08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4371 í B-deild Alþingistíðinda. (3026)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Nú höfum við orðið vitni að kjúklingaommelettu ríkisstjórnarinnar hér í þinginu sem er framhald af skattarúllettunni sem var hér fyrir áramót. Hér eru menn að rífast um þetta sem ríkisstjórnin hefur lagt fram og ákveðið að fara eftir búvörulögum. Það er enginn ágreiningur í ríkisstjórninni um þetta að sjálfsögðu því um það var samið í stjórnarmyndun að þessi kjúklingaommeletta héldi áfram.

Það er ekki svo að verðlagning skipti hér máli að því er virðist eða hvernig þessum málum er skipað. Menn hafa tekið hér fagurlega til máls og lýst sig andstæða þessu þrátt fyrir að þeir væru í ríkisstjórn. En þeir eru auðvitað ekkert á móti þessu.

Hv. 77. þm. Reykv. sagði að þetta væri auðvitað út af því að það væri svo mikil skattheimta á þessu. En í skattarúllettunni hér fyrir áramót minntist hann ekki á þetta.

Hér kom hæstv. iðnrh. og sagði að þeir hefðu ekkert með þetta að gera í ríkisstjórninni því að það væri á valdi landbrh. Það er auðvitað alveg rétt. Þeir hafa ekkert með þetta að gera því að Framsfl. ræður þessu.

Og hv. 3. þm. Reykn. ræddi um þessa framleiðslu og kom inn á sjúkdóma. Hann kom inn á það að ekki mætti flytja inn þessa framleiðslu út af sjúkdómum, en hann gleymdi að minnast á það að í kjördæmi hv. þm. er flutt inn mikið af kjöti og matvælum — til varnarliðsins. Þá er ekki verið að tala um sjúkdóma.

Hv. 10. þm. Reykv. kom hér inn á það, sem er alveg rétt, að verið sé að festa kvótakerfið. Það er alveg rétt. Núverandi ríkisstjórn er að búa til nýtt kvótakerfi í þessu eins og öllum öðrum málum. Og það á að koma því þannig fyrir að almenningur haldi að sumir séu með og aðrir á móti, en auðvitað er það þannig að allir ríkisstjórnarmeðlimirnir standa að þessari kjúklingaommelettu og ég er ekki hissa á því þó að almenningur, neytandinn, sé undrandi á þessu. Það sem neytendur vilja er að fá þessar vörur á sanngjörnu verði og lágu verði og þeim er alveg sama um þessa kjúklingaommelettu ríkisstjórnarinnar.