10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4411 í B-deild Alþingistíðinda. (3046)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. ráðherra ríður hér á vaðið með nokkrum dugnaði í máli sem nokkuð hefur verið til umræðu undanfarin ár, þ.e. endurskoðun lagasafnsins og hreinsun eða brottfelling ákvæða sem þar eru úrelt orðin. Í framsöguræðu svaraði reyndar hæstv. ráðherra nokkru af því sem ég ætlaði að spyrja hann um. En ég sé samt ástæðu til að inna frekar eftir því hvað líður stefnumörkun í þessu máli í heild. Þó að því sé vel sinnt og af dugnaði í einstöku ráðuneyti þá leysir það ekki þann vanda sem ræddur var hér í tengslum við almenna endurskoðun þessara mála og var grundvöllur þál. sem samþykkt var um það efni á sinni tíð og nefndaskipan eins og hæstv. ráðherra vitnaði til.

Ég hef þá afstöðu í þessu máli að móta þurfi reglur um það við hvað skuli styðjast þegar ákveðið er hvaða ákvæði skulu brottu felld og hverju megi að skaðlausu halda í lagasafni. Ég er þeirrar skoðunar, eins og fleiri hv. þm., að sum forn ákvæði megi gjarnan standa í lagasafni þjóðarinnar þó að þau hafi kannski ekki stórkostlegt hversdagslegt gildi. Ég minni á í því sambandi að enn er það svo að hæstaréttardómar falla inn á milli rökstuddir með eða grundvallaðir á ákvæðum forns réttar, til að mynda ákvæðum Jónsbókar. Og þó það sé yfirleitt á einhverjum afmörkuðum sviðum, þá sýnir þetta svo ekki verður um villst að ástæða getur verið til þess að láta forn ákvæði réttar halda sér þar sem það á við.

Með þessu er ég ekki að segja að það sé ekki heilmargt sem falla má brott úr lagasafninu. Og ég get út af fyrir sig stutt það að þessi ákvæði um löggildingu verslunarstaða eru nokkuð úrelt orðin í flestum tilfellum og óþörf. Þó er það þannig að viss söguleg eftirsjá er að því að úr lagasafninu falli þessir staðir. Á bak við löggildingu þeirra er ákveðin saga og þetta vitnar um ákveðið hlutverk sem þessir staðir léku á sinni tíð eða þeim var ætlað. Þarna fellur niður sem verslunarstaður Hraunhöfn á Melrakkasléttu, svo dæmi sé tekið, hvar veginn var Þorgeir Hávarsson og heygður er skammt frá og lesi menn lagasafn og sjái þennan stað rifjast auðvitað upp sú saga. Það er kannski ekki nægjanleg réttlæting til þess að hafa það inni í lagasafni, en ég nefni þetta dæmi og fleiri mætti taka til þess að sýna að á tölvuöld er e.t.v. ekki svo óskaplegt óhagræði að því þó að lagasafnið sé eitthvað ítarlegra, eitthvað þykkari bók en ella. Ég held að af nærgætni eigi að skoða hvaða ákvæði mega að skaðlausu halda sér sögunnar og menningarinnar vegna og einnig með það í huga að ákvæði forns réttar geta stundum ráðið úrslitum jafnvel við hæstaréttardóma.

Ég óska svo skýringa á einu atriði í athugasemdum við frv. sem ég ekki skil og ég get ekki neitað því, herra forseti, þó að ég ætli ekki að fara að hafa hér uppi gamanmál að mér varð á að glotta þegar ég las vísu sem prentuð er efst á bls. 6 í frv. Þar hefur annaðhvort orðið stórfelldur misskilningur höfunda frv. eða meinleg prentvilla. Ég vil gjarnan þeirra vegna trúa að um sé að ræða prentvillu því að mig grunar að gott og gilt íslenskt orð eigi að standa þar fyrir orðið „skötur“. Vísan er prentuð með eftirfarandi hætti, með leyfi þínu, forseti, efst á bls. 6 og er eignuð eða kennd gömlum Borgfirðingi en grunur leikur á um að Pétur Pétursson, síðar biskup, hafi komið vísunni á flot. Hún er svohljóðandi:

Kaupstaður á Skipaskaga

skötunum verður mjög til baga

eftir sig hann dilk mun draga

drykkjurúta og letimaga.

Vísan er náttúrlega skemmtileg og ágæt í þessu samhengi, en væntanlega ætti þarna að standa orðið skötnum, sbr. skati og veifiskati, og skil ég þá vísuna, en ef ekki er um prentvillu að ræða eru hér alveg ný vísindi á ferðinni fyrir mig. Ég vil samt ekki að þessi meinlausa prentvilla verði til þess að þessi skemmtilega nýbreytni að halda í ofurlítið af sögunni og kveðskaparhefðinni þegar menn eru að vinna að löggjafarstörfum — ég vil alls ekki að hún verði eða skiljist af minni hálfu sem nokkur andstaða við það, þvert á móti. Hins vegar er nauðsynlegt að rétt sé með farið og því er rétt að athuga hvort ekki þurfi að leiðrétta þetta í endurprentun.

Það er ekki mikið fleira, herra forseti, sem ég sé ástæðu til að segja um þetta að svo stöddu. Ég hefði út af fyrir sig talið æskilegt að hæstv. forsrh. hefði getað sagt okkur af því hvernig þessi mál stæðu í ríkisstjórninni allri. Ég dreg að sjálfsögðu ekki í efa góðan vilja hæstv. dóms- og viðskrh. og að hann sé maður til að hafa góða og farsæla forustu um þessi efni innan ríkisstjórnarinnar, en ég skildi hann og hans mál svo að honum hefði leiðst biðin eftir því að aðrir ráðherrar sýndu einhvern dugnað af sér í þessum efnum og því riði hann á vaðið með þessum hætti og ætla ég sem sagt ekki að lasta það en vildi gjarnan fá að heyra hvers er að vænta á öðrum sviðum.