08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4372 í B-deild Alþingistíðinda. (3027)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Þessi umræða sem hér fer fram er ekkert óvenjuleg miðað við það sem gerst hefur á undanförnum árum á hv. Alþingi varðandi landbúnaðarmál. Ég tel hins vegar ástæðu til að hvetja hv. Alþingi til að halda ró sinni í þessu máli sem öðrum. Hér hefur ekki annað gerst en það að framleiðendur eggja og kjúklingakjöts hafa nýtt sér heimildir í lögum til þess að bindast samtökum um sína framleiðslu og hæstv. landbrh. hefur gefið út reglugerð í samræmi við gildandi lög. Þetta er það sem gerst hefur.

Ef menn eru óánægðir með þetta þá ættu þeir raunar, eins og hér hefur þegar komið fram, að gera tilraunir til að fá þessum lögum breytt, ella er eðlilegt að lögum sé framfylgt og þau framkvæmd á þann máta sem þau eru í gildi. Og það er það eina sem gerst hefur.

Ég ætla ekki að fara út í þessa umræðu neitt efnislega. Ég beini því aðeins til hv. alþm. að umræða af þessu tagi er til þess að æfa menn í mælskuíþrótt hér á hinu háa Alþingi, en það er efnislegra og réttara ef menn ekki una því sem lög kveða á um að þá sé gerð tilraun til að breyta þeim lögum og ná samkomulagi um að það sé gert.