10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4414 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég vil eins og aðrir þeir þm. sem tekið hafa til máls frá upphafi þessa fundar fagna frv. og þakka hæstv. viðskrh. fyrir þá vinnu sem hann hefur hafið með eins konar hreingerningu á lagasafninu. Ég vil benda á það að í fjármálaráðherratíð minni lét ég taka út, bara til þess að skapa mér rök fyrir einmitt sams konar vinnu, allt sem snerti landbúnað og gefa það út í sérriti til þess að sýna hvað mikið af lögum væri í gildi um þann málaflokk sem hefði ekki þýðingu lengur. Árangurinn varð nú afskaplega rýr því að engin niðurfelling kom út úr þeirri miklu vinnu sem unnin var af einhverjum hæfasta lögfræðingi þessa lands sem er Páll Líndal og væri gott ef hæstv. ráðherra gæti tekið þau mál og leitt áfram innan ríkisstjórnarinnar þannig að hún skilaði því góða verki að hreinsa út lög sem ekki hafa lengur lagagildi. Ekki skal ég segja hvort þessi lög sem hér er lagt til að falli brott úr lagasafninu hafi það litla þýðingu eða enga þýðingu öllsömul að þau geti fallið brott. Hvað skeður ef löggilding verslunarstaðar er felld niður? Verslunarstaðurinn heldur áfram að vera til, en er hann þá ekki lengur löggildur eða þarf hann ekki löggildingu? Ég veit það ekki. En ég fagna alla vega þessari vinnu sem hefur verið lögð í þetta.

Ég bjó um nokkurra ára skeið á Ítalíu og það var ósjaldan sem viðskiptaaðilar höfðu samband við mig sem Íslending og héldu að ég gæti eitthvað aðstoðað þá við það að hafa frjáls viðskipti við landið en það var nú eitthvað annað. Í IV. kafla frv. er lagt til að lög nr. 5 frá 4. maí 1925, um fiskifulltrúa á Spáni og Ítalíu, falli úr gildi. Ég vona að þetta þýði að viðskipti við Ítalíu geti þá orðið frjáls, að þessi lög, þó að ég þekki þau ekki, séu þess eðlis að þau gefi einhverjum einum fiskifulltrúa þjóðarinnar einokun á markaðinum á Ítalíu og þá Spáni líka og það sé hér með verið að fella slík lög úr gildi. Nú veit ég ekki nógu mikið um þessi lög sem verið er að fella úr gildi til þess að geta sagt með neinni vissu að sú vinna sé unnin með þessari niðurfellingu laga. Það væri betra ef svo færi vegna þess að eins og er er ég sannfærður um að frjáls samkeppni er til bóta á þessum mörkuðum en ekki það fyrirkomulag sem verið hefur.

Sem sagt, ég bendi á þá vinnu sem var unnin, það sem er til sundurgreint í lögum. Æskilegt væri að hæstv. dóms- og viðskrh. gæti tekið það upp innan ríkisstjórnarinnar að þessu verki yrði haldið áfram. Ég þakka honum fyrir það sem komið er og lít á það sem byrjun á miklu starfi sem fram undan er í þessum málum vegna þess að þó ekki hafi komið annað út úr þeirri skoðun sem ég lét fara fram og var bæði kostnaðarsöm og mikil vinna var þó niðurstaðan sú að öllum var ljóst að þessi vinna sem nú er unnin og kynnt af hæstv. viðskrh. var löngu þörf og nauðsynleg.