27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (303)

Stefnuræða forsætisráðherra

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Markmið efnahagsstefnu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar er að stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum og stíga ný skref í frjálsræðisátt. Þessi markmið eru ekki valin af handahófi. Þau eru einföld en skýr og byggð á reynslu undanfarinna mánaða sem hafa verið einn mesti uppgangstími í sögu þjóðarinnar.

Þann mikla efnahagsbata sem birst hefur í bættum kjörum almennings að undanförnu má öðru fremur rekja til stöðugleika í efnahagslífinu og meira frjálsræðis en áður hefur þekkst. Þegar Sjálfstfl. tók þá ákvörðun að mynda ríkisstjórn eftir alþingiskosningarnar í apríl var það gert til að viðhalda þeim árangri sem náðst hafði og koma í veg fyrir að horfið yrði frá þeirri frjálsræðisstefnu sem fylgt hefur verið á síðustu árum.

Eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum í kvöld getum við ekki vænst þess að ytri aðstæður þjóðarbúsins batni á næsta ári. Meginviðfangsefnið verður því að halda í horfinu, finna fótum okkar forráð og tryggja að sá lífskjarabati sem náðst hefur hverfi ekki í nýrri verðbólguöldu. Þetta þurfa ekki að vera voveifleg tíðindi þegar þess er gætt að kaupmáttur ráðstöfunartekna, þ.e. tekna þegar búið er að greiða af þeim skatta, hefur vaxið á þessu ári um 16%. Það þýðir að launamaður með 50 þús. kr. á mánuði á nú 7 þús. kr. til ráðstöfunar eftir að hann hefur keypt þær vörur og þá þjónustu sem hann þurfti að verja öllum laununum til í upphafi ársins. En þessi tíðindi þýða jafnframt að allar tilraunir til að knýja fram launahækkanir umfram verðlagsbreytingar hafa einungis í för með sér verðbólgu eins og jafnan þegar reynt er að skipta meiru en því sem til skiptanna er.

Í lýðræðisríkjum eru völd ríkisstjórna takmörkuð sem betur fer. Ísland er engin undantekning í þessu efni. Það er ekki á valdi ríkisstjórnarinnar einnar að viðhalda jafnvægi og vinna gegn verðbólgunni. Þeir sem gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún geri ein ráðstafanir til að koma í veg fyrir verðbólgu eru í raun að kasta frá sér ábyrgðinni og frelsinu og biðja um alræði stjórnarinnar. Verðbólgan er nefnilega ekki einkaóvinur ríkisstjórnarinnar. Hún er sameiginlegur óvinur allrar þjóðarinnar og vinnur þeim mest mein sem veikastir eru fyrir. Verðbólgan ræðst fyrst á þá lakast settu, á þá sem hafa lægstar tekjurnar, á aldraða og öryrkja og á unga fólkið sem þarf að koma yfir sig þaki. Þess vegna er mikilvægt að ekki aðeins ríkisstjórnin heldur einnig stjórnarandstaðan, vinnuveitendur, launþegasamtök og aðrir þeir sem áhrif hafa á gang efnahagslífsins taki þátt í baráttunni við verðbólguna og komi þannig í veg fyrir að árangurinn glatist.

Ríkisstjórnin hefur gert ráðstafanir sem ætlað er að stuðla að jafnvægi og hvetja til ráðdeildar og sparnaðar. Fjárlagafrv. er lagt fram án halla og boðaðar hafa verið margvíslegar aðgerðir í peninga og lánsfjármálum. Þannig hefur ríkisstjórnin sett fordæmi fyrir aðra. Þessar ráðstafanir styrkja fastgengisstefnuna sem setur efnahagslífinu, þar á meðal aðilum vinnumarkaðarins, ákveðna umgjörð til að starfa innan. Genginu verður ekki breytt til að mæta innlendum kostnaðarhækkunum. Aðilar vinnumarkaðarins verða ekki leystir undan þeirri ábyrgð er á herðum þeirra hvílir.

Með heimild banka til að bjóða gengisbundna innlánsreikninga og með heimildum til kaupa á erlendum verðbréfum eru stigin ný skref í fjálsræðisátt. Efnahagslíf er opnað enn frekar og styrkt. Aukið frjálsræði í fjármagnsflutningum að og frá landinu tengir efnahag okkar umheiminum traustari böndum. Íslendingum gefst nú tækifæri til að kaupa skuldabréf ríkissjóðs og annarra íslenskra aðila sem gefin eru út á alþjóðlegum markaði. Með þessu eru Íslendingum boðin sömu kjör og erlendum lánardrottnum, en það dregur úr erlendum skuldum að sama skapi. Fyrirtækin hafa nú heimild til að afla sér erlends áhættufjár og íslenskur hlutabréfamarkaður gefur almenningi tækifæri til að eignast aðild að atvinnulífinu með beinum hætti. Þessi atriði fela í sér stefnu sem eflir atvinnureksturinn og leggur grundvöll að nýrri sókn til bættra lífskjara. Við verðum öll að gera okkur ljóst að betri lífskjör, félagsleg velferð og þróttmikið menningarlíf hvíla á aukinni verð mætasköpun atvinnulífsins.

Þó ekki sé búist við verulegum hagvexti á næsta ári er engin ástæða til að leggja árar í bát og horfa volandi í gaupnir sér. Við getum bætt stöðu okkar með ýmsum hætti. Við getum aukið framleiðni í atvinnufyrirtækjunum. Við getum undirbúið samvinnu við erlenda aðila um orkukaup til stóriðju. Við getum eflt nýjar og arðsamar atvinnugreinar. Við getum laðað til okkar áhættufjármagn til nýsköpunar í atvinnulífinu. Við getum dregið úr útgjaldafrekum ríkisafskiptum og eflt einkaframtakið. Og við getum undirbúið útflutningsgreinarnar til að taka þátt í markaðssókn á sameinuðum markaði í Vestur-Evrópu þegar hún verður einn viðskiptaheimur. Allt þetta og margt fleira getum við gert til að búa í haginn fyrir framtíðina ef við störfum saman af fyrirhyggju og bjartsýni. Forsendan er að jafnvægi haldist í efnahagslífinu og áfram verði haldið á frjálsræðisbraut.

Stjórnarandstöðunni hefur í þessum umræðum orðið tíðrætt um óeiningu innan ríkisstjórnarinnar. Þessi stjórnarandstaða samanstendur af þremur flokkum sem kusu að firra sig ábyrgð á stjórn landsins eftir síðustu alþingiskosningar. Kvennalistinn hefur valið það hlutverk að vera þrýstihópur en ekki stjórnmálaflokkur. Alþb. hefur misst tiltrú vegna upplausnar og innbyrðis átaka milli gömlu valdaklíkunnar og þverpólitísks fulltrúa miðjumoðsins, svo ég taki orðrétt upp úr ræðu núv. formanns Alþb. sem hann viðhafði um nokkra andstæðinga sína úr þeim flokkum sem Ólafur Ragnar hefur áður gist. Borgaraflokkurinn missti af lestinni í stjórnarmyndunarviðræðunum vegna klaufalegra yfirlýsinga og persónulegra sjónarmiða. Þessir stjórnarandstöðuflokkar eiga ekkert annað sameiginlegt en að vera í stjórnarandstöðu, heimta meiri útgjöld, minni skatta og ala á óánægju.

Hitt er svo annað mál, og á það höfum við sjálfstæðismenn ítrekað bent, að þriggja flokka ríkisstjórnir eru þyngri í vöfum en tveggja flokka stjórnir. Úrslit síðustu kosninga urðu á þann veg að ekki var unnt fyrir Sjálfstfl. að mynda ríkisstjórn með einum öðrum flokki. Það hlýtur því að vera keppikefli okkar að borgaralega sinnaðir menn sameinist í einni stjórnmálafylkingu. Viðsjár í alþjóðamálum og örlagaríkar ákvarðanir um í hvers konar þjóðfélagi við viljum lifa hér á landi krefjast sterks flokks sem byggir á sjálfstæðisstefnunni, stefnu einstaklingsfrelsis og einkaframtaks.

Sjálfstfl. hefur í þessari ríkisstjórn eins og jafnan áður lagt áherslu á aukið athafnafrelsi, frelsi ábyrgra einstaklinga sem skilja mátt samstöðunnar gegn upplausnaröflunum. Trúr þessari stefnu í verki mun Sjálfstfl. áfram vinna þjóðinni til heilla og framfara. — Góða nótt.