04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4332 í B-deild Alþingistíðinda. (2993)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það mætti margt um þá umræðu segja sem hefur farið fram í dag. Einu verður þó varla neitað þegar kemur að lokum hennar að það var þörf fyrir hana. Það sýnir þátttakan og sá tími sem það hefur tekið að ræða þessi mál sem hefði ugglaust getað orðið lengri.

Ég skal aðstæðna vegna reyna að fara eins fljótt yfir sögu og mér er kostur. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja örfáum orðum að ummælum sem hér hafa fallið undir umræðunni, einkum frá hæstv. ráðherrum.

Hæstv. forsrh. lá mikið á að koma því að að meðaltölin væru í ágætu lagi. Þar með ættu menn ekkert að vera að röfla allt of mikið um það að kaupmátturinn rýrnaði og ýmislegt væri að fara úr böndunum vegna þess að meðaltalsráðstöfunartekjur, eða hvað það nú heitir allt saman, væru alveg þokkalegar og reyndar mjög háar og þess vegna hlytu menn að hafa það nokkuð gott. Þetta könnumst við allt saman við. Þess er vert að minnast að á bak við þessi meðaltöl liggur margt, m.a. gífurlegur þrældómur. Öll yfirvinna, launaskrið, yfirborganir, fjármagnstekjur og aðrir slíkir hlutir koma þarna til auk hins venjulega kaups. Sú staðreynd er jafnframt ljós, þrátt fyrir öll meðaltölin, að menn eru í góðærinu, í þessu mesta góðæri sögunnar, jafnfjarri því að geta framfleytt sér af tímakaupi eins og þeir hafa lengi verið, ef ekki heldur fjær. Það er annar mælikvarði til að líta á þessa hluti og segir sína sögu.

Eitt hefur komið mér mjög á óvart, herra forseti, og þó kannski ekki á óvart en það hefur vakið athygli mína nú sem endranær. Það er hvernig hæstv. ráðherrar og stjórnarliðar kjósa að stilla málunum upp þegar þeir fjalla um verðbólguna. Þeir tala um það, þessir hv. og hæstv. menn, að það megi alls ekki hækka launin. Þá fari verðbólguskriða af stað. En hver er staðan? Hver er verðbólgan í dag? Við skulum fara aðeins yfir það. Hún er þannig að á milli mánaðanna desember og janúar var hún 54%. Og meðaltalsverðhækkanir sl. þriggja mánaða eru yfir 30%. Er hægt að tala um að það fari eitthvað af stað í þessum efnum þegar verðbólguhraðinn er slíkur? Auðvitað ekki. Þetta er hins vegar gamalkunnug aðferð, gamalkunnug hótun, svipa til að reiða upp þegar gengið er til kjarasamninga. Ef þið vogið ykkur að semja um einhverjar launahækkanir verður ykkur kennt um það að verðbólgan hafi farið af stað, veskú. Og þetta er reynt núna, eina ferðina enn, þó að sú staðreynd blasi við að tvennir síðustu kjarasamningar voru mjög hógværir samningar, verðbólgulækkandi samningar. Þannig að sú verðbólguskriða sem núna stendur yfir í landinu verður ekki með nokkru móti skrifuð á ábyrgð þeirra sem gerðu tvenna síðustu kjarasamninga. Oft hefur mátt reyna þetta en aldrei er það ósanngjarnara en nú. Hverjir gengu fram fyrir skjöldu og prísuðu síðustu kjarasamninga sem fyrirmyndarsamninga aðrir en þeir sömu menn sem nú eru að reyna að klína því enn þá eina ferðina yfir á samningsaðila að ef þeir leyfi sér að hækka kaupið skuli þeir bera ábyrgðina á verðbólgunni? Það eru mennirnir sem sjálfir misstu stjórn á henni. Það eru þeir hinir sömu ráðamenn úr síðustu og núv. ríkisstjórn sem eru búnir að missa tökin á hlutunum og hleypa verðbólgunni upp í 30-50%. Þeir tala úr glerhúsi og ættu að gæta þess.

Ég verð, herra forseti, vegna þeirra tilrauna hæstv. forsrh., sem eru ekki nýjar af nálinni, til að rangfæra það tilboð sem stjórnarandstaðan gerði stjórnarliðum 20. des. sl. í sambandi við framgang mála hér á Alþingi, að fara ofurlítið yfir þá hluti. Hæstv. ráðherra kýs að stilla málum svo upp að stjórnarandstaðan hafi gert halla á fjárlögum að sérstakri kröfu, rétt eins og það væri bara æðsta keppikefli okkar og æðsta takmark að hafa sem mestan halla á fjárlögum. Mér satt best að segja blöskrar svona framsetning. Hver á sér þann draum, með leyfi að spyrja, hver á sér það takmark í efnahagsmálum að það sé halli á ríkissjóði? Auðvitað ekki nokkur maður. Það er einnig alrangt og útúrsnúningur af versta tagi að við höfum hafnað allri frekari tekjuöflun ríkisins.

Við settum fram tvær óskir fyrst og fremst. Númer eitt að fallið yrði frá matarskattinum. Við gerðum okkur grein fyrir því að það að falla frá þeirri skattheimtu þó að ýmiss konar önnur tekjuöflun kæmi í staðinn gæti þýtt það að erfitt yrði að ná hallalausum rekstri á ríkissjóði þegar í stað. Og þess vegna settum við sem einn af þessum þremur liðum að við gætum sætt okkur við það að í staðinn fyrir að ná hallalausum ríkissjóði strax yrði það gert á þremur árum. Hæstv. forsrh. getur ef hann vill haldið áfram að snúa út úr þessu. Ég held hins vegar að það sé svo barnalegt að ætla að reyna að telja fólki trú um það að einhver heilvita stjórnmálamaður í landinu eigi það sem sérstakt takmark, sérstaka ósk, að reka ríkissjóð með halla að ég held að þetta gangi ekki upp hjá hæstv. ráðherra.

Þriðja óskin var ofur eðlileg. Hún var um það að ef gengið yrði til slíks samstarfs, samkomulags um hlutina, vildum við fá tryggingu fyrir því að ekki yrði svo þvert ofan í það að Alþingi færi heim gripið til einhverra stórfelldra efnahagsráðstafana með bráðabirgðalögum. Það var ofur eðlileg ósk við þessar aðstæður og ekkert um það að segja.

Ég beini því þeim tilmælum til hæstv. forsrh. að hann hætti þessum útúrsnúningum því að þeir fara honum ekki vel. Þeir fara engum manni vel og allra síst forsrh. sem vill vera málefnalegur, hygg ég. Það er auðvitað hægt að túlka hlutina svona. Það er hægt að snúa út úr þessu á alla enda og kanta, það veit maður. En mér finnst það ekki mjög stórmannlegt að fara þannig með tilboð sem við gerðum af einlægni vegna þess að ríkisstjórnin bað um viðræður við stjórnarandstöðuna. Mér finnst það ekki stórmannlega gert í sjálfu sér að nota sér það að stjórnarandstaðan var tilbúin til þess að ræða við ríkisstjórnina með þeim hætti að henda á lofti þær hugmyndir sem við vörpuðum þarna fram, snúa út úr þeim og reyna að nýta sér þá aðstöðu sem hæstv. forsrh. er oft og tíðum í, í fjölmiðlum og annars staðar, að rangfæra þær með þeim hætti sem ég hef hér lýst. Haldi þetta áfram eins og það gerði t.d. í áramótagrein hæstv. ráðherra og oft áður áskil ég mér auðvitað allan rétt til þess að svara því þá mjög rækilega og þá kann ýmislegt fleira að koma í ljós sem þarna var rætt.

Ég fullvissa svo hæstv. forsrh. um það að ég mælti fyrir þessum hugmyndum með góðri samvisku og gæti gert það enn vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að það hefði ekki verið neinn stórglæpur í tengslum við aðrar ráðstafanir þó að ríkissjóður hefði ekki náðst með öllu hallalaus á þessu ári. Ég er sammála um að það var æskilegt markmið en menn verða stundum að láta byrinn ráða. Og að mínu mati var miklu mikilvægara að koma í veg fyrir þá skattpíningu á almenningi og láglaunafólkinu í landinu sem felst í matarskattinum. Það var margfalt mikilvægara markmið og keppikefli en það, þó að það sé gott út af fyrir sig að reka ríkissjóð hallalausan. Hæstv. forsrh. má þar af leiðandi hætta að vorkenna mér fyrir það að hafa tekið þátt í því að bera fram þetta tilboð við hæstv. ríkisstjórn.

Það var svo eitt mjög athyglisvert hér í umræðunni, herra forseti, að stjórnarliðar lýstu mjög eftir stefnu stjórnarandstöðunnar. Og hæstv. forsrh. eyddi drjúgum hluta ræðu sinnar í að ýmist snúa út úr því sem stjórnarandstaðan hafði fært fram, eins og þarna 20. des., eða þá að fjalla um það í löngu máli að stjórnarandstaðan hefði ekki lagt fram þetta og lagt fram hitt. Það gerði einnig hv. 2. þm. Norðurl. e. og fleiri og fleiri stjórnarliðar. Hvers vegna? Ég held að svarið sé einfalt, herra forseti. Það er vegna þess að stjórnarliðar sjálfir hafa ekki frá neinu að segja. Þeir geta ekki notað ræðutíma sinn til þess að segja frá eigin stefnu. Hæstv. forsrh. hafði svo fátæklegt nesti hingað í ræðustólinn að honum dugði það ekki nema í fáeinar mínútur. Þá sneri hann sér að stjórnarandstöðunni og eyddi því sem eftir var af ræðutímanum í hana. Skiljanlega, vegna þess að það var svo lítið að frétta úr þeim herbúðum sem hann á þó að heita talsmaður fyrir. Það er ábyggilega skýringin á því að stjórnarliðar hver um annan þveran eyddu mestöllum tíma sínum í það að segja að stjórnarandstaðan hefði ekki verið með stefnu í þessu eða stefnu í hinu — sem er rangt því að stjórnarandstaðan á þessu þingi hefur að mínu mati gert ítarlegar og málefnalegar grein fyrir því í mörgum greinum hvernig hún hefði viljað taka á ríkisfjármálum og fleiru heldur en þær stjórnarandstöður sem ég hef fylgst með á undanförnum árum.

Ég nefni tillögur í skattamálum, ítarlegar brtt. við þau skattafrv. sem hér voru flutt, aðrar áherslur í ríkisfjármálum, brtt. við fjárlög og svo auðvitað þær almennu, pólitísku áherslur sem iðulega hafa komið fram hér í umræðum á Alþingi. Ef stjórnarliðið er hins vegar svo gjörsamlega heillum horfið að það sér ekkert nema þá von að fá einhverja hjálp hjá stjórnarandstöðunni, þá er auðvitað sjálfsagt að reyna að verða við því. Ég skal taka að mér að taka saman yfirlit um helstu hugmyndir stjórnarandstöðunnar, a.m.k. fyrir Alþb., og að koma þeim á framfæri við ríkisstjórnina henni til aðstoðar. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Og ég er alveg viss um að það verður mér til góðs ef stjórnarliðið er nú tilbúið til þess að skoða þær vandlega eins og ætla má eftir ræðuhöld þeirra hér í dag.

Það er svo rangtúlkun og öfugmæli af versta tagi sem kom hér fram bæði hjá hæstv. fjmrh. og fleirum að stjórnarandstaðan hafi ekki haft neinar hugmyndir um það hvernig mætti afla tekna aðrar en þær þá að leggja á matarskatt. Við gerðum rækilega grein fyrir því hvernig við vildum leggja á skatta til að standa undir tiltekinni samneyslu en gera það með öðrum hætti en hæstv. fjmrh. og hæstv. ríkisstjórn gerði.

Það þyrfti alveg nýjan fund, herra forseti, líklega jafnlangan þeim sem hér hefur staðið frá því um hádegisbilið ef ég ætti að reyna að svara eins og hálfs tíma messu hæstv. fjmrh. hér fyrr í dag, enda er hann nú á brottu genginn þannig að það hefur kannski lítið upp á sig. Hann fór víða vegu að sækja sér rök, yfir í Svíaríki og margt víðar. Margt dróst inn í hans mál, sem hann flutti nokkuð garpslega og ber að fagna því að hann er vaknaður til lífsins sá hæstv. ráðherra og farinn að reyna að verja sig og gjörðir sínar. En ég held að það sé þó hægt að draga þetta allt saman í eina setningu í raun og veru. Öll þjóðin er greinilega með á nótunum og hún er alveg sannfærð um það, íslenska þjóðin, að það geti ekki verið sérstök blessun fyrir almenning í landinu að gera matvælin dýrari. Það gangi engan veginn upp að þessar brýnustu nauðsynjar, daglegu þarfir hvers og eins, að það geti verið almenningi til hagsbóta að hækka verðið á þessum vörum. Svo einfalt er málið. Allt hagfræðinga- og spekingagengið er í raun og veru óþarft þegar kemur að svona einföldum sannindum, hvort sem það er í Póllandi eða á Íslandi, í Costa Rica eða hvar annars staðar, Tahiti, Port au Prince, þar sem almenningur rís upp til að mótmæla því þegar þessar daglegu brýnustu nauðsynjar eru hækkaðar úr samræmi við kaupgetu í landinu. Það er einfaldlega sá dómari sem menn eiga víða, hvað sem öllu röflinu í hagfræðingunum og öllum krataskýrslum frá Svíþjóð líður, því að almenningur ræður í þeim löndum þar sem lýðræði ríkir og því eiga menn að hlýða. Skoðanakönnun Dagblaðsins, þó að hún sé e.t.v. ekki dómur guðs almáttugs í þessum efnum, þá sýnir hún mönnum að það er sáralítið brot af íslensku þjóðinni sem styður aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þessu efni. Og á þá ekki hæstv. ríkisstjórn að taka eitthvert mark á því? Eiga menn að vera nákvæmlega jafnheilagir eftir sem áður í málflutningi sínum fyrir þessum skatti þegar það liggur fyrir að yfir 85% þjóðarinnar eru á móti honum? Ég spyr. Er það lýðræðislegur hugsunarháttur hjá ríkisstjórn sem á að heita meirihlutastjórn í landinu?

Það er auðvitað ekki svo að slagurinn hafi staðið um samneyslu eða ekki samneyslu, um velferðarríki eða ekki velferðarríki á Íslandi eins og hæstv. fjmrh. og sumir fleiri reyna að snúa þessu dæmi. Spurningin stendur hins vegar um það: Hvernig er teknanna aflað til að borga hina sameiginlegu neyslu? Hverjir eiga að bera þar þyngstar byrðar? Það gengur ekki upp að reyna að telja almenningi trú um að það sé sérstök blessun og hagsbót fyrir hann að skatturinn komi fyrst og fremst frá honum sjálfum vegna þess að almenningur horfir upp á það hvert fjármunina ætti í raun og veru að sækja. Ef þetta er svona, eins og hæstv. fjmrh. vill hér vera láta, þá hlýtur það að vera enn þá betra að leggja á 50% matarskatt og enn þá betra að leggja á 75% matarskatt o.s.frv. því að blessunin hlýtur að vaxa í réttu hlutfalli við það sem matarskatturinn hækkar ef þetta er rétt, ef þetta á að ganga upp. Kannski það verði næsta stórkostlega uppfinning Alþfl. í skattamálum og það verði farið á hundrað fundi út um allt land til þess að segja við fólkið: Matarskatturinn er bara ekki nógu hár. Nú er næsta þarfaverk að hækka hann úr 25% í 50%. Maður gæti svo sannarlega átt von á því.

Herra forseti. Ég hefði haft af því óskaplega ánægju að ræða pínulítið vaxtamál, m.a. við hæstv. viðskrh. sem ræðir þau mál af viti og það er ævinlega gaman að rökræða við slíka menn þó maður þurfi ekki að vera þeim sammála. Ég ætla bara að segja eina setningu um það og það er þetta: Í öllum kennslubókum heimsins um hagfræði og vaxtamál má lesa setningar af því tagi að þrátt fyrir öll lögmálin og allar kenningarnar hafi hvergi tekist að sýna fram á beint samband milli vaxta og sparnaðar. Dr. Magni Guðmundsson fjallar einmitt um þetta í ágætri grein í Morgunblaðinu í morgun. Svo sitja menn bara uppi á Íslandi og bíða eða gera „experimentum“, eina tilraun og þeir ætla að bíða þótt það kosti það að allt atvinnulíf og öll heimili í landinu verði gjaldþrota því þá langar svo til þess að reyna að sanna þetta sem engum öðrum hagfræðingum heimsins hefur tekist. Og hvers vegna hefur mönnum ekki tekist þetta? Hvers vegna hefur aldrei tekist að sýna fram á það í reynd að hægt væri að stilla af þetta lögmál framboðs og eftirspurnar með vöxtunum þannig að sýna mætti fram á bein áhrif á sparnaðinn, einhvers konar línulegt samband þar á milli eða logariþmískt eða hvernig sem það nú yrði? Það er vegna þess að það eru svo ótal margir aðrir hlutir en vextirnir sem hafa áhrif á það hvernig almenningur ráðstafar sínum peningum. Það eru líka svo margir aðrir hlutir sem hafa áhrif á það hvað almenningur hefur mikla peninga til að leggja inn. Það er auðvitað aðalatriðið. Og þeir peningar eru núna að minnka. Þess vegna er alveg sama hvernig ríkisstjórnin hækkar vextina. Almenningur mun hafa minni og minni peninga á næstu mánuðum til að leggja inn í bankana. Og minni peninga einnig eftir því sem vextirnir hækka vegna þess að þá minnkar launagreiðslugeta fyrirtækjanna og þannig getur þetta elt skottið á sjálfu sér. Um þetta geta menn lesið ótal dæmi úr bókum. Svo sitja menn hér, þessir menn sem hafa tekið þetta í einhverri barnatrú, og ríghalda í það að þessi lögmál muni að lokum stilla sig inn á eitthvert jafnvægi. Ja, þvílík endemi!

Það er m.a.s. auðvelt að sýna fram á það með öðrum dæmum að hærri vextir geta leitt til þess að fjármagnið stoppi styttri tíma í bönkunum. Við skulum taka dæmi af manni sem ætlar að kaupa sér bíl sem kostar eina milljón. Hann byrjar að safna fyrir honum núna 5. febr. og hann ætlar að kaupa bílinn þegar hann er kominn með þessa milljón. Hann leggur þetta allt saman inn á bók mánuð eftir mánuð eftir mánuð og vextirnir bætast við. Og hvað gerist ef vextirnir hækka? Þá er hann fljótari að ná upp í milljónina. Þá á hann fyrr fyrir bílnum þannig að hann tekur alla peningana fyrr út úr bankanum en ella hefði verið. Þannig getur þétta nefnilega verkað á ótal vegu. Það er hægt að finna dæmi um alla skapaða hluti í þessum efnum.

En það að hanga eins og hundur á roði á því að þetta skuli ganga upp hér á Íslandi hvað sem tautar og raular, hversu háir sem vextirnir verða, hvernig sem atvinnulífinu reiðir af, það er einhvers konar ofstæki sem ég hélt satt best að segja að hefði liðið undir lok á miðöldunum. Þetta minnir mann á svona ofstækishugsunarhátt sem maður les úr sögubókum frá miðöldum.

Herra forseti. Ég held að niðurstaða þessarar umræðu sé í raun og veru sáraeinföld. Hún er sú að ríkisstjórnin hefur engu svarað. Hæstv. fjmrh. reyndi í einn og hálfan klukkutíma að verja matarskattinn. Hæstv. sjútvrh. sagði hluti sem allir vita: að það séu mjög erfiðar rekstraraðstæður í sjávarútvegi. Og hæstv. fjmrh. eyddi stórum hluta ræðu sinnar í það að snúa út úr fyrir stjórnarandstöðunni. Þetta skilaði okkur ekki miklu um það hvað ríkisstjórnin hyggst fyrir á næstunni og hver sé efnahagsstefnan til framtíðar út frá ríkjandi aðstæðum. Það er það sem spurt er um. Það var ekki mikil leiðbeining fyrir aðila vinnumarkaðarins hefðu þeir lagt það á sig, liggur mér við að segja, að sitja hér og hlusta á alla þessa umræðu, hefðu þeir síðan ætlað að setjast niður á samningafund á morgun. Hefðu þeir verið miklu nær um það hvað ríkisstjórnin ætlast fyrir, hvers sé að vænta í efnahagsmálunum, segjum á næsta ári því að nú tala menn um samninga til lengri tíma litið? Svarið er einfalt. Svarið er nei. Það kom ekki nokkur skapaður hlutur fram um það hvort ríkisstjórnin hyggst eitthvað fyrir og þá hvað það væri. Svarið var í raun og veru þetta: Við vitum ekkert, við þorum ekkert að gera, við þorum ekkert að segja, okkar helsta von er að það verði samið, þá ætlum við að sjá til hvort okkur dettur ekki eitthvað gott í hug, þá ætlum við að fara að gera tilraunir til að stjórna. — Þetta var a.m.k. mín samantekt á því sem kom fram hér í máli hæstv. ráðherra.

Kokhreysti hæstv. forsrh. hér í upphafi umræðunnar, um það að í raun og veru væri þetta allt í lagi og efnahagsstefnan væri ljós og skýr, er nú sérkennileg þegar maður rifjar það upp að hæstv. fjmrh. sagði fyrir jól að það væri alveg ljóst - hann sagði það hérna uppi í Ed. — að það væri alveg ljóst að þegar eftir áramót yrði að grípa til víðtækra efnahagsráðstafana. Svo kom Alþýðublaðið út fyrir nokkrum dögum. Hvernig var forsíðan? Geysilegur uppsláttur um þessar rosalegu efnahagsráðstafanir sem fjmrh. væri með í undirbúningi — og hæstv. forsrh. sagði að þeir væru gamansamir á Alþýðublaðinu. Og hvað sagði hæstv. utanrrh. vestur á Sögu fyrir nokkrum dögum? „Róm brennur.“

Og er það svo trúverðugt að hæstv. ráðherrar, hæstv. forsrh., yfirmaður efnahagsmálanna, komi hér upp og segi: Þetta er allt í fína lagi, efnahagsstefnan er alveg skýr og klár og það þarf ekkert að gera, við bara höldum okkar striki hérna með fast gengi og háa vexti, bíðum eftir að þetta lagist? — Nei. Það er nú ekki trúverðugt. Þegar ráðherrarnir eru þvers og kruss, út og suður að lýsa því yfir að auðvitað þurfi að grípa til víðtækra efnahagsráðstafana, hvers vegna er þá staðan sú að það skuli ekki vera hægt að segja svo mikið sem eitt einasta orð um það hvað eigi að gera? Getur hugsast að það sé vegna þess að í ríkisstjórninni sé ein höndin upp á móti annarri? Hver höndin upp á móti annarri? Skoðanirnar jafnmargar og hæstv. ráðherrar, líklega 11 talsins? Mér dettur það helst í hug ef þær eru þá einhverjar.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Ég tel eins og ég hef sagt að hún sýni það sjálf að hennar var þörf. Mönnum lá ýmislegt á hjarta, ekki síst hv. stjórnarliðum sem ég hygg að hafi, svo merkilegt sem það kann nú að virðast, notað meiri hluta ræðutímans hér í dag vegna þess að þeim lá svo mikið á annaðhvort að þvo hendur sínar eða þá að tjá sig um ástandið.