27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (301)

Stefnuræða forsætisráðherra

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þegar stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar lítur dagsins ljós vakna margar spurningar um það hvað í henni felist og hvaða leiðir verði valdar að þeim markmiðum sem hún setur sér.

Í öllum umræðum um það sem helst er við að glíma núna fara gjarnan saman orðin þensla og góðæri. Hin takmarkaða þýðing þeirra vill hins vegar gleymast. Þannig er þenslan staðbundið vandamál sem takmarkast við höfuðborgina og næsta nágrenni hennar. Helst mætti ætla að þeir sem sífellt tala um þensluna í þjóðfélaginu hafi ekki komið út fyrir malbik í þó nokkurn tíma.

Góðærið margumtalaða takmarkast við þá fáu sem þess hafa notið, ekki þorra landsmanna. Pyngjur láglaunafólks eru enn léttar meðan kjör hinna betur megandi hafa stöðugt batnað. Á þessari stundu er ekkert sem bendir til þess að á þessu verði breyting á næstunni. Hugmyndaflug ríkisstjórnarinnar beinist að léttari pyngjunum með því að leggja skatt á brýnustu nauðsynjar. Eins og öllum er ljóst er stærsti hópur hinna lágt launuðu konur, konur sem vinnumarkaðurinn hefur kallað til sín vegna breyttra þjóðfélagshátta. Þannig eru konur uppistaðan í starfsstéttum sem m.a. tengjast umönnun, barnauppeldi, fræðslu og fiskvinnslu. Allir eru sammála um þá ábyrgð sem slíkum störfum fylgir, en annað er uppi á teningnum þegar meta skal þau til launa.

Þrátt fyrir síaukna þátttöku kvenna í atvinnulífinu gegna þær enn þá hinum lífsnauðsynlegu störfum inni á heimilunum. Í flestum tilfellum fellur það í þeirra hlut að sjá um viðurværi einstaklinganna, að fæða þá og klæða og skipta réttlátlega því sem til ráðstöfunar er. Þessi störf ásamt listum og menningu eru gjarnan lofuð á hátíðarstundum en stórlega vanmetin í dagsins önn.

Með sköpunargleði og hugviti sínu hafa konur skapað listaverk en jafnframt búið til skjólgóðar flíkur. Þær hafa búið til mynstur sem hentar hverju einu, valið liti og raðað saman og gert sér grein fyrir hlutverki hinna fínustu þráða og litbrigða í þeirri heildarmynd sem þær vilja skapa. Þannig fær jafnvel hið smæsta notið sín. Þetta ásamt öðru hefur gefið konum þá yfirsýn sem nauðsynleg er þegar taka þarf tillit til margra mismunandi þátta sem eiga að mynda eina samstæða heild.

Hvað varðar hagsæld okkar og réttláta skiptingu þess sem þjóð okkar ber úr býtum stöndum við nú á krossgötum, ekki aðeins gagnvart skiptingunni milli einstaklinganna heldur einnig milli dreifbýlis og þéttbýlis. Við verðum að búa til gott og heilsteypt mynstur sem rúmar okkur öll og metur okkur að verðleikum.

Ríkisstjórnin lítur á það sem eitt af meginverkefnum sínum, eins og segir í stefnuskrá hennar, með leyfi hæstv. forseta, „að stuðla að betra jafnvægi í þróun byggðar með uppbyggingu atvinnulífs og þjónustu á landsbyggðinni“. Og hvernig ætlar hún að ná fram þessu mikilvæga markmiði? Stjórnvöld hafa á undanförnum árum misst niður allt of margar lykkjur í sínum prjónaskap. Það gengur ekki lengur að prjóna bara suðvesturermina. Ef svo fer sem horfir stefnir í skjóllitla flík sem yljar aðeins hluta landsmanna og það er skammgóður vermir.

Við kvennalistakonur höfum frá upphafi starfs okkar aðhyllst valddreifingu og ástundað hana með góðum árangri innan eigin raða. Við teljum því jákvætt skref stigið með því að dreifa valdi út til sveitarfélaganna og auka þannig sjálfstæði þeirra og ábyrgð. En það verður að vera tryggt fyrir fram hverjir verða í raun tekjustofnar sveitarfélaganna þannig að þau verði örugglega fullfær um að taka á sig þau verkefni sem til er ætlast. Enn liggur ekki nákvæmlega fyrir hvernig þetta verður framkvæmt né heldur hvernig geta minnstu sveitarfélaganna verður tryggð. Í fjárlagafrv. kemur heldur hvergi fram hvenær ríkið ætlar að gera upp skuldir sínar við sveitarfélögin, skuldir sem ná mörg ár aftur í tímann og eru að sliga mörg hinna minni sveitarfélaga.

Ein meginundirstaða blómstrandi byggðar í landinu er að boðið sé upp á sambærilega þjónustu t.d. á sviði menntunar og heilsuverndar um land allt. En það verður að ganga frá öllum lausum endum áður en nokkur afgerandi skref eru stigin. Á þessari stundu, þegar enn einu sinni eru skert lögbundin framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, fer ekki hjá því að menn efist um raunverulegan vilja stjórnvalda í þessum efnum.

Bændur landsins hafa um árabil búið við mikla óvissu vegna þess samdráttar í framleiðslu sem nauðsynlegur er. Landbúnaðurinn er sú atvinnugrein sem hvað mesta þörf hefur fyrir nýsköpun. Ríkisstjórnin setur sér eftirfarandi markmið: „að treysta starfsskilyrði í landbúnaði og bæta hag bænda“, jafnframt að „menntun, starfsfræðsla og rannsóknir verði efldar“. Engum blandast hugur um nauðsyn menntunar og rannsókna í atvinnugrein sem stendur á þvílíkum tímamótum, en hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná fram þessum markmiðum með stórfelldum niðurskurði til ráðunauta og rannsókna er með öllu óskiljanlegt.

Allir sem til þekkja vita hver lífæð hafnir landsins eru. Margar þeirra eru nú í alls óviðunandi ástandi. Stórskert framlag til hafnaframkvæmda styrkir því heldur ekki trúna á hina svokölluðu byggðastefnu ríkisstjórnarinnar.

Hæstv. forsrh. minntist í ræðu sinni á einhug og samtakamátt. Gerir hann sér í raun vonir um að einhugur geti ríkt í þeirri spillingu og neðanjarðarstarfsemi sem viðgengst í launakerfinu eða jafnvel að fólk finni til samtakamáttar við núverandi aðstæður? Það er forkastanlegt að hið opinbera skuli taka fullan þátt í þeim skollaleik yfirborgana undir borðið sem tíðkast þar sem laun fólks fara eftir ýtni þess sjálfs eða slyngni yfirmanna tiltekinna stofnana. Við byggjum ekki upp heilsteypt þjóðfélag á sérhagsmunum. Þar eð hæstv. fjmrh. hefur boðað mikla tiltekt í sínu ráðuneyti hlýtur það að verða eitt af hans fyrstu verkum að fara undir borðið og taka til hendinni og dreifa því fé sem þar finnst til allra.

Eins og fram kom í stjórnarmyndunarviðræðunum sl. sumar er það skýlaus krafa Kvennalistans að ekki séu greidd lægri laun fyrir fulla vinnu en svo að þau dugi til framfærslu einstaklings. Ekki náðist samkomulag um þetta og enn er langt frá því að þessu hóflega marki okkar sé náð. Það er til háborinnar skammar fyrir eina af ríkustu þjóðum heims. Hæstv. forsrh. sagði áðan að meðaltalskaupmáttur launa hefði aldrei verið meiri. Hitt vita allir að launabilið hefur aldrei verið stærra.

Góðir áheyrendur. Prjónauppskrift ríkisstjórnarinnar gengur ekki upp. Til þess að komast fyrir vitleysurnar þarf að rekja upp og prjóna nýtt. Við kvennalistakonur viljum nýtt verðmætamat og nýja lífssýn. Það teljum við vænlega uppskrift að skjólgóðri flík sem rúmar landsmenn alla.

Ég þakka áheyrnina. — Góða nótt.