09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4374 í B-deild Alþingistíðinda. (3032)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér er á ferðinni mjög mikilsvert mál og ánægjulegt að fá til umfjöllunar þmfrv. um þetta efni og það úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar. Það hlýtur þó að hvarfla að manni hvað dvelur orminn langa, þ.e. tillögur ríkisstjórnarinnar í þessum málum svo mjög sem einstakir ráðherrar, aðallega úr Framsfl. hafa vikið að þeim aftur og aftur. Þaðan hafa þó ekki heyrst neinar tillögur til úrbóta, aðeins yfirlýsingar um það að efnahagsráðgjöfum bæri að koma með tillögur.

Þetta frv. sem hér er til umræðu er a.m.k. að því leyti gagnlegt að það minnir þessa aðila á þau vandamál sem hér er um að ræða og neyðir þá e.t.v. til einhverra aðgerða. Hv. flm. lagði áherslu á það í sínu máli þegar hann mælti fyrir þessu frv. að það væri unnið í samráði við sérfræðinga af ýmsu tagi. Spurningin er svo kannski hvernig ráð allra heimsins hagfræðinga og sérfræðinga hafa reynst hingað til því það vantar nú ekki að þeirra ráð hafi verið notuð fram að þessu, með þeim afleiðingum sem við þekkjum.

Það eru vafalaust fáir hér inni sem ekki þekkja af eigin raun eða annarra þeim kunnugra dæmi um það hvernig þróun vaxta og lánskjara hefur leikið marga, enda þótt þeir hinir sömu hafi gert margvíslegar ráðstafanir og áætlanir sem áttu að tryggja að þeir gætu staðið við nauðsynlegar fjárskuldbindingar sínar. Hér á ég bæði við einstaklinga og fyrirtæki. Auðvitað eru líka mörg dæmi þess að menn geti sjálfum sér um kennt og hafi sýnt glannaskap og óforsjálni og hafi grafið sína eigin gröf og jafnvel annarra í leiðinni. En það er nú af hinum sem við höfum áhyggjur.

Við kvennalistakonur höfum haft áhyggjur af þessum málum eins og aðrir og ég minni á það að fyrir þremur árum held ég það hafi verið lögðum við fram tillögu hér á þinginu um það að miða verðtryggingu langtímalána vegna húsnæðis og náms við vísitölu kauptaxta í stað lánskjaravísitölu. Sú tillaga fékk litla sem enga umfjöllun hér. Menn benda raunar gjarna á það að misgengi vísitalna getur verið af ýmsu tagi. Það gengur ekki bara í eina átt. En okkar skoðun var sú og er raunar enn að það væri alltaf réttlátara að launafólk gæti miðað sínar áætlanir og framtíðarskuldbindingar við það eina sem það hefur að selja, þ.e. vinnuframlag sitt.

Ég minni líka á að oft hefur heyrst gagnrýni á það hvernig lánskjaravísitalan, stundum nefnd ránskjaravísitalan, er saman sett. Og sú samsetning sem nú er notast við er ekki beinlínis vænleg til skilningsauka þegar fólk fær á sig hækkun lána vegna verðhækkunar kaffis eða tóbaks eða áfengis.

Ég spurði hæstv. viðskrh. að því hér fyrr í vetur hvort ríkisstjórnin hefði einhver áform uppi um endurskoðun lánskjaravísitölunnar eða þá að taka upp aðra viðmiðun verðtryggingar en nú er notuð. Í svari hans kom fram að svo er ekki og það olli vissulega vonbrigðum því ég er sammála hv. flm. þessa frv. um það að sú viðmiðun sem nú er notuð er ekki góð.

Þetta er nú svona til að minna á sumt það sem við höfum gert til þess að vekja umræðu um þessi mál. Ég ítreka það að ég fagna því að deildinni gefst nú tilefni til að ræða lánskjör og vexti sem er efni þessa frv. sem hér er til umræðu.

Nú verður að segjast eins og er að ég er ekki viss um að sú leið sem hér er lögð til geti gengið. Með henni er verið að hafna verðtryggingu skv. lánskjaravísitölu og lagt til að tengja vaxtastigið því sem gerist í helstu viðskiptalöndum okkar. Samkvæmt frv. vill flm. fela Seðlabanka að ákveða vexti og í rauninni er hann í þessu frv. að leggja til fasta vexti sem er að mínu viti óhugsandi. Við höfum alltaf búið við miklar hagsveiflur og fastir vextir af langtímalánum, langtímaskuldbindingum er meiri háttar mál, svo maður noti nú nýtískulegt orðfæri. Ef vextirnir eru festir í mikilli lægð, þ.e. þegar verðbólga er lítil, þá rýrnar lánsféð til langs tíma og aftur séu þeir festir í mikilli verðbólgu, segjum 40–50% eins og ekki er óþekkt hér á landi, þá sjáum við hvernig það færi. Ég held þess vegna að fastir vextir leysi ekkert í þessum málum heldur væri hið mesta áhættuspil í rauninni. Ég vil sérstaklega vara við 4. gr. þessa frv. sem kveður á um að af spariinnlánum greiðist til jafnaðar vextir 1% neðar almennum útlánsvöxtum. Þar finnst mér alveg litið fram hjá því hversu almenn útlán eru mismunandi, svo það undrar mig að þessi tillaga skuli að sögn flm. koma frá slíkum hagspekingum sem hann gat um. Á sama hátt finnst mér litið fram hjá því að innlánskjör eru ákaflega mismunandi. Við nánast vöðum tilboðin í hné svo það er ekki hægt að láta eins og hér ríki enn sama ástand og fyrir tíu árum.

Þá er ég einnig mjög ósammála því að tékkareikningar verði vaxtalausir eins og lagt er til í 4. gr. Það er ekki rétt sem segir í athugasemd með þessari grein að ekki tíðkist í vestrænum ríkjum að greiða innlánsvexti af veltiinnlánum. Það er alls ekki rétt og má t.d. nefna Bretland sem dæmi þar sem ríkir nokkur samkeppni milli bankanna um vaxtakjör á slíkum reikningum. Við skulum ekki gleyma því að þetta eru launareikningar fjölda fólks sem leggur á þennan hátt til stóran hlut af því ráðstöfunarfé sem bankarnir hafa. Ég tel það mikinn misskilning að bankarnir hafi í raun kostnað af slíkum reikningum og tel að þeir ættu að greiða a.m.k. þá vexti sem nú eru greiddir af meðalupphæð mánaðarlega en ekki af lægstu innstæðu eins og nú er.

En það má auðvitað ekki skilja orð mín svo að ég finni þessu frv. allt til foráttu. Það er síður en svo. Ég hlakka til að heyra álit efnahagssérfræðinga úr ýmsum áttum svo og álit aðila vinnumarkaðarins t.d. Vel má vera að hér sé að finna einhverja vegvísa. Það er nú svo margt sem hefur áhrif á þróun vaxta og þar getur ríkið sannarlega átt hlut að máli. Þess vegna væri mjög mikilsvert ef einhverjir þeirra ráðherra, sem eru að vísu ekki margir hér inni, en annar hvor þeirra sem hér er viðstaddur vildi tjá sig um þetta mál.

Þenslan í efnahagslífinu er vitanlega aðalorsökin og samkeppni á lánsfjármarkaði. Þess vegna er það mjög mikilvægt að ríkið gæti hófs og eigi ekki stóran þátt í því að spenna upp þensluna og keppa um lánsfé eins og við lögðum ríka áherslu á í umræðum um lánsfjárlögin hér fyrir fáeinum vikum.

Við höfum nú í umræðunni sem hófst í síðustu viku heyrt sjónarmið nokkurra þm., m.a. úr stuðningsliði ríkisstjórnarinnar sem hv. flm. einnig tilheyrir. Það er óneitanlega sérkennilegt hvernig sumir þessara manna tala, rétt eins og þeir beri ekki líka ábyrgð á þeirri þróun sem verið hefur og hafi ekki sjálfir stuðlað að því ástandi sem nú er þeim svo mikið áhyggjuefni. Þessir menn greiddu atkvæði með matarskattinum sem a.m.k. hv. flm. gagnrýndi í máli sínu í síðustu viku og jafnvel lét sér sæma að hæða og uppnefna hæstv. fjmrh. Maður hlýtur að spyrja sjálfan sig: Hvað kom honum og öðrum til að samþykkja matarskattinn, sem er tvímælalaus verðbólguvaldur, ef hann í raun og veru skynjaði og skildi afleiðingar hans? Þessir menn greiddu einnig atkvæði með lánsfjárlögunum sem að mati allra spekinga, og þarf raunar ekki spekinga til, hafa áhrif á vaxtaþróunina, vaxtastigið. Reyndar eru margar kenningar á lofti eins og menn þekkja í þessum málum, t.d. hvað varðar áhrif vaxtastigsins á eftirspurnina, en það er allt eins hægt að tala um það eins og hitt, þ.e. um áhrif eftirspurnarinnar á vaxtastigið. Ein kenningin er sú að háir vextir eigi að draga úr eftirspurn, en hin kenningin er líka til að háir vextir geri fólk djarft til lántöku því það trúi því að vextirnir muni lækka og þá „reddist“ þetta allt saman. Þess vegna m.a. hafi eftirspurnin ekki minnkað þrátt fyrir háa vexti að undanförnu. Svona geta nú kenningarnar stangast á.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni en ég vil að lokum nefna eitt atriði sem oft heyrist í máli manna, þ.e. þeirra sem ekki lifa og hrærast í fjármálaheiminum í fjármálaspekúlasjónum og vangaveltum en þurfa engu að síður annað veifið á fjármagnsfyrirgreiðslu að halda og a.m.k. á því að halda að geyma fjármuni sína um lengri eða skemmri tíma í bönkum. Og það er að útfærsla á vöxtum er oft og tíðum svo flókin að margt fólk getur með engu móti áttað sig á því hver útkoma dæmisins verður. Það er því vert að velta því upp hvort ekki sé ástæða til að setja lánastofnunum einhverjar reglur eða fyrirmæli um að upplýsa almenna lántakendur á mannamáli um það hvernig fjármáladæmi þess muni þróast að teknu tilliti til vaxta og lánskjara.