10.02.1988
Neðri deild: 57. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4415 í B-deild Alþingistíðinda. (3051)

260. mál, brottfall ýmissa laga á sviði viðskiptamála

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vildi þakka hv. þingdeildarmönnum fyrir undirtektirnar við frv. Ég skil það svo að menn séu fylgjandi því að meginstefnu til. Ég vildi þó svara örfáum orðum ýmsu því sem fram hefur komið í máli þeirra sem talað hafa og ég vildi þá fyrst fjalla um það sem kom fram hjá hv. 4. þm. Norðurl. e.

Hann innti eftir stefnumörkun í málinu og það gerðu reyndar aðrir, bæði hv. 3. þm. Norðurl. e. og hv. 5. þm. Reykv., og kom það kannski óbeint fram í máli hinna sem töluðu. Ég nefndi þetta stuttlega í minni framsöguræðu. Ég hef tekið málið upp í ríkisstjórn og þar hefur verið samþykkt að hver ráðherra kanni hjá sér hvað til greina komi um brottfall úrsérgenginna laga á hans málasviði. Ég vonast til þess að því verði fylgt eftir. Ég hef líka beint þessu til embættismannanna í öllum ráðuneytunum fyrir milligöngu ráðuneytisstjórans í dómsmrn. Ég vona að á þessu verði framhald og ég mun svo sannarlega fyrir mitt leyti reyna að fylgja því eftir.

Ég vil þegar þetta er rætt taka það sérstaklega fram að auðvitað er aðdragandi þessa máls langur. Hann er m.a. þáltill. hv. 3. þm. Norðurl. e. Árna Gunnarssonar frá árinu 1984 og nefndin sem skipuð var í framhaldi af samþykkt þeirrar ályktunar. Ég geri ráð fyrir að eðlilegt sé að sú þingnefnd sem um málið fjallar leiti til þeirrar nefndar, sem hugsuð var að vera til ráðuneytis, þegar að því kemur.

Það er líka rétt sem kom fram hjá hv. 5. þm. Reykv. að hann lét taka saman mikið rit um rætur landbúnaðarlöggjafarinnar og um gildandi rétt á því málasviði. Það er mikið rit að vöxtum og gæðum sem Páli Líndal, hinn mætasti lögfræðingur, tók saman og vafalaust getur það orðið hjálplegt fyrir landbrh. þegar hann kemur með sínar tillögur um grisjun löggjafar á sviði landbúnaðar.

Ég vildi svo aftur koma nokkuð að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Norðurl. e. sem nú sem fyrr lýsir því sem ég giska á að hann kalli heilbrigða íhaldssemi í sínu máli. Hann vill halda fast við fornar dyggðir. Það er gott. Hann vill halda fast í forn lagaákvæði og fornan rétt þótt ekki reyni oft á það í nútímaþjóðfélaginu. Þetta er sjónarmið sem ég geri ráð fyrir að þm. deili margir með honum og hann lýsti líka eftir því sem ég held að hann hafi kallað nærgætni í niðurfellingu lagaákvæða. Ég treysti á nefnd þingsins í því að hún fari nærfærnum ljósmóðurhöndum um þetta frv. eins og önnur og meti þá einmitt sjónarmið eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. nefndi.

Út af vísunni sem er í grg. er þar skemmst frá að segja að það er hvorki Pétur Pétursson biskup né gamall Borgfirðingur sem bera ábyrgð á því að vísan birtist í skötulíki í grg. Auðvitað átti þetta að vera skötnum og hefur engum manni dottið annað í hug nema prentvillupúkanum. Og um þetta er ekki fleira að segja. Því miður glæptist góður fréttamaður Ríkisútvarpsins til þess að lesa prentvilluna upp í útvarpinu. Ég harma það en það er ekki honum að kenna, heldur prentsmiðjunni og prófarkalesaranum að sjálfsögðu og ég tek á mig fulla ábyrgð af þessari bagalegu prentvillu og fagna því að hv. 4. þm. Norðurl. e. gefur mér þetta beina tilefni til að leiðrétta þessa prentvillu í grg. rækilega. Þær kunna að vera fleiri. M.a. er ein hér í 11. tölul. 3. gr. frv. Þar á auðvitað ekki að vera „Protland eður Dyrhóla“ heldur „Portland eður Dyrhóla í Íslands suðuramti til að vera kaupstaðarpláz.“

Ég vildi svo út af máli hv. 1. þm. Vesturl. segja að ég tek undir með honum að það er ekki sjálfgefið að hreinsa út úr lagasafninu gömul lög þótt lítið reyni á þau. Það er einmitt þess vegna sem þarf að fjalla um þetta sem löggjafarmálefni.

Varðandi athugasemdir hans um 27. tölul. í 3. gr. um löggildingu verslunarstaðar að Stapa í Snæfellsnessýslu vil ég taka það fram alveg skýrt að um þann fornfræga og merka stað er ekki neitt sérstakt að segja í þessu sambandi. Þetta eru nákvæmlega sams konar lög og lagt er til að brott verði felld fyrir ýmsa aðra gagnmerka verslunarstaði og breytir engu um verslunarrétt eða verslunarstöðu á þeim stað og það er alls ekki meiningin að ræna staði afmælum sínum með því að fella þetta brott sem hætta gæti verið á og ég tel tillöguna sem fram kom í máli hv. 3. þm. Norðurl. e. og reyndar einnig í máli hv. 6. þm. Norðurl. e., að gefa út eins konar safnrit með lagasafninu yfir lög sem sögulegt gildi hefðu, vera málefni sem lagastofnun gæti lagt lið. Það er kannski ekki kjarni málsins, en ég vil því segja að það er alls ekki verið að leggja til að ræna staði sögu sinni, heldur eingöngu að vera ekki að fylla lagasafnið, sem á að vera starfstæki lifandi þjóðfélags, af ákvæðum sem hafa lítið með gildandi rétt að gera.

Hv. 6. þm. Norðurl. e. orðaði þetta á einfaldan hátt. Hann sagði: Það ætti að taka öll lög sem ekki hafa lagagildi úr safninu. En þarna er líka kjarni málsins geymdur sem er þessi: Hvað hefur lagagildi? Það getur löggjafinn í reynd einn dæmt um þegar um það er að tefla hvort eigi að taka eitthvað af lögbókinni eður ei. Ég vona að með þessu hafi ég svarað því sem til mín var beint og ítreka tillögu mína um að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.