27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (302)

Stefnuræða forsætisráðherra

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Í stefnuræðu forsrh. og í stjórnarsáttmálanum segir að eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar sé að auka jafnrétti og koma á jafnvægi í byggðum landsins. Á óbeinan hátt víkur forsrh. víða að því mikla misrétti sem hér ríkir og alltaf færist í vöxt og vill að fólk sættist hvert við annað og við sín kjör, taki þegjandi við því sem valdhöfunum þóknast að það fái að halda eftir af því sem það aflar. Hvergi er þó komið að kjarnanum í því mikla vandamáli sem við þjóðinni blasir, en mörgum orðum eytt í að viðhalda blekkingarhulunni. Það er eins og eigi að nota öll fögru orðin og fyrirheitin sem snuð upp í almenning og fólk treysti á forræði og forsjá landsfeðranna og taki því með þögn og þolinmæði þótt ekkert bóli á aðgerðum í jafnréttisátt heldur þvert á móti.

Það er annað markmið öllu fyrirferðarmeira í stefnuræðu forsrh. og í stjórnarsáttmálanum, markmið sem er í beinni andstöðu við jafnrétti, frelsi fólks að taka ábyrgð á eigin lífi og samfélagi. Þessir landsfeður kalla þetta einstaklingsfrelsi sem byggir á rétti þeirra sem hafa sterkustu aðstöðuna að sölsa undir sig fjármagn og völd á annarra kostnað. Það fer ekki fram hjá neinum að fjármunir og völd eru sífellt að færast á færri hendur á kostnað landsbyggðar, á kostnað þeirra fjölmörgu sem hafa lökustu samkeppnisaðstöðuna. Það þarf ekki annað en fara um höfuðborgarsvæðið til að sjá hvert þeir fjármunir hafa farið sem framleiðslustéttirnar til lands og sjávar hafa tinnið fyrir. Sjón er sögu ríkari.

Það kerfi sem við búum við byggist á sérhæfingu og samkeppni þar sem eigin hagsmunahyggja og takmarkað sjónsvið þeirra sem sitja á valdastólum leiðir til misréttis, skammsýni og að lokum ringulreiðar þar sem engin leið er að hafa yfirsýn yfir sviðið. Samtök jafnréttis og félagshyggju eru breytingarafl, hópur fólks sem sér að við verðum að fara nýjar leiðir til að ná raunhæfum árangri. Við sættum okkur ekki við að málefnin séu látin víkja fyrir annarlegum sjónarmiðum. Við sjáum að í núverandi ríkisstjórn er auðgildið sett ofar manngildinu. Jafnréttið, lagfæringar á aðstöðumun, hækkun lægstu launa, landsbyggðarstefna o.fl. á að bíða betri tíma þar sem ekki eru finnanlegir fjármunir til slíkra hluta — eða það segja forustumenn stjórnarflokkanna. Þetta segja þeir og það í mesta góðæri sem þjóðinni hefur hlotnast í langan tíma. Hvenær verða þá peningar finnanlegir til að jafna launin og minnka aðstöðumuninn í okkar þjóðfélagi eða vantar raunverulegan vilja hjá stjórnarliðinu til að halda uppi virkari byggðastefnu og hrinda í framkvæmd þjóðhagslegum aðgerðum til að vinna gegn vaxandi misrétti? Forustumenn ríkisstjórnarinnar virðast a.m.k. hafa gleymt hinum fleygu orðum og gildi þeirra: „Vilji er allt sem þarf.“

Það var 1979 sem ég talaði fyrst um það á þingflokksfundi framsóknarmanna að ef ekki yrði tekið á málefnum landsbyggðarinnar á þann hátt að lífsaðstaða þar væri ekki miklu lakari en á höfuðborgarsvæðinu væri stutt í að uppstokkun yrði í öllum stjórnmálaflokkunum því landsbyggðarfólkið mundi ekki sætta sig til lengdar við að vera meðhöndlað sem annars flokks fólk með lakari launakjör og aðstöðu alla en byggðakjarninn á suðvesturhorninu. Ég hef endurtekið þessi aðvörunarorð oft og mörgum sinnum síðan, m.a. úr þessum ræðustól. Einu viðbrögðin sem ég hef orðið var við er að sumir þm. hafa kvartað undan því að ég skuli hafa slíkan málflutning í frammi. Það var talið illt verk að ýta undir togstreitu á milli landsbyggðar og höfuðborgar. Eru þessir stjórnmálamenn svo blindir að þeir skilji ekki hvaða ástæður valda því að svo er nú komið að landsbyggðarfólkið er að rísa upp og krefjast réttar síns?

Fyrir kosningar var taugatitringur í flestum frambjóðendum í kjördæmum á landsbyggðinni, enda virtust þeir skilja þá hvernig kjördæmin á landsbyggðinni höfðu verið afskipt á liðnum árum, enda gat ekki fram hjá þeim farið hvernig staða t.d. strjálbýlisins er. Þar ríkir svartsýni og öryggisleysi, sérstaklega meðal þeirra sem leggja stund á sauðfjárbúskap. Í landbúnaði fer nú fram stórfelldari eignaupptaka en áður hefur þekkst í okkar þjóðfélagi. Margir eru þeirrar skoðunar að heil héruð verði yfirgefin þegar þeir bændur sem búa nú gefast upp sökum fátæktar og aldurs þar sem yngra fólkið sér nú enga möguleika til þess að hefja búskap að öllu óbreyttu, enda mundi það ekki sætta sig við þá aðstöðu og launakjör sem foreldrar þess búa við.

Þegar vel gengur í sjávarútvegi er góðæri í landinu og öfugt. Hinir mörgu og oft smáu þéttbýliskjarnar við sjávarsíðuna og það fólk sem þar býr eru burðarás þessa atvinnuvegar. Þessi byggðarlög og störf þessa fólks hafa ekki notið þeirrar viðurkenningar sem eðlilegt má telja og ég vil segja sem því ber. Ég tel að það sé eitt af höfuðverkefnum að bæta kjör fiskvinnslufólks og eitt mesta byggðamál okkar í dag. Það er blátt áfram til skammar hve litlu fjármagni er varið til hafnaframkvæmda miðað við ástand hafna. Skip eru í stöðugri hættu að verða fyrir tjóni ef eitthvað er að veðri inni í höfnunum. Þetta tómlæti og skilningsleysi um að viðhalda og byggja upp hafnirnar sýnir vanmat valdhafanna á aðstöðu sjómanna og útgerðar sem er sá atvinnuvegur sem færir þjóðinni mesta björg í bú.

Þá er það matarskatturinn. Um næstu mánaðamót er fyrirhugað að leggja 10% söluskatt á allar búvörur. Uppi eru hugmyndir um að hækka hann síðar upp í 18%. Sé reiknað með að salan verði lík á næsta ári og hún er í ár má reikna með að heildarsalan á búvörum verði um 13 milljarðar og þá 10% söluskattur á ársgrundvelli 1,3 milljarðar. Ef skatturinn yrði 18% miðað við sömu forsendur ætti hann að skila til ríkissjóðs tæplega 2,4 milljörðum. Hér er eingöngu átt við söluskatt á innlenda búvöruframleiðslu. Athyglisvert er að ríkisstjórnin segir að söluskatturinn á búvörunum muni skila í ríkissjóð 150 millj. þessa tvo mánuði til áramóta þrátt fyrir að niðurgreiðslur verði auknar um 75 millj. þennan tíma. Framleiðsluráð telur að með óbreyttri neyslu gefi skatturinn 216 millj. a.m.k. Því virðist sem ríkisstjórnin geri ráð fyrir minni neyslu eða að verslunin skili ekki nema tveimur, þremur hlutum af innheimtum söluskatti. Getur það verið að ríkisstjórnin telji að ekki séu betri skil á innheimtum söluskatti yfirleitt?

Nú er gert ráð fyrir að þessi matarskattur verði síðan hækkaður upp í 18% og niðurgreiðslur aflagðar. Má vera að ef af slíkri skattheimtu verður náist það langþráða markmið sumra stjórnmálamanna sem þeir kalla raunhæfa byggðastefnu, þ.e. að greiða landbúnaðinum það þungt högg að það ríði honum víða að fullu.

En þessi skattheimta hefur fleiri neikvæð áhrif í för með sér. Um síðustu mánaðamót hækkaði allt kaup í landinu um 7,23%. Þeir sem höfðu í síðasta mánuði 28 500 kr. fengu hækkun um 2000 kr. Þetta er stærri hópur en sumir vilja viðurkenna, að stærstum hluta konur. Hinir tekjuhæstu fengu um 10–16 000 kr. hækkun og einstaka meira. Ráðherrar sögðu að kaupmáttur mundi skerðast um 2% af þessum sökum, en slík reikningskúnst er miðuð við meðaltal. Það fólk sem hefur lægstu launin fer með allt sitt kaup í mat og húsnæðiskostnað. 2000– 3000 kr. hækkunin fer því að mestu leyti í þennan matarskatt og því er kaupmáttarskerðing þess margfalt uppgefið meðaltal. Og ætli kaupmáttur þessa fólks hafi hækkað mikið á þessu ári? Það er allt miðað við meðaltöl. Hins vegar mun kaupmátturinn hjá þeim tekjuháu ekki skerðast af matarskattinum nema um 1% og í sumum tilfellum minna. Þannig vinnur þessi ríkisstjórn að launajafnrétti í þjóðfélaginu eða hitt þó heldur. Það góða sem ríkisstjórnin segist ætla að gera, það gerir hún ekki. Því ætti almenningur að vera búinn að átta sig á.

Eitt dæmið enn er vaxtahækkunin. Í stjórnarsáttmálanum er talað um hóflega raunvexti og fyrir kosningar töluðu frambjóðendur stjórnarflokkanna um að vextir mundu lækka á þessu ári. Þegar gengið var til kosninga í vor voru vextir á óverðtryggðum lánum 21,5%, en nú eru þeir 31% og það var sagt í fréttum í dag að um mánaðamótin mundi a.m.k. einn banki hækka þá upp í 32,5%. Nú segja líka landsfeðurnir að búast megi við að vextir muni enn hækka í kjölfarið á þessum efnahagsráðstöfunum. Nú eru vextir á verðtryggðum skuldabréfum 9% og enn hærri á gráa fjármagnsmarkaðnum sem hefur engar skyldur og hefur með starfsemi sinni leitt til þess að vextir hafa verið og eru í raun og veru á uppboði. Vaxtastefnan, vaxtahækkunin er aðalverðbólguvaldurinn í þessu þjóðfélagi. Sem sagt er allt á sömu bókina lært hjá þessari ríkisstjórn.

Hér að framan hef ég lýst störfum ríkisstjórnarinnar og vegna verka hennar vilja samtök jafnréttis og félagshyggju enga ábyrgð á henni bera á neinn hátt, enda teljum við hana óréttlátustu ríkisstjórn sem setið hefur að völdum um langt árabil. Það ætti því ekki að koma neinum á óvart að umræður eru nú í gangi um að efna til ráðstefnu á landsvísu til að fjalla um stöðu landsbyggðar og til þess að sameinast um úrræði sem við á landsbyggðinni teljum árangursríkust til þess að landsbyggðarfólkið til lands og sjávar nái rétti sínum.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við að þetta er ekki eingöngu mál bændafólks, sjómanna eða fiskvinnslufólks heldur þjóðarinnar allrar. Hvar væri þjóðin stödd ef landbúnaður kæmist á vonarvöl eða fólk fengist ekki í fiskvinnslu? Þessar stéttir eru vanvirtar með því að bjóða þeim kjör sem fáir vilja líta við. Þessi störf eru svo mikilvæg fyrir heilbrigði okkar og afkomu. Í heimi vaxandi mengunar og ófriðarhættu ætti öllum að vera ljóst hvað mikilvægt er að við séum sjálfum okkur nóg um öflun matvæla. Á því gæti oltið spurningin um sjálfstæði okkar, menningu og afkomumöguleika. Þingmenn stjórnarflokkanna, er sóttu umboð sitt til landsbyggðarkjördæma, virðast ekki hafa neina burði til þess að hamla á móti frjálshyggjuöflunum. Fjárlög og efnahagsráðstafanir eru allar á einn veg, á kostnað landsbyggðar og lágtekjufólksins í landinu. Þeirri ósvinnu verður að linna og spurningin er: Nær landsbyggðarfólkið og láglaunafólkið samstöðu um leiðir til að ná rétti sínum? Tíminn mun leiða það í ljós.

Ég þakka áheyrnina.