríkissjóðs, heldur held ég að lánsfjármarkaðurinn hérna sé bara algjört „úníkúm“. Og það má ekki skoða hann öðruvísi en út frá þeirri heild sem við lifum hér við í kringum okkur þegar við skoðum almennt frjálsa samkeppni, frjálsa verslun og annað slíkt. Þetta er lokaður markaður í dag. Hann er hættulega lokaður. Það verður að opna hann ef menn ætla að fá jafnvægi í það sem hér er að ske.

Mig langar líka til að víkja dálítið að gengisstefnunni. Menn kalla þetta fastgengisstefnu sem hér er. Auðvitað er þetta ekki fastgengisstefna. Þetta er gengishækkunarstefna. Gengi íslensku krónunnar hækkar í hverjum mánuði í réttu hlutfalli við kostnaðarhækkanir í landinu. Hvernig gengisstefnu á ein þjóð að reka? Ég hlustaði á forsrh. tala hér áðan og mér heyrðist aðrir ráðherrar taka undir það að hornsteinn þessarar ríkisstjórnar væri þessi fastgengisstefna. Fastgengisstefnan. Ég verð að játa það að mín skynsemi segir mér að gengisstefna einnar þjóðar eigi að miðast við það að rekstrarstaða og vinnuaðstaða útflutningsatvinnuveganna sé í sæmilegu jafnvægi, stöðug. Að staða útflutningsatvinnuveganna sé í sæmilega öruggu jafnvægi. Það er sú gengisstefna sem mér finnst að við hljótum að verða að reka.

Ég hef hlustað á menn halda hér úr þessum ræðustól margar ræður um gífurlega eignatilfærslu á þeim tímum sem vextirnir voru neikvæðir. Eignatilfærslur frá sparifjáreigendum yfir til skuldara. Þetta vitna menn í lon og don, og kannski aðallega don. Þetta er sjálfsagt alveg rétt. Þarna hefur orðið mikil eignatilfærsla og menn voru of seinir að átta sig. En ég vil segja ykkur það að mín skoðun er sú að í íslensku þjóðfélagi eigi sér stað í dag alveg gífurleg eignatilfærsla, alveg gífurleg eignatilfærsla vegna þessarar fastgengisstefnu. Á hverju byggir fastgengisstefnan? Hún byggir á því að útflutningsatvinnuvegirnir búa við verðstöðvun. Útflutningsatvinnuvegirnir búa við verðstöðvun í 30% verðbólgu. Hvernig halda menn að það endi? Prófið að setja verðstöðvun á veitingastaðina hérna. Hvað haldið þið að þeir héldu opnu lengi? Það gera menn ekki. Við erum búnir að setja verðstöðvun á útflutningsatvinnuvegina og með því erum við að brenna upp eigið fé útflutningsatvinnuveganna. Það er engin spurning um það í þessari verðbólgu.

Menn geta vel haldið hátíðlegar ræður um að það sé ekki ábyrgt að vera að tala mikið um gengið hér úr þessum ræðustól. En ég svara ykkur því: Það er ekki mikil ábyrgð í því að standa að þeim gífurlegu eignatilfærslum sem þessi gengisstefna hefur í för með sér. Og enn á ný segi ég: Það er gat í því efnahagskerfi, sem byggt er upp á frjálsum innflutningi, frjálsri verslun, frjálsri samkeppni, frjálsum vöxtum, í því efnahagskerfi sem á að leita að jafnvægi með frjálsum markaðsöflum en heldur genginu föstu. Hvað gera menn með því? Menn skekkja alla myndina. Og menn flytja til fjármagn á gífurlegan hátt.

Ég hef verið að velta því fyrir mér hvaða afleiðingar þetta hefur. Og ég efast um að menn geti borið mikla ábyrgð á því til lengdar ef þeir gera sér grein fyrir því hvað skeður. Það eru auðvitað fjölmörg fyrirtæki í útflutningsiðnaði sem þegar eru komin í gífurlega erfiðleika. Ég man nú ekki hvað það eru margar prjónastofur sem hafa hætt, kannski 17. Samkeppnisiðnaðurinn á líka í mjög miklum erfiðleikum. Menn eru að flytja fé frá útflutningsatvinnugreinunum yfir í verslun og þjónustu. Auðvitað er þetta alvarlegt mál vegna þess að þó við höfum góða kaupmenn þá lifum við ekki allir á innflutningi eða því að fara til Mallorka. Við lifum á þessum útflutningsgreinum og við mölvum þær niður með þessari stefnu.

Forsætisráðherrann okkar var einu sinni fjármálaráðherra. Hann tók þá ákvörðun, og ég vil segja skynsamlegu og erfiðu ákvörðun, að halda verðbólgunni niðri um tíma með því að taka á sig halla á ríkissjóði. Ég hef aldrei leyft mér að gagnrýna hann fyrir það, þann hluta af hallanum sem varið var til þess. Ég er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt og það hafi verið eina leiðin í þeirri stöðu til að ná tökum á verðbólgunni. Þá var verðbólgan greidd niður með fé ríkissjóðs. Menn tóku á sig hallann á ríkissjóði. En núna berjast menn við að greiða niður verðbólguna með eigin fé útflutningsatvinnuveganna. Það er þar sem hallinn er að myndast núna en ekki hjá ríkissjóði. Það er þaðan sem féð er tekið til að greiða þetta niður.

Svo koma menn náttúrlega og segja: Það verður að grípa inn í þetta til að stöðva þensluna. Þenslan er eitthvert galdraorð sem menn vísa alltaf í þegar talað er um efnahagsmál. Jú, jú, grunnurinn að þessu öllu saman er þenslan. Við verðum einhvern veginn að stöðva þessa þenslu sem tröllríður öllu. En af hverju halda menn að þenslan sé? Og hvar er þessi þensla í okkar þjóðfélagi? Hún er ekki úti á landi. Hún er ekki úti á landi þessi þensla. Hún er hérna á höfuðborgarsvæðinu. Af hverju haldið þið að hún sé hérna á höfuðborgarsvæðinu? Það er vegna þess að verslun og þjónusta landsins er hér. Og það er vegna þess að útflutningsatvinnuvegirnir eru mest úti á landi. Og með gengisstefnunni erum við að færa féð frá þeim atvinnuvegum yfir í verslun og þjónustu sem blómstrar hérna. Eðlilega verður það þensla sem af því hlýst. Ef menn ekki átta sig á kjarnanum sem að baki þessu liggur, þá grípa menn til rangra aðgerða.

Hallinn á viðskiptunum við útlönd. Ég tók eftir því að það var annaðhvort fjmrh. eða viðskrh. sem las það hér upp í ræðustólnum áðan að eitt af meginmarkmiðum þessarar ríkisstjórnar væri að stuðla að jöfnuði í viðskiptum við útlönd. Það tek ég heils hugar undir. Ég hef aldrei verið svona sannfærður um það, eins og mér finnst ráðherrarnir tala, að meginmarkmiðið í efnahagsmálunum sé að halda verðbólgunni niðri. Auðvitað verðum við að reyna það. Verðbólgan veldur mælikvarðabreytingum hér innan lands og við þurfum að vara okkur á þeim eignatilfærslum sem við stuðlum að með þeim leikreglum sem við sköpum hér.

En hallinn á viðskiptunum við útlönd er náttúrlega alveg hreint gagnsær. Við getum ekki lifað um efni fram endalaust. Við erum með halla á viðskiptum við útlönd upp á 6–8 milljarða á síðasta ári. Menn eru að spá því að hann verði 9–10 milljarðar á þessu ári. Þarna, segi ég, þarna ber ríkisstjórnin mikla ábyrgð. Ég hefði kosið að fjmrh. okkar tæki í höndina á mér núna eftir að hafa barist við að ná jöfnuði á ríkissjóði og einhenti sér með okkur í það að ná jöfnuði í viðskiptunum við útlönd. Hvað sem skeður inni í landinu — það er annað mál. En jöfnuður í viðskiptum við útlönd verður að koma. Þessi halli er allt of mikill í því ástandi sem við búum við núna. Það er alveg ljóst. Og ég mun gera þá kröfu bæði í mínum flokki og til þessarar ríkisstjórnar að hún grípi til aðgerða til þess að ná jafnvægi í viðskiptunum við útlönd. Ég tel að það sé alveg meginmál.

Nú skyldi enginn maður misskilja mig að því leyti að þó ég tali alveg hreint út um það sem mér finnst um þessi efnahagsmál, þá er ég ekki þeirrar skoðunar að þjóðin eigi kost á betri ríkisstjórn við þessar kringumstæður en hún hefur núna. En ég tel að ríkisstjórnin verði að taka sig saman og takast á við þessi mál. Og ég heiti á forsrh., því undir hann heyra efnahagsmálin, að taka þessi mál upp mjög alvarlega. Mér virðist vera mörg hættuteikn á lofti. Ég óttast það að við stöndum frammi fyrir því að lenda inni í sömu verðbólguskriðu og halla í viðskiptum við útlönd og við höfum verið í 10–15 ár hér á undan ef frá eru talin rétt síðustu ár. Ég óttast það. Því miður er allt of margt sem til þess bendir að við munum festast í 4–6% viðskiptahalla og verulegri verðbólgu ef menn ekki ná tökum á því sem hér er um að ræða.

Ég frábið mér því að ríkisstjórnin taki að sér að stjórna fjárfestingum í Reykjavík. Alveg. Ég er ekki stjórnlyndur maður og ég held að það gangi ekki upp. Ég held að ríkisstjórnin eigi að reyna að móta leikreglurnar. Það eru grunnstærðirnar sem skipta öllu máli. Og þó að menn haldi hér ræður eins og margir ráðherranna hafa haldið með áhyggjur sínar af sjávarútveginum og bent á það að nú eigi að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til sjávarútvegsins, þá er það nú svo að enn þá hefur þjóðin út af fyrir sig eða þjóðarbúið ekki tapað á því þó að sjávarútvegurinn eða fiskvinnslan fyrst og fremst sé að verða illa leikin. Fyrirtækin skipta um eigendur vegna þess að þeir sem eiga þau tapa og svo fer þetta til annarra, en fiskurinn er unninn og hann er fluttur út og tekjurnar koma inn. Útgerðin stendur í allt annarri stöðu vegna kvótakerfisins og frjálsa fiskmarkaðarins og mun gera það. Ég ætla ekki að fara frekar út í það hérna. Það sem er enn þá alvarlegra í þessu, og ég óttast að gleymist þó að menn drífi sig nú í það að endurgreiða söluskatt til fiskvinnslunnar, það er margt annað sem verður bara ekki bætt á stuttum tíma.

Hvað með ferðamannaiðnaðinn? Hafa menn reynt að kynna sér það hvernig hann muni standa í sumar með fastgengisstefnunni? Ég get sagt ykkur það að ég er alveg viss um að það tekur langan tíma að laga það ef hann dettur niður í sumar vegna fastgengisstefnunnar. Ullariðnaðinn og annars staðar þar sem um er að ræða markaði erlendis tekur langan tíma að laga. Hitt eru eignatilfærslur innan lands sem út af fyrir sig eru grafalvarlegt mál.

Ég held þess vegna að ríkisstjórnin, eins og ég sagði í upphafi, standi frammi fyrir glettilega erfiðri efnahagsstöðu. Glettilega miklum erfiðleikum. Ég held hún hafi burði til að takast á við þessa erfiðleika. Ég held að það sé skinhelgi að viðurkenna ekki að erfiðleikarnir eru til staðar. Og ég held að það sé skilyrði til að geta tekist á við þá að skynja hvar þeir liggja og hvar rótin er. Ég er alveg viss um það að ef menn takast á við þetta af fullum áhuga og vilja þá er hægt að gera það. Ég gat ekki látið hjá líða að standa hér upp og lýsa mínum áhyggjum yfir stöðunni.