08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4366 í B-deild Alþingistíðinda. (3020)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Auðvitað er það svo að stjórnunarkerfi og framleiðslustýringu fylgir óhjákvæmilega nokkur kostnaðarauki sem kemur niður á neytandanum. Við erum enn að reyna að ná jafnvægi í framleiðslunni eftir undangengið þenslutímabil og það er því e.t.v. mögulegt að nauðsyn sé á einhvers konar tímabundinni lágmarksstýringu ef við ætlum á annað borð að framleiða þessar vörur hér innan lands.

Nú er mikið rætt um hagstætt verð á innfluttum eggjum og kjúklingum. Áður en það skref verður hugsanlega stigið að opna allar flóðgáttir þykir mér vert að benda á tvennt sem við skulum hafa í huga. Í fyrsta lagi það að bændur hafa fjárfest í fuglabúum hér á landi og þykir mér einsýnt að ef innflutningur verður leyfður leggjast búin af með öllu. Spyrja má hvað það kosti okkur og eigendur búanna ef þau verða gjaldþrota og eignirnar verðlausar, en ríkisbankarnir hafa veitt lán til uppbyggingar þeirra.

Í öðru lagi vil ég benda á þátt sem ég tel enn mikilvægari, en svo háttar til hér á Íslandi, einu vestrænna ríkja, að ekkert heilbrigðiseftirlit er með innfluttum matvælum. Hæstv. heilbrrh. hefur reyndar boðað breytingu þar á en hún verður ekki komin í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi að ári. Við vitum t.d. ekki frá hvaða löndum eða af hvaða svæðum grænmeti og ávextir berast og þó þau komi að stærstum hluta til frá sölumiðstöðvum í Hollandi eða Ameríku, þá vitum við ekki um upprunalandið. Í mörgum löndum er nú skylda að merkja allar vörur með upprunalandi.

Á sl. ári dróst sala kjúklinga saman hér á landi einmitt vegna salmonellusýkingar, en þó salmonella sé því miður orðin landlæg hér á landi er hún mun útbreiddari og algengari í öllum nærliggjandi löndum. Sú staðreynd ætti að nægja okkur sem rök fyrir því að leyfa alls ekki innflutning þessa viðkvæma varnings og það án mjög öruggs heilbrigðiseftirlits.

Ég vil líka aðeins benda á að eflaust finnst mörgum við smám saman vera að festa okkur í kvótakerfi á öllum sviðum. En staðreyndin er sú að víða annars staðar eru í gildi mun strangari reglur um kvóta en hér á landi. Í Kanada fá eggja- og kjúklingabændur úthlutað kvóta til tveggja mánaða í senn og verða að standa hann algjörlega til þess að eiga von um úthlutun aftur. Þetta fyrirkomulag tryggir jafna framleiðslu allan ársins hring, en í Kanada er verð á matvælum jafnframt mjög lágt.

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á að fyrst sú leið var valin að koma ákveðinni stýringu í gegnum kjarnfóðurskattinn hlýtur verðlagning af opinberri nefnd að vera eðlilegt framhald, verðlagning sem tekur tillit til allra framleiðsluþátta. Ef við viljum framleiðsluna hér á landi verðum við neytendur líka að greiða laun framleiðenda, en eins og okkur er sjálfsagt öllum ljóst hefur verð eggja lengi verið of lágt.

Ég tel að ég hafi í þessu örstutta innleggi mínu komið að einhverjum þeim rökum sem nægja til þess að við höldum þessari framleiðslu innan lands.