08.02.1988
Sameinað þing: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4373 í B-deild Alþingistíðinda. (3029)

Verðstýring á sölu eggja og kjúklinga

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég tel að það sé ekki rétt sem hv. frummælandi sagði að þessi reglugerð væri brigður við verkalýðshreyfinguna. Sú ályktun sem fyrrv. ríkisstjórn gerði árið 1986 náði til gildistíma þeirra kjarasamninga sem þá var verið að gera, en þeir féllu úr gildi nú um síðustu áramót. Því var það ákvæði ekki lengur í gildi.

Hins vegar lá út af fyrir sig ekkert fyrir um það árið 1986 hvort framleiðendur væru einhuga um það að óska eftir þessum hætti, að fá útgefna slíka reglugerð. Það kom í ljós nú fyrir áramótin að svo var. Og eins og hér kom fram bar að sjálfsögðu landbrh. að fara eftir ákvæðum laganna um það að endurgreiðsla á þessum gjöldum skyldi vera í samræmi við það sem innanlandsmarkaðurinn krefst.

Ég tel að þetta sé alls ekki einhver refsing eða dula, eins og ég held að hafi verið sagt, á verkalýðshreyfinguna því samkvæmt mínum skilningi mun þetta draga úr kostnaði, lækka verðið. Eins og ég sagði er það verð sem nú er í gildi verð hinnar frjálsu samkeppni og það á a.m.k. eftir að koma í ljós hver breyting verður þar á þegar sex manna nefnd hefur fjallað um málið og síðan aftur fimm manna nefndin sem ákveður heildsöluverðið. En það hefur a.m.k. verið svo að álagning þeirrar vöru sem þannig er verðlögð er lægri.

En vegna ummæla sem hér hafa fallið um að það væri eðlilegt að setja allt í viðjar vil ég að lokum, með leyfi forseta, lesa hér upp örstutta klausu úr bréfi sem mér barst nýlega frá bakarameisturum:

„Erlend fyrirtæki, þar á meðal kökuframleiðendur, líta á Ísland sem „dumping“ markað. Landfræði- og verslunarlega er landið einangrað og markaðurinn smár þannig að hægt sé að reka sjálfstæða markaðsstefnu hér á landi óháða aðalmörkuðum fyrirtækisins. Ísland er svo sem aukabiti þar sem réttlætanlegt er að lækka verðið verulega til að sækja sér smáhagnaðarviðbót. Auðvelt er að velja einstakar tegundir t.d. sem umframframleiðsla er á í það skiptið og selja hér á landi. Fyrirtækin koma inn og fara út af markaðnum eftir þörfum og þurfa ekki að halda uppi neinni þjónustu við kúnnann.“

Þetta eru þær aðstæður sem ríkja á hinum erlenda markaði, heimsmarkaði með búvöruframleiðslu. Vegna gífurlegra niðurgreiðslna er hann órafjarri framleiðslukostnaði í hverju landi.