08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4363 í B-deild Alþingistíðinda. (3016)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Karl Steinar Guðnason:

Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að óska eftir þessari umræðu vegna þeirra reglugerða sem hæstv. landbrh. setti um ráðstöfun á sérstöku fóðurgjaldi vegna afurða alifugla og svína, sem sett var 21. jan. sl. og jafnframt því gerræði sem átti sér stað þegar samþykkt var að sex manna nefnd tæki að sér að verðleggja þessar afurðir ásamt eggjum. Með þessari reglugerð er í raun búið að koma á kvótakerfi í þessum greinum. Á þennan hátt er að mestu búið að skjóta loku fyrir markaðsáhrif á verðlag þessara afurða og hagkvæmnisþróun í umræddum greinum. Núverandi framleiðendur hafa nú skipt á milli sín framleiðslunni og jafnframt komið í veg fyrir að nýir aðilar geti komist inn í þessar búgreinar.

Með þessu er réttur neytenda fótum troðinn á svívirðilegan hátt. Jafnframt því er búið að byggja upp kerfi sem kemur í veg fyrir eðlilega endurnýjun í greinunum og eðlilegan sveigjanleika. Hér er um að ræða mál sem snertir grundvallarréttindi íslenskra neytenda og er það með öllu óþolandi og raunar furðulegt að til skuli vera samtök undir lok 20. aldar sem telja sér sæma að stofna til styrjaldar við neytendur með umræddum hætti. Ég efast ekki um að lagaheimildir eru fyrir hendi fyrir þeirri reglugerð sem um er rætt. Í búvörulögunum er kveðið á um að séu samtök framleiðenda sammála um að óska eftir kvótakerfi á þessari framleiðslu skuli það gert.

Nú er ljóst að framleiðendur hafa náð saman í einu félagi. Ég fullyrði hins vegar að margir þeirra sem hvað harðast hafa beitt sér gegn verðstýringu eða kvótakerfi hafa verið kúgaðir til samstöðu með hvers konar mismunun og misbeitingu opinberra sjóða. Þessir framleiðendur hafa einfaldlega staðið frammi fyrir því að vera settir á hausinn eða vera góðir, þægir og meðfærilegir.

Í síðustu kjarasamningum voru þessi einokunarmál mikið rædd. Þá stóð til að gefa út þessa reglugerð þrátt fyrir andstöðu þeirra eggjabænda sem enn höfðu ekki látið segjast. Hvers vegna var þetta rætt í kjarasamningum? Það var vegna þess að umrædd verðstýring og verndun framleiðenda gegn hagsmunum neytenda mun leiða til óeðlilegs verðs, hærra verðlags en réttlætanlegt er.

Nú þegar sex manna nefnd verðleggur þessar afurðir er afar líklegt að tekið verði tillit til hvers konar kostnaðarliða sem tíndir eru til, hagkvæmni í stjórnun og rekstri verði fjarri allri viðmiðun.

Neytandinn, launþegar eru varnarlausir í þessum efnum. Þess vegna var það liður í gerð síðustu kjarasamninga að ríkisstjórnin gaf fyrirheit um að ekki verði tekin upp af opinberri hálfu framleiðslu- og verðstýring á innlendri matvöru umfram það sem nú er.

Á fundi Alþýðusambandsins eftir samningana með reiðum eggjabónda og jafnreiðum kjúklingabónda kom fram: Eggjabóndinn upplýsti að gjaldeyriskostnaður fóðurs til framleiðenda á hvert eggjakíló væri hærri en gjaldeyriskostnaður við kaup á eggjum í útlöndum. Annar gjaldeyriskostnaður, svo og vinnulaun, koma þá auðvitað til viðbótar. Kjúklingabóndinn upplýsti að kjúklingafjallið sem þá var væri tilkomið vegna viðleitni framleiðenda til að búa sig undir kvótann sem allir bjuggust við. Sem sagt: Áformin um kvóta leiddu til framleiðslu umfram sölumöguleika.

Ég spyr: Er eðlilegt að bakarar og kökugerðarmenn séu skyldaðir til að kaupa egg á langtum hærra verði en erlendir keppinautar sem njóta tollfrjáls aðgangs á íslenskum markaði? Eru áform um að bæta þennan kostnað með niðurgreiðslum?

Ég spyr staðgengil forsrh., en Þorsteinn Pálsson gegndi þýðingarmiklu hlutverki í síðustu kjarasamningum: Var þessi reglugerðarsetning borin undir ríkisstjórnarfund og hver var afgreiðsla málsins?

Ég skora á landbrh. að afturkalla umrædda reglugerð sem er ótvíræð aðför að neytendum í landinu. Kjarasamningar eru á viðkvæmu stigi. Telur landbrh. að brot á fyrirheiti um að taka ekki upp verðstýringu sé framlag til sátta í þeim erfiðu kjarasamningum sem nú standa fyrir dyrum?