08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4369 í B-deild Alþingistíðinda. (3024)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar í þessu máli er alveg skýr eins og í fleiri málum og samstaðan er mikil, bæði milli stjórnarflokkanna og innan þeirra. Hér hafa komið upp talsmenn stjórnarliðsins hver á fætur öðrum og gefið okkur smáinnsýn inn í þennan heim, stefnu ríkisstjórnarinnar í landbúnaðarmálunum.

Ég verð að segja alveg eins og er að málflutningur þeirra ágætu þm. úr stjórnarliðinu sem hér töluðu og lögðust gegn þessum ráðstöfunum er ekki mjög háreistur vegna þess að þeir menn hafa allar aðstæður til þess að koma skoðun sinni á framfæri með öðrum hætti en þeim að koma hér upp í ræðustólinn og pípa eitthvað. Séu menn ósáttir við þessa ráðstöfun, af hverju lögðust menn þá ekki gegn henni í ríkisstjórn eða í þingflokkum stjórnarliðsins? Og af hverju flytja menn þá ekki brtt. við búvörulögin þar sem þessi heimild til framleiðslustýringar með þessum hætti er afnumin? Þar væru hægust heimatökin. Ég hvet þá hv. þm. stjórnarliðsins sem vilja fylgja sannfæringu sinni eftir að gera það og með þeim hætti að mark sé á takandi.

Það má segja margt um þessa framkvæmd. Stjórnun af þessu tagi er að sjálfsögðu ekki fagnaðarefni og hún er vandmeðfarin. Ég tel að það orki tvímælis hvort unnt sé að nota sömu rök til framleiðslustýringar af þessu tagi í eggja- og kjúklingaframleiðslu og notuð eru þegar rætt er um hefðbundnar búgreinar þó að þetta sé nú á grundvelli búvörulaganna í raun tengt undir sama hatt.

Ég tel að sjálfsögðu að svona framkvæmd komi ekki til greina nema henni fylgdi mjög strangt verðlagseftirlit og opinber verðákvörðun og væntanlega verður það. Það má hins vegar segja um það ástand sem fyrir var að það var ekki sérlega gáfulegt heldur og mælir ekki með sér, þar sem menn höfðu ýmist gífurlegt offramboð á þessum vörum og svo tímabundinn skort inn á milli. Þarf ekki að fara langt aftur til að finna dæmi um það að skortur var t.d. á eggjum á tilteknum árstímum. Auk þess má auðvitað benda á þá sóun, offjárfestingu og vitleysu sem viðgekkst í þessu kerfi einnig. Blessun markaðsstýringarinnar er því ekki einhlít. Og þetta snilldaryrði sem hæstv. iðnrh. innleiddi hér um að leita „markaðslægari“ leiða — ég held að ég hafi tekið rétt eftir, hæstv. iðnrh. — þetta er alveg nýtt snilldaryrði. Svolítið markaðslægari leiðir svo að þeir sjálfstæðismenn geti orðið ánægðari.

Ég vil bara að lokum, herra forseti, taka það fram að ég er algerlega andvígur þeim hugmyndum sem hreyft hefur verið undanfarið um innflutning á þessum vörum. Ég tel að það komi ekki til greina og að við hljótum að geta fundið þessari framleiðslu einhvern farsælan farveg hér innan lands. Það hlýtur að vera til eitthvert millistig á milli þess að hafa þetta allt saman stjórnlaust og hins að binda þetta endanlega í kvóta. Að því eigum við að leita, einhverjum farvegi sem tryggir eðlilegt framboð á þessari vöru á skikkanlegu verði þannig að ekki þurfi að koma til innflutnings.