09.02.1988
Neðri deild: 56. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4400 í B-deild Alþingistíðinda. (3039)

205. mál, lánskjör og ávöxtun sparifjár

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Þá er mér næst að hugsa upphátt og segja: Ja, guð almáttugur, þá vitum við það! Það er sem sagt alveg gjörsamlega útilokað að snúa við af þeirri leið sem hefur leitt okkur til þessara háu vaxta og sem hefur leitt okkur til þessarar verðbólgu að mati ráðherrans miðað við þau orð sem hann hefur nú rétt í þessu látið falla. (Dómsmrh.: Það er ekki rétt.) Það er sem sagt ekki leið út úr þessu, ja, nema eins og hann sagði í lok ræðu sinnar að verðbólgan lækki og ríkissjóðshallinn verði leystur. Hvað er ríkisstjórnin að gera akkúrat í þessum málum? Hún er búin að hækka yfirleitt öll þau gjöld sem eru á hennar valdi. Hún er búin að bæta við sköttum. Hún er búin að bæta sköttum og álagningu á atvinnureksturinn. Hvert einasta atriði sem hefur verið samþykkt er verðbólguhvetjandi. Hún hefur aukið útgjöld ríkissjóðs og útgjaldahlið um 50% og hún hefur lagt á nýja skatta til þess að mæta þeim mismun sem þar hefur skapast á milli ára 1987/1986, sem þýðir samkvæmt því sem fyrrv. efnahagsráðunautur ríkisstjórnarinnar var að enda við að segja, núv. hæstv. bankamálaráðherra, að það er ekki hægt, það er ekki í mannlegu valdi að koma til baka úr þessum háu vöxtum sem ástæðurnar hafa skapað fyrr en verðbólgan fer niður og ríkissjóðshallinn er leystur. Á sama tíma og hver einasta aðgerð sem samþykkt var af ríkisstjórninni við gerð fjárlaga og lausn efnahagsmála er verðbólguhvetjandi, þá er það svo að í hvert einasta skipti sem skuldabréf ríkisins fellur í gjalddaga er ríkissjóður kominn á markaðinn á ný til þess að selja ný bréf svo að ríkissjóður geti staðið undir fyrri skuldbindingum á gjalddögum. Og í hvert skipti sem ný bréf eru gefin út eru vextirnir hærri og stundum jafnvel þegar bréfin seljast illa, afföll boðin.

Og hvernig ætlar ríkisstjórnin þá að leysa þessi mál? Það er hún sjálf sem er leiðandi í því að hækka vextina. Hún sjálf er leiðandi í öllu því sem er verðbólguhvetjandi. Og nú síðast reynir hún að leysa sinn vanda eins og ég orðaði það í efnahagsumræðunum um daginn með því að ýta ríkissjóðshallanum inn í eldhúsin í landinu. Hækka matarskattinn. Þetta gengur ekki. Og það gengur heldur ekki að hæstv. bankamálaráðherra haldi áfram að hugsa og tala og ráðleggja eins og ég vil segja óábyrgur embættismaður því ekkert af því sem hann hefur lagt til fyrr á tímum hefur leyst nokkurn vanda heldur aukið hann. Og ég harma þetta.

Það sem hefur skeð hefur hvorki komið frá almættinu né heldur frá þeim vonda. Þetta er allt sjálfskaparvíti og af mannanna völdum. Þess vegna er það á okkar valdi að leysa málin en ekki að bíða eftir því að eitthvað yfirnáttúrlegt komi fyrir til þess að vandinn verði leystur fyrir okkur.

Ég er ekki sammála flm. frv. um marga hluti. Ég get tekið undir margt af því sem hæstv. ráðherra sagði. Það er óþarfi að flytja, má segja, 1.–5. gr. Seðlabankinn og ríkisstjórn geta gert þetta allt án þess að frv. breyti þar nokkru um. Hvort það er samþykkt eða fellt, það skiptir engu máli. Ef ríkisstjórnin tekur ákvörðun verður Seðlabankinn að fylgja henni. Ríkisstjórnin hefur framkvæmdarvaldið.

En segjum nú svo að þetta yrði samþykkt. Það vantar ekkert í þetta frv. af því sem hæstv. ráðherra kvað vanta. Það segir til um það að Seðlabankinn og ríkisstjórn eigi að framkvæma lögin. Það er gangur mála að eftir að Alþingi setur lög er það framkvæmdarvaldið sem tekur við þeim og framkvæmir þau. Hæstv. ráðherra þarf því ekkert að vera að snúa út úr eða reyna að gera þetta minna verk en það er því að þetta verk er búið til af hagfræðingi sem er einhver menntaðasti hagfræðingur þjóðarinnar en hefur verið settur út á kaldan klaka vegna þess kannski að hann er menntaðri en fjmrh. og bankamálaráðherra í sínu fagi. Það er enginn annar hagfræðingur á Íslandi sem hefur skólagöngu á við þann hagfræðing sem bjó til frv. Ég efast um að með reynslu hans og starf í Kanada fyrir þjóðbanka þar og ríkisstjórnina að nokkur annar Íslendingur hafi meiri starfsreynslu erlendis sem hagfræðingur en einmitt sá sem bjó frv. til fyrir hv. flm. Athugasemdir ráðherra eiga sér því ekki stað. Og að gera 3. gr. tortryggilega vegna þess að einhverjir og einhverjir aðilar geti tekið lán, ef hún yrði samþykkt, fyrir einhverjum óarðbærum framkvæmdum. Guð almáttugur, það er alltaf verið að taka lán fyrir óarðbærum og arðbærum framkvæmdum og því verður aldrei breytt. Það er alveg sama hvaða kerfi við komum með. Framkvæmdirnar eru alltaf mismunandi óarðbærar og mismunandi arðbærar. Og hver er maður til að meta það? Það er bara sá sem fer út í framkvæmdirnar. Hann fer út í þær vegna þess að hann telur þær góðar fyrir sig. Ef hann fær lán er það hans mál og banka eða peningastofnana sem lána honum. Hann er furðulegt kratafyrirbæri, þessi hugsunarháttur.

Ég er hins vegar sammála hæstv. ráðherra þegar hann talar um fjármögnunarfyrirtækin. Ég er líka sammála þeim sem tala um að bankar séu of margir. En það eru ekki of margir bankar vegna þess að ríkisbankarnir séu of margir. Þeir eru orðnir of margir af því að það eru komnir miklu fleiri bankar, allir þessir einkabankar sem ég og aðrir einkaaðilar höfum barist fyrir því að fá að stofna og tekið þátt í að stofna. Það er hægt að segja að þeim sé ofaukið frekar en því sem var fyrir. Og þegar við erum að tala um fjárfestingarfélögin og fjármögnunarfyrirtækin sem eru að koma núna, þá átti aldrei að hleypa þeim af stað án þess að setja yfir þau strangar reglur, strangari reglur en bankarnir verða að þola sjálfir, sjálfir ríkisbankarnir sem Alþingi er ábyrgt fyrir. Auðvitað átti að setja þeim strangar reglur strax og þá fyrst og fremst um eigið fé. Í dag starfa þau þannig að þau hætta engu eigin fé. Þau eru bara með lánsfé og í mörgum tilfellum eru ábyrgðirnar kannski allt annarra en þeirra sjálfra.

Ég hefði gaman af að sjá þessa hagspekinga, og eiginlega hvað það er nauðsynlegt þjóðarinnar vegna að þessir eldkláru menn sem eru sjálfir alveg sannfærðir um að það sé enginn menntaðri eða færari til að standa í viðskiptum og þá stærstu viðskiptunum fyrir hönd þjóðarinnar, reka eitthvert fyrirtæki sjálfir og sýna þjóðinni hvernig eigi að standa faglega að málunum. Það gera afskaplega fáir af þessum langskólamenntuðum hagfræðingum sem læra teoríur sem eru úreltar daginn eftir að þeir lesa þær. Hvað eru þessar teoríur? Þær eru uppsöfnuð reynsla þeirra sem standa í atvinnulífinu sem er skráð á bók. Ég hefði gaman af að sjá þá reka eitthvað sjálfir. (Gripið fram í: Það á bara að reka þá.) Ja, þeir hafa unnið til þess og við erum að því í stjórnarandstöðunni að reyna að reka þá. En ég er ansi hræddur um að það verði ekki neitt lagfært á meðan menn eru við völd sem hafa ekki trú á því að það sé hægt að gera hlutina.

Hvað oft höfum við ekki heyrt ágætan þm., hv. 3. þm. Norðurl. e. tala akkúrat um þessi mál hvað vextirnir séu orðnir hættulegir, hvað vísitalan sé orðin hættuleg, hvað þetta og hitt sé orðið hættulegt, sem er í algjörri andstöðu við framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í dag. Og er hann þó tryggur stjórnarstuðningsmaður.

Ég hef margoft frá þessum ræðustól og ég hef margoft í ríkisstjórn þegar ég var fjmrh. borið saman þá aðgerð að fella niður vísitölu á launum og halda lánskjaravísitölunni og bent á hvað það þýddi og hvað það þýðir. Það er hægt að fella niður launavísitölu tímabundið. Það er hægt að vera með verðstöðvun tímabundið, en það er ekki hægt að vera með lánskjaravísitölu í gangi endalaust ef launavísitala er ekki í gangi. Það er útilokað. Það er alveg útilokað að vera með verðstöðvun. Þið getið sett á lög og bannað verðhækkanir, en við ráðum bara ekkert við það. Við flytjum inn 80–90% og jafnvel yfir þá tölu. Hvernig eigum við að fara að því að láta útlendinga, sem framleiða þær vörutegundir sem við þurfum að flytja inn, skilja að það eru lög á Íslandi sem banna hækkun á vörunni, að hráefnið hækki, að verksmiðjan þurfi að borga meira fyrir hráefnið og þar af leiðandi verði vöruverðið út úr verksmiðju hærra en það megi ekki hækka það þegar varan kemur á markaðinn á Íslandi? Það er hægt að halda verðstöðvun á meðan birgðir, sem fyrir eru í landinu, endast, en hún springur endanlega hvað sem lög segja til um. Á meðan við höldum að við getum haldið niðri verðgildi krónunnar sem býr í orku mannsins sjálfs en haldið áfram að auka verðgildi þeirrar krónu sem sá sami maður þarf að fá að láni, það er kerfi sem springur. Annaðhvort springur kerfið sjálft í höndum opinberra aðila eða fólkið sem þarf á þessari krónu að halda, þessari dýru krónu, springur og það er akkúrat það sem er að gerast núna. Fyrirtækin og fólkið eru að springa.

Ég hef tekið dæmi, sem ég er með í vasanum, ég geng með það, af manni sem fékk 80 þús. kr. lán 1980 og hefur alltaf staðið í skilum bæði með afborganir og vexti. Hann skuldar 539 þús. kr. í maí 1985, fimm árum seinna. Ég hef líka sagt að við erum að blekkja ungt fólk. Við erum að plata það til þess að taka lán hjá lánastofnunum og telja því trú um að það geti eignast þak yfir höfuðið þegar staðreyndin er sú að við erum að festa það í skuldafjötrum sem enda með því að viðkomandi aðili á ekki neitt þegar upp er staðið og opinberir aðilar sem fengu hann til að taka lán á unga aldri eiga meira en verðmæti íbúðarinnar sem hann byggði yfir höfuðið í upphafi. Þetta gengur ekki.

Ég verð að segja alveg eins og er að 6. gr. er að því leyti frábrugðin því sem ég hef verið að tala um að hún talar um að við gildistöku laga þessara hætti verðtrygging samkvæmt lánskjaravísitölunni gagnvart öllum nýjum fjárskuldbindingum. Ég vil að lánskjaravísitalan verði felld niður og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það eru alls konar samningar í gildi sem gera þetta erfiðara en ella. En það kemur að því að ríkissjóður getur ekki alltaf boðið hærri vexti og kannski afföll af bréfum sem hann þarf að selja til að standa í skilum við þá sem eiga bréf og fallin eru í gjalddaga. Það er ekki hægt endalaust að taka erlend lán alltaf pínulítið hærri til að standa í skilum með fyrri erlendar lántökur. Það endar með því að kerfið springur hjá ríkisstjórninni alveg nákvæmlega eins og hjá einstaklingi sem getur í ákveðinn fjölda skipta komið til bankastjóra og fengið framlengingu en það kemur að því að bankastjórinn segir: Nei, nú verður þú gerður upp, góði minn. Það er ríkisstjórnin sem spólar upp vexti, það er ríkisstjórnin sem spólar upp afföll af bréfum og það er ríkisstjórnin sem spólar upp verðbólguna. Ef hæstv. bankamálaráðherra ætlar að bíða eftir því að ríkisstjórnin nái niður verðbólgunni og ríkissjóðshallanum með þessum vinnubrögðum verður það aldrei. Það er alveg ljóst og það fer fyrir ríkisstjórninni eins og einstaklingnum. Hún bara hreinlega fer á hausinn. Það hefur komið fyrir önnur lönd af sömu ástæðum að tapa sjálfstæði sínu og fara á hausinn.

Ég fagna því að hæstv. bankamálaráðherra er um það bil að koma fram með frv. um fjármögnunarstarfsemi utan banka. Ég gat þess á meðan hæstv. ráðherra var frammi ... (Dómsmrh.: Ég var í símanum, því miður.) Ég veit ekkert af hverju, það gat alveg eins verið að þú hefðir farið niður á næstu hæð. Það skiptir mig engu máli, þú varst frammi. Ég gat þess að frv. og þessar reglur um fjármögnunarstarfsemi átti auðvitað að setja áður en fjármögnunarstarfsemin fór af stað. Og það þýðir ekkert að kvarta undan því að hér séu of margir bankar. Bankarnir voru ekkert of margir þegar aðeins voru ríkisbankar. Það sem er umfram í bönkum er tilkomið löngu eftir að ríkisbankarnir voru þrír og ég minnist þess ekki að nokkur maður hafi kvartað undan því að það væru of margir bankar meðan ríkisbankarnir voru bara þrír. En ég minnist þess að það hefur verið kvartað undan því að bankarnir væru of margir síðan þeir urðu fleiri. Ég tek það fram og endurtek af því að ég er búinn að gera það einu sinni að ég var einn af þeim sem heimtuðu banka og vann að því að prívatbanki yrði settur á laggirnar. En ekki gerði ég ráð fyrir að þeir yrðu jafnmargir eða jafnvel fleiri en ríkisbankarnir sem fyrir voru.

Og annað. Á sama tíma og verið er að sprengja peningakerfið á þennan hátt er búið að gera alla sparisjóði í landinu að bönkum. Þeir starfa eins og bankar. Það er enginn munur á starfsemi bankanna og starfsemi sparisjóðanna. Það er munur á ábyrgðum og ég hefði gaman af að fá upplýsingar um það frá hæstv. bankamálaráðherra hvað hann ætlar að gera í þeim málum. Það eru gerðar ákveðnar kröfur til bankanna um tryggingar en það eru bara ábyrgðarmannatryggingar hjá sparisjóðunum sem eru engar tryggingar. (Dómsmrh.: Það er líka komin innlánstrygging hjá þeim.) Innlánstryggingin, var það ekki tvöföldun á ábyrgðarmannatryggingunni sem er nokkur hundruð kr. á mann? (Gripið fram í. ) Þetta er mjög, mjög lítil trygging og er engin trygging og ég hefði gaman af að vita, af því að búið er að taka einn ríkisbanka og skoða hann og það reyndist ástæða til þess að gera sérstakar ráðstafanir gagnvart honum: Hvernig stendur þjóðbankinn, sjálfur Landsbankinn? Hvernig stendur Iðnaðarbankinn? Þetta eru bankar sem við erum nýlega búnir að lesa um að hafi mjög stórar upphæðir í útlánum til fárra aðila. Það stóð í blöðum núna fyrir nokkrum dögum að það væri komið hátt á annan milljarð. Ég held að það hljóti að vera miklu meira bara í hluta af Sambandinu í Landsbankanum. Ég var að heyra að einn iðnrekandi hefði fengið stórlán, 600 millj. kr. var sagt í mín eyru, úr Iðnaðarbankanum. Þolir Iðnaðarbankinn slíkt? Hvernig standa þessi mál? Af hverju er þetta ekki skoðað?

Nei, það er full ástæða til og ég tek vel undir það með hæstv. bankamálaráðherra að fjármagnsstarfsemin í landinu þarf að skoðast miklu betur en bara því að skoða með árás á einn ríkisbanka. Það er allt annar hlutur. Ef á að skoða peningamálin í landinu, endurskoða bankakerfið, verður að gera það í heild sinni en ekki með einhverjum fordæmum.

Ég átti einu sinni því láni að fagna að búa erlendis og vann ágætlega fyrir mér og þurfti að geyma mína peninga í banka meðan ég bjó þarna. Þegar talað var um neikvæða vexti var það af því að tekið var fyrir að geyma peningana. Allt sem þú færð fyrir peningana er jákvætt. Það er hins vegar búið að búa til alls konar hugtök af þessum blessuðu hálærðu sérfræðingum sem hvergi nokkurn tíma, eða ég hef ekki séð það, sýna hvað þeir geta rekið sjálfir á eigin ábyrgð. Það hafa verið búin til hugtök sem fólkið í landinu skilur ekki. Það bara skilur ekki hvað menn eru að tala um. Ég verð að segja það alveg eins og er að það er ekkert auðvelt að fylgjast með öllum þessum hugtökum sem koma frá einum tíma til annars og þýða kannski nákvæmlega það sama og önnur sem voru til fyrir. Hér eru ekki neikvæðir vextir í þeim skilningi sem ég lærði um erlendis og sem ég lærði um á verslunarskóla erlendis. Það er bara ekki til vegna þess að ég hef aldrei vitað að við þyrftum að borga fyrir það að geyma peningana okkar í peningastofnunum hérna. Það voru neikvæðir vextir af því að þú þurftir að borga. Viðskiptavinurinn borgaði fyrir að hafa geymslustað fyrir peningana. Allt annað, þið getið kallað það raunvexti, þið getið kallað það vexti, þið getið kallað það hvað sem þið viljið, það sem peningarnir kosta manninn sem þarf að nota þá, eru vextir. Það er verðið á peningunum og það eru vextir. Það eru kannski 30–40% í dag og það er ekkert fyrirtæki á landinu sem hefur álagningu til að standa undir slíku. Það er ekki til. Og alveg eins og ríkissjóður þurfa fyrirtæki þess vegna að vera að taka fleiri og stærri lán til þess að standa undir rekstrinum frá einum degi til annars, til þess að geta borgað út laun og fleira. En vextirnir éta þetta smám saman upp. Þess vegna á þetta frv., sem hér er lagt fram á þskj. 279, fyllilega rétt á sér þó það sé óþarft. Þó það geri ekkert annað en að vekja upp umræður og fá menn til að hugsa um hvað er að ske. Allt sem hefur skeð er af mannavöldum og af því að það er af mannavöldum en ekki frá almættinu og heldur ekki að neðan, þá er það mannanna að breyta því aftur þó svo það þurfi að breyta því með skyndiákvörðun sem kemur illa við þá sem eiga mikla peninga og kemur illa við þá sem hafa gert samninga sem ekki er hægt að standa við á kostnað þjóðfélagsins. Því að samningarnir um lánskjaravísitölu eru á kostnað hins almenna borgara í landinu. Og það eru hinir fáu sem eiga fjármagnið sem koma í veg fyrir það að hægt sé að afnema lánskjaravísitölu á nákvæmlega sama hátt og miskunnarlaust af mér og öðrum sem þá voru í ríkisstjórn var farið að afnema launavísitöluna þannig að krónan í manninum sjálfum er verðminni en krónan sem hinir fáu auðmenn á Íslandi eiga sem geyma ekki fé sitt í bönkum heldur í bréfum. Og það eru þessir viðkvæmu fáu sem ráða sem segja nei. Lánskjaravísitalan skal vera áfram og launavísitalan skal dauð um aldur og ævi. Það þýðir að við og peningastofnanir söfnum eignum hinna sem minna mega sín.

Það hefur svolítið verið rætt um það, m.a. heyrði ég hæstv. bankamálaráðherra tala um það, að nú þyrfti að koma að því að hleypa inn erlendu fé til þess að útlendingarnir sjálfir tækju ábyrgð á sínum lánum og ríkið þurfi ekki að veðtryggja greiðslur heldur taki útlendingarnir, erlendir bankar, þátt í lánastofnunum hér og bönkum og þar með er okkar mál leyst. En ég segi ekkert annað en guð almáttugur, ef þetta er hin stóra hugsjón ríkisstjórnarinnar um þessar mundir. Hvað haldið þið að yrði um það Litla kapítal sem til er á Íslandi? Því að það fé sem er í umferð á Íslandi og er íslenskt er lítið. Það er miklu minna en margan grunar. Margt af því sem við sjáum hér, verksmiðjuhús og alls konar framkvæmdir, orkuverin öll, er erlent fé. Og hvað haldið þið að útlendingar sem kæmu hingað væru lengi að fjárfesta í því sem gefur mest? Og hvað er það? Það er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Við ættum ekkert í honum eftir mjög skamma stund því það eina sem gefur eitthvað af sér á Íslandi er undirstöðuatvinnuvegur þjóðarinnar. Auðvitað færi erlenda kapítalið beint í undirstöðuatvinnuvegina, þar ávaxtast það, hvergi annars staðar. Sjávarútvegurinn stendur undir öllum okkar útgjöldum. Ég ætla að leyfa mér að vara við þessari hugsun.

Erlent fé er gott að vissu marki undir ströngu eftirliti. Þar þýðir ekkert að bera saman og segja: Við eigum að haga okkur eins og allir aðrir vegna þess að hagfræðin segir að kenningarnar gildi alveg jafnt fyrir okkar litla þjóðfélag eins og fyrir stóru þjóðfélögin. Það er rangt. Jafnvel stóru þjóðfélögin gera allt sem þau geta til þess að nota eigið fé og sem allra minnst af erlendu fé. T.d. ætla ég að benda á, svona til þess að hæstv. bankamálaráðherra átti sig á hvað ég er að segja, það stríð sem á sér stað núna milli ítalskra iðjuhölda sem eru að reyna að kaupa General (?) í Belgíu vegna þess að það á að gera Evrópumarkaðinn að einum sameiginlegum markaði innan fárra ára. Það er stórstríð sem stendur á milli þessara landa núna til að ná yfirráðum yfir þjóðarframleiðslu hvers lands fyrir sig. Haldið þið að við verðum eitthvað öðruvísi settir, í öðruvísi klemmu en þessi stóru lönd eru sín á milli núna? Stríðið er hafið á milli stórfyrirtækja. Ég ætla að biðja hæstv. ráðherra um að vera vel vakandi í þessum málum og engum treysti ég betur en einmitt þessum einstaklingi, Jóni Sigurðssyni, til að vera vakandi yfir þessu. Á svona tímum, þetta á ég náttúrlega sem stjórnarandstæðingur alls ekkert að segja, er mér ekki sama hver er í bankamálaráðherrastöðu, en ég treysti einstaklingnum Jóni Sigurðssyni. Þegar ég orða þetta á þennan hátt þá er það vegna þess að ég treysti ekki pólitískum meðbræðrum og flokkspólitíkinni sem hann hyllist í þeim málum. Það er svolítið annað, svolítill blæbrigðamunur.

Við skulum að sjálfsögðu hafa eins mikið frjálsræði í viðskiptum við aðra eins og hægt er, eins og við þolum. En við þolum ekki fjármagnsmarkaðinn eins og hann hefur verið settur af stað, við þolum hann ekki, það er alveg ljóst og við þolum ekki frjálst innstreymi af erlendu fjárfestingarfé og þátttöku útlendinga í peningastofnunum hér.

Virðulegur forseti. Ég ætla nú ekki að hafa þessi orð mikið fleiri. Fjármagnsstarfsemi og frv. um hana er að sjálfsögðu fagnaðarefni eins og ég hef sagt en mér finnst eins og þegar talað er um frv. um fjármagnsstarfsemi þá sé verið að boða komu okurlaganna á ný. Og ég held að það hafi verið ákaflega slæmt skref þegar einhvern veginn brenglaðist það mál allt þannig í meðferð að okurlögin duttu bara hreinlega niður og út. Líklega vegna þess að stærsti okrarinn var Seðlabankinn sjálfur sem greiddi 30% fyrir bindifé en tók 200% í vexti af yfirdráttarfé bankanna, af rekstrarfé bankanna, af vinnutæki fólksins í landinu því peningarnir eru ekkert annað en vinnutæki. Þú gerir ekkert án þess að hafa fé. Þú gerir ekkert án þess að hafa peninga. Þú vinnur með peningum. Þjóðfélagið gengur á þeim. Og öll verkfæri kosta ákveðið. En þegar verkfærunum er safnað saman af Seðlabankanum og leigð út aftur mörgum sinnum dýrara en eigandinn fær fyrir innlánsfé, þá segir sig sjálft að smám saman dregur þessi eina stofnun að sér allt ráðstöfunarfé viðskiptabankanna. Þessu hefur nú verið breytt en þessu hefur ekki verið hætt, bara gert á annan hátt núna. Það er gert á þann hátt að það er flóknara en áður og erfiðara fyrir fólk að skilja almennt hvað er að ske. Það er engu hætt, kerfið er bara öðruvísi. Það er þessi blekkingarstarfsemi sem er hættuleg. Hún er stórhættuleg. Það er nú það.

En ég er sammála hæstv. ráðherra um margt sem hann sagði. Sumt var nú hálfkveðið sem ég hefði viljað vita meira um, t.d. þegar ráðherra segir: Við lögum ekki vandann eða læknum ekki neitt — ef ég má nota mín orð, það er það sem ég skildi hjá ráðherranum — meðan við ekki ráðumst að rótum vandans. Þetta er alveg rétt. En þegar við erum svo heppnir að hafa efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar til margra ára, margra ríkisstjórna, í ráðherrastól, þá væri gaman að vita eitthvað meira. Eins og t.d.: Hvar eru rætur vandans? Getum við í stjórnarandstöðunni hjálpað ráðherranum við að ráðast að rótum vandans þannig að þetta megi verða betra og öruggara þjóðfélag? Þá held ég að það taki ekki langan tíma að sameina stjórnarandstöðuna ef hæstv. ráðherra vill segja okkur hvað við getum gert til að komast að þessum rótum og unnið með honum að því að laga vandann. Ég fyrir mína parta og Borgarafl. býð hæstv. ráðherra samstarf ef hann vill bara vísa veginn.

Virðulegur forseti. Klukkan er nú að verða fimm og ég reikna með að þessi fundur eigi ekki að standa mjög mikið lengur svo ég ætla að ljúka orðum mínum með því að þakka flm. fyrir að hafa komið fram með þetta frv. Hvort sem það verður samþykkt eða ekki samþykkt, þá hefur það dregið athygli að vanda sem er að sliga þjóðfélagið. Þetta er vandi sem hægt er að leysa að mínu mati, hvað sem hæstv. ráðherra kann að segja eða þó hann kunni að hafa aðra skoðun á þeim málum, og þá á ég við vaxtaþáttinn. Og um lánskjaravísitöluþáttinn í 6. gr. vil ég segja að ég mun styðja hana með mínu atkvæði þó að mér finnist hún ekki ganga nógu langt með því að lánskjaravísitöluna eigi að fella niður samkvæmt henni af öllum nýjum fjárskuldbindingum. Ég hefði viljað hafa það víðtækara og fella bara niður lánskjaravísitöluna á sama hátt og launavísitalan var felld niður með einu pennastriki. Það kemur við marga, það veit ég, en ég held að það komi lítið við marga af þeim sem minna mega sín og áreiðanlega ekkert við allan þorra landsmanna sem skulda, eru í skuldasúpu vegna lánskjaravísitölunnar heldur hina sem eiga eitthvað verulegt og kannski mikið magn af peningum inni í lánskjaravísitöluvæntingum.