11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4434 í B-deild Alþingistíðinda. (3059)

182. mál, strjálbýlisátak Evrópuráðsins

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég leitaði til Eyþórs Einarssonar, forstöðumanns Náttúrufræðistofnunar Íslands, út af þessu máli en hann er formaður nefndar sem fjallar um þátttöku Íslands í þessu strjálbýlisátaki.

Með leyfi herra forseta les ég svar hans, en tek fram að það var tilbúið fyrir áramótin en nokkuð hefur dregist að svara fyrirspurninni af ýmsum ástæðum. Kemur það fram í svarinu að það er útbúið á fyrra ári. Með leyfi forseta segir Eyþór Einarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands, svo:

„Til að fjalla um það hvort og þá með hvaða hætti Ísland ætti að taka þátt í strjálbýlisátaki Evrópuráðsins setti menntmrn. á laggirnar fimm manna ólaunaða nefnd embættismanna og eiga sæti í henni Eyþór Einarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofnunar Íslands og formaður Náttúruverndarráðs, Bjarni Guðmundsson, aðstoðarmaður landbúnaðarráðherra, Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, Unnar Stefánsson, ritstjóri Sveitarstjórnarmála, og Örn Bjarnason, forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins.

Þessi nefnd hefur haldið nokkra fundi. Hún er sammála um að Ísland eigi að taka þátt í þessu átaki þótt aðstæður hér séu að ýmsu leyti sérstæðar og margt af því sem áhersla er lögð á í öðrum Evrópuríkjum í þessu átaki eigi tæpast við hér.

Átakið var kynnt í 3. tbl. Sveitarstjórnarmála fyrr á þessu ári [þ.e. á síðasta ári]. Nefndin var einnig sammála um að miða þátttöku Íslands við síðara ár átaksins [þ.e. 1988] og mun snemma á því ári [þ.e. á þessu ári] ganga frá tillögu um það.“

Svarið er því: Gert er ráð fyrir að Íslendingar taki þátt í þessu átaki.