10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4413 í B-deild Alþingistíðinda. (3047)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að lýsa því yfir að ég styð þetta frv. í aðalatriðum og mundi að sjálfsögðu telja það af því góða að gert verði átak í því að hreinsa lagasafnið með brottfalli úreltra laga og hvort sem við mælum það í mannhæðum, þingmannamannhæðum eða öðru er það að sjálfsögðu stefna sem hefur áður verið mörkuð og virðist framtak hæstv. viðskrh. lofsvert að þessu leyti til. Hins vegar tek ég undir það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e. að það er ekki alveg sjálfgefið að hreinsa út úr lagasafni gömul lög þó að lítið reyni á þau. Það getur verið þess eðlis að nauðsynlegt sé að styðjast við þau í mörgum tilfellum eins og lagasagan sýnir.

Það sem kom mér til að koma hér upp var aðeins angi af þessari hugleiðingu í sambandi við brottfall laga um löggilta verslunarstaði. Ég hnýt um nokkur atriði en þó einkum ein lög sem ég vil aðeins staldra við og fá rökstuðning hæstv. ráðherra varðandi þau. Það er nr. 27, lög nr. 5 frá 1890, um löggilding verslunarstaðar á Stapa í Snæfellsnessýslu. Arnarstapi eða Stapi í þessu tilfelli er einn af merkari stöðum hér á landi í sambandi við verslunarsöguna og raunar viðskiptasögu á ýmsum sviðum. Þar hafa oft og tíðum setið merkustu menn í okkar þjóðfélagi. Þessi staður á sér merka sögu og gegndi alltaf þýðingarmiklu hlutverki fyrr á tíð. Ég vil geta þess sérstaklega að á þessum stað er enn þá verslun og í dag er þarna mikill uppgangur á ný og við sem þjónum þessu kjördæmi, Vesturlandskjördæmi, erum mjög bjartsýnir ásamt með íbúum á þessu svæði á að þarna verði veruleg framþróun í næstu framtíð. Þess vegna finnst mér að þessi staður megi helst ekki missa þennan þátt í lagasögu þjóðarinnar og vildi fá skýringar á því af hverju hann er tekinn hér með þar sem þarna er starfandi verslun og hvort það væri nokkuð úr vegi frá hendi hæstv. viðskrh. að breyta þessu ákvæði að því er varðar þennan stað.