04.02.1988
Sameinað þing: 44. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4344 í B-deild Alþingistíðinda. (3000)

Staðan í efnahags- og kjaramálum

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að níðast á tíma hv. þm. né annarra með því að taka til máls við þessa umræðu, en lokaorð hæstv. forsrh. voru með þeim hætti að ég fann mig knúinn til þess og gat í rauninni ekki setið undir þeim ummælum sem hann lét falla um fjarstaddan hv. þm. og ræðu hans og þá afgreiðslu sem hann í rauninni viðhafði og ég vil kalla útúrsnúning eða a.m.k. að hann lét liggja í láginni aðalatriði í því efni sem hann fjallaði um í ræðu hv. 7. þm. Reykn. Hann tók út úr það atriði að það að leggja á söluskatt í tolli, eins og réttilega kom fram í máli hv. 7. þm. Reykn., þýddi skattheimtu af innfluttum matvælum. En það sem hæstv. forsrh. Íslands lét sér sæma að þegja um í þessu atriði var að jafnframt þýddi sú skattheimtuaðferð algert gjaldleysi á allri innlendri þjónustu. Þetta atriði lét forsrh. sér sæma að þegja um. Það kann að vera að þessi baráttuaðferð hæstv. forsrh. sé ástæða fyrir því hvernig komið er í því meginhlutverki ríkisstjórnar Íslands, sem hún á að rækja, sem er að veita forustu. Hún á að veita forustu til þess að það sé hægt að ná samstöðu í þjóðfélaginu á sem flestum sviðum.

Ég kom fyrir fáum dögum í kjördæmi okkar hæstv. forsrh. austanvert, fyrir austan Þjórsá. Þar eru nú aðstæður sem bera mjög svipað yfirbragð og var raunar í því sama kjördæmi fyrir mörgum árum, laust fyrir 1970, þegar bryddaði á atvinnuleysi. Það hefur verið lítið gert úr því hér í umræðunum í dag í máli hv. stjórnarliða að atvinnuleysi eða hætta á atvinnuleysi sé með þjóðinni um þessar mundir. En sú var tíð árið 1967 að gjaldeyristekjur Íslendinga hröpuðu um 45%. Þá bar íslensk þjóð gæfu til að njóta forustu aðila sem höfðu til að bera hæfileika til að sameina þjóðina til þess stórátaks að komast út úr þeim örðugleikum á 2–3 árum. Þeir örðugleikar sem nú eru uppi hér í landi eru hjóm miðað við það sem þá var. En þá var ekki staðið svo að málum úr ræðustóli, þori ég að fullyrða, hér á hv. Alþingi að mestur hluti ræðutíma eða verulegur hluti í svarræðutíma hæstv. forsrh. fór til að snúa út úr. Hann fór á þeim tíma til að sameina aðila í þjóðfélaginu til stórátaks.

Það hefur nokkuð einkennt þessa umræðu í dag að fáeinir stjórnarliðar hafa tekið undir meginrök stjórnarandstöðunnar. Og það vill svo til að einn hv. alþm., raunar einnig úr kjördæmi okkar hæstv. forsrh., raunar flokksbróðir hæstv. forsrh., næsti maður á lista Sjálfstfl. í Suðurlandskjördæmi, hefur lagt fram á Alþingi, ekki lengra síðan en í gær, frv. til laga um kjarna þess vandamáls sem nú er við að etja í íslensku þjóðfélagi. Kjarni vandamálsins í þjóðfélaginu í dag eru áhrif lagasetningar frá því 1979 um lánskjaravísitöluna. Það er kjarni vandamálsins á árunum á undan, lengi í íslenskri sögu, hin eilífa víxlhækkun kaupgjalds og verðlags. Í dag er það önnur víxlhækkun. Það er víxlhækkun vaxta og verðlags. Eins og kom hér fram í ágætri ræðu hv. 4. þm. Norðurl. e. fyrir fáum mínútum eru það sömu lögmál sem verið er að fjalla um og það verður ekki fundin lausn á þessum vandamálum með öðru en það náist nokkurt heildarsamkomulag í þjóðfélaginu. Það var rétt í máli hæstv. forsrh. hér áðan. Samkomulag verður að nást. En leiðin til þess er ekki sú að vega að mönnum úr launsátri eins og því miður oft virðist vera háttur hæstv. forsrh.

Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og ég vona að þessi ræða verði ekki talin málþóf.