10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4409 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. á þskj. 558 um brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála. Frv. þetta er samið í viðskrn. og kveikjan að gerð þess er reyndar fyrirhuguð útgáfa á lagasafninu síðar á þessu ári. Í lagasafninu úir og grúir af ákvæðum sem ekki hafa gildi lengur en verða ekki felld niður sem gildandi lög í landinu án atbeina Alþingis. Ég vil því beita mér fyrir því sem nefna mætti lagahreinsun og er unnið að því verkefni varðandi þá málaflokka aðra sem ég fer með í ráðuneyti Þorsteins Pálssonar. Reyndar má skipta úreltum ákvæðum í lagasafninu í tvo flokka. Í fyrri flokkinn falla lög sem framkvæmd hafa verið samkvæmt sínu efni. Það er auðvitað óþarfi að birta slík einnota lög lengi í lagasafninu en hins vegar verða slík lög ekki niður felld nema með lögum.

Ég get tekið dæmi um slík lög af handahófi, t.d. lögin um ráðstöfun á gengishagnaði af útfluttum sjávarafurðum, nr. 79 frá 29. des. 1967. Í hinn flokkinn falla svo lög sem eru að formi til í fullu gildi en algjörlega er hætt að framfylgja. Þar mætti t.d. nefna lagaákvæði um siðferði presta sem er að finna í lögum um kirkjunnar mál. Þótt biskup og starfsmenn þess ráðuneytis sem ég stýri og fer með kirkjumál hafi mikinn áhuga á því að málefni þjóðkirkjunnar séu í góðu lagi og þar sé framfylgt réttum lögum, þá hefur siðferðismat þjóðarinnar breyst á þeim öldum sem liðnar eru frá því ýmis ákvæði af þessu tagi voru í lög leidd og menn framfylgja þeim reyndar ekki á okkar dögum.

Þá mætti líka nefna lög sem enga merkingu eða áhrif hafa lengur en eiga sína sögu, t.d. lögin um friðun héra, sem voru sett í tilefni af fyrirhuguðum innflutningi á þeirri dýrategund til þess að drýgja bú bænda í landinu. Slík lög þarf að fella niður með formlegum hætti hér á þingi ef það er vilji löggjafans. Ritstjórar lagasafnsins geta ekki tekið upp á eigin spýtur ákvarðanir um það að hætta að birta svona lög í safninu.

Frv. sem við ræðum hér í dag fjallar að meginefni til um niðurfellingu gamalla og úreltra ákvæða, um löggilta verslunarstaði og mörk verslunarlóða. Í frv. er lagt til að brott falli hvorki fleiri né færri en 118 lög og 10 lagagreinar úr öðrum lögum. Ef þingið samþykkir að fella þessi lagaákvæði brott, þá styttast dálkar lagasafnsins um 177,2 cm, eða sem svarar hæð á meðalmanni, líklega meðalþingmanni. Næsta útgáfa á lagasafninu mun því þynnast sem þessu nemur. En lagasafnið hefur því miður almennt lotið því lögmáli að vaxa að blaðsíðutali frá einni útgáfu til annarrar. Löggjafarsamkundan hefur e.t.v. ekki sinnt því nægilega vel að hún á bæði að gefa og taka. Gefa ný og gagnleg lög, en taka úr gildi önnur sem enga merkingu hafa eða eru til óþurftar.

Í grg. frv. eru raktar helstu ástæður þessarar lagasetningar á hverjum tíma. Hér er vissulega um að ræða merkilegt atriði í framfarasögu þjóðarinnar sem varðar löggildingu verslunarstaða, en í dag hefur sú löggilding engin réttaráhrif ef frá eru skilin ákvæði þau í 9. gr. laganna um verslunaratvinnu sem lagt er til í frv. að haldist óbreytt. Það er ekki farið eftir lögunum hvað varðar mörk verslunarlóða. Það má t.d. nefna að skv. gildandi lögum um verslunarlóðina í Reykjavík nr. 13 frá árinu 1903, sem enn eru birt í dálki 1425 í lagasafninu, má ekki versla í Reykjavík vestan við Kaplaskjólsveg eða austan við Rauðarárstíg. Viðskrn. treystir sér ekki til að beita slíkum ákvæðum, enda þjóna þau engum skynsamlegum tilgangi lengur. Verslunin dafnar um allt land en margir staðir, sem löggiltir voru sem verslunarstaðir, eru nú blómlegir þéttbýlisstaðir. Aðrir slíkir staðir risu aldrei undir nafni sem verslunarstaðir þar sem framtak einstaklinga og aðstæður aðrar til verslunar reyndust ekki alltaf í samræmi við hugsjónir þeirra sem beittu sér fyrir löggildingunni.

Verslunarþjónustu er nú markað landsvæði með umfjöllun um aðalskipulag sveitarfélaga og öll sveitarfélög eru nú skipulagsskyld. Því er óhætt að fella úr lögum öll ákvæði sem varða verslunarstaði. Lögin um löggildingu verslunarstaða eru hins vegar merkileg gögn um þátt í löggjöfinni, þátt í samfélagsþróun hér á landi og munu sagnfræðingar og aðrir fræðimann vafalaust fjalla mikið um það efni í framtíðinni.

Í 1. kafla frv. er fjallað um breytingar á ákvæðum í lögum um verslunaratvinnu, nr. 41 frá 10. maí 1968, en þar er nú vitnað til löggiltra verslunarstaða. Þar er ekki um neina efnisbreytingu að ræða heldur eingöngu vitnað til þess sem ég sagði hér áðan.

Í 2. og 3. kafla er fjallað um brottfall laga sem varða löggildingu verslunarstaðanna og um verslunarlóðirnar og 4. kaflinn fjallar svo um brottfall laga frá 1925, um sérstaka fiskifulltrúa á Spáni og á Ítalíu, og um brottfall laga frá 1933, þar sem ríkisstjórnin fékk heimild til að gera ýmsar ráðstafanir vegna viðskiptasamninga við bresku stjórnina.

Hæstv. forseti. Það er von mín að í framhaldi af þessu frv. muni fleiri slík frv. koma fram á þinginu. Það er að mínu áliti öldungis óviðunandi að í lagasafninu séu prentuð sí og æ lög sem ekki ber að fara eftir, lög sem úrelt eru orðin. Slíkt getur valdið réttaróvissu í þjóðfélaginu og dregur úr virðingu fyrir lögunum. Í þessu felst alls ekki sú hugmynd að það eigi að ryðja góðum og gömlum lagaákvæðum úr lagasafninu eingöngu fyrir elli sakir heldur eingöngu að lagasafnið sé spegill af raunverulega gildandi löggjöf á hverjum tíma að vilja löggjafans.

Ég hef rætt þetta mál við samstarfsráðherra mína og ráðuneytisstjórinn í dóms- og kirkjumrn. hefur tekið mál þetta upp við ráðuneytisstjóra allra annarra ráðuneyta.

Vorið 1985 kaus Alþingi sérstaka nefnd til að vera til ráðuneytis um framkvæmd þál. um lagahreinsun og samræmingu laga en árangur af því nefndarstarfi hefur enn ekki orðið. E.t.v. tekur nú nefndin við sér. Ég hygg að hún muni lítt hafa starfað fram til þessa.

Ég tel þó heppilegast að hvert ráðuneyti kanni sjálft og standi fyrir tillöguflutningi um brottfall laga á sínu sviði. Lagasafnið á ekki að vera eilíf safnþró fyrir lögin heldur þarf jafnt að hugsa um það að fella brott úrelt lög og úrsérgengin og að bæta nýjum við. En auðvitað þarf löggjafinn að leggja sjálfstætt mat á slíkar tillögur hverju sinni.

Ég vona að þetta frv., sem ég tel vera þarfa nýjung í löggjafarstarfinu, verði upphaf að vorhreingerningu í lagasafninu á vegum allra ráðuneyta.

Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.