27.10.1987
Sameinað þing: 9. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

Stefnuræða forsætisráðherra

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Undir lok ræðu sinnar sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þá leið, er hann vitnaði í gamla grein eftir listaskáldið góða frá öldinni sem leið, að menn ættu fyrst og fremst að hugsa um heiður og velgengni landsins sem hjá öllum góðum Íslendingum ætti að vera í fyrirrúmi. Við heyrðum hér hjá seinasta ræðumanni, hv. 3. þm. Vesturl., hvernig hann brást við í því efni er hann bar saman gerðir hæstv. núv. fjmrh. og fyrrv. fjmrh., Alberts Guðmundssonar, varðandi fjárveitingar til íþróttamála. Þeir sem starfa á þeim vettvangi vita sannleikann. Meira þarf ekki að segja.

Árgæska til lands og sjávar hefur einkennt þjóðlíf okkar Íslendinga undanfarin missiri. Aflabrögð og viðskiptakjör hafa verið okkur hagstæð og friður á vinnumarkaði. Við Íslendingar erum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í gjöfulu landi „þar sem smjör drýpur af hverju strái“, eins og Þórólfur mælti forðum tíð og þar sem fiskimið eru fengsælli en víðast hvar annars staðar. Almenn menntun er hér á fremur háu stigi, verkþekking eigi síðri en með öðrum þjóðum. Heilsufar þjóðarinnar er gott, enda meðalaldur með því hæsta sem þekkist. Gróska er hér í fjölmiðlun og skoðanamyndun hröð.

Ríkisstjórn með styrkan þingmeirihluta, ef öllu væri til skila haldið, hefur sest að völdum og fengið góðan starfsfrið frá miðju sumri. Þingheimur og þjóðin öll hafa nú hlýtt á stefnuræðu hæstv. forsrh. um markmið og leiðir. Það er hlutverk virkrar stjórnarandstöðu að setja þau markmið undir mæliker og varpa ljósi á leiðirnar af heiðarlegri jákvæðri gagnrýni.

Ríkisstjórnin hefur tvívegis á stuttum ferli sínum gripið til svonefndra aðhaldsaðgerða, vitaskuld á grundvelli bráðabirgðalaga sem þó hefur ekki enn verið hirt um að leggja fyrir þingið. Það kemur því sjálfsagt lítið við. Uppistaða aðgerðanna hefur verið aukin skattheimta þar sem matarskattinn ber hæst. Fáa grunaði fyrir kosningar að sú yrði raunin, enda siðgæðismat skattmeistaranna á þann veg að kjósendum kæmi sú ætlan lítið við fyrr en þá að að því kæmi að þeim bæri að borga. Og þá á það vitaskuld að gerast möglunarlaust. Aukinn söluskattur á nýju skattþrepi, sérstakt bifreiðagjald, viðbótarskattur á innflutt kjarnfóður, ríkisábyrgðargjald hækkað og nýtt lántökugjald á erlend lán. Hækkun vaxta fylgdi að sjálfsögðu í kjölfarið. Endurgreiðsla söluskatts til sjávarútvegs er fryst og verður í raun sérstakur landsbyggðarskattur. Innflutningsgjald af bifreiðum er hækkað og þar með verð bifreiða um allt að 15%. Og þau matföng, sem enn hafa sloppið undan söluskatti, hækka nú um 10% í þessari viku.

Hækkun söluskattsins hefur vitaskuld víðtæk áhrif. Hún veldur því t.d. að lánskjaravísitala hækkar, sem aftur veldur því að vísitölutryggðar skuldir almennings við íbúðalánakerfið hækka um röskan milljarð kr. við þessa einu aðgerð og þar með auðvitað greiðslubyrðin. Ranglæti lánskjaravísitölunnar kemur enn betur í ljós. Hæstv. forsrh. hliðraði sér hins vegar við því að nefna í ræðu sinni hvers vegna öll þessi ósköp dynja yfir nú. Hvergi minntist hann á að hann og allt hans föruneyti hefði verið á réttri leið þegar í þetta óefni stefndi. Þá miskunn sýnir hæstv. fjmrh. honum hins vegar ekki í forsendum fjárlagafrv. og segir þar umbúðalaust, með leyfi hæstv. forseta:

„Hagvaxtarskeiðið sem hófst 1984 hefur allt fram á þetta ár mátt rekja til mikillar framleiðsluaukningar í sjávarútvegi. Til að koma í veg fyrir að hagvaxtarskeiðið snerist upp í ofþenslu, verðbólgu og viðskiptahalla hefði þurft að grípa til strangra aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum þegar í upphafi árs 1987. Sú staðreynd að ekki var gripið til aðgerða fyrr en með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar eftir mitt árið veldur því að vandinn sem við er að fást er verri viðureignar og kallar á stórtækari aðgerðir en ella hefði verið nauðsynlegt.“

Svo mörg eru þau orð. Er að furða þó að hæstv. forsrh. kjósi að leiða hugann og athyglina að öðru þegar nánasti samverkamaður hans við landsstjórnina gefur ríkisfjármálastjórn hans sjálfs þessa einkunn?

Borgaraflokkurinn er sammála því markmiði að stefna að hallalausum fjárlögum í góðæri, enda lagði Albert Guðmundsson, þáv. hæstv. fjmrh., fram frv. í október 1985 til fjárlaga 1986 án halla í þann mund sem núv. hæstv. forsrh. þóknaðist að ganga inn á sviðið eftir fræga vitrun í Stykkishólmi og hafa það markmið að engu. Nú skyldu menn ætla að við aðstæður sem í dag gengi ríkið á undan með góðu fordæmi og rifaði seglin á sama hátt og alþýðu manna er ætlað að gera. Lítum á staðreyndir um ætlan ríkisstjórnarinnar í því efni.

Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir 7% almennri grunnhækkun launa á milli áranna 1987 og 1988 og verðlagsforsendur eru reistar á spá um að verðlagshækkun á mælikvarða vísitölu verði um 17–18% milli þessara sömu ára. Hækkun á fjárveitingum til höfuðstöðva nánast allra ráðuneytanna er hins vegar svo hrikaleg og svo úr samræmi við þau markmið sem almenningi og fyrirtækjum er ætlað að fylgja að engu tali tekur. Ég nefni sem dæmi: Hækkun fjárveitinga til aðalskrifstofu heilbr-. og trmrn. er 65%, til félmrn. 68%, dóms- og kirkjumrn. 72%, landbrn. 79%. Öllum er auðvitað ljóst að meira en tveir þriðju hlutar ríkisútgjalda tengjast launum. Og því tekur steininn úr þegar launaliður sjálfrar ríkisstjórnarinnar hækkar um 92% milli þessara sömu ára. Þeir verða trúverðugir í aðhaldspredikuninni hæstv. ráðherrar eftir að hafa hliðrað svo til fyrir sjálfum sér, eða hitt þó heldur.

Þetta er ekki fagnaðarefni, miklu fremur sorglegt, því að fátt skiptir í rauninni meira máli í lýðræðisríki en trúnaður og gagnkvæmt traust á milli almennings og ríkisstjórnar.

Borgaraflokkurinn er yngsta aflið á Alþingi. Hann er kominn til að vera og hann hefur sannarlega þegar í upphafi verk að vinna. Hann gagnrýnir vægðarlaust þessa kjötkatlapólitík ríkisstjórnarinnar. Hann gagnrýnir þá ætlan þessarar ríkisstjórnar að þveita í sveitarfélögin án nauðsynlegs undirbúnings þungum böggum án þess að minnst sé á óuppgerðar sakir ríkisins á verkum sem mörg hver eru í miðjum klíðum. Þetta á við um dagvistarmál, íþróttamál, félagsheimili, tónlistarskóla og svo sjálfsögð frumatriði eins og vatnsveitur.

Borgaraflokkurinn átelur viljaleysi ríkisstjórnarinnar til að leysa bráðan vanda einstakra byggðarlaga, sem ekki verður leystur án aðstoðar ríkisvaldsins. Ein gjöfulasta verstöð landsins, Vestmannaeyjar, sem öðrum fremur hefur malað gull í þjóðarbúið um ómunatíð býr nú við þann þrönga kost að rekstrargrundvöllur fjarhitunar í Eyjum er nánast brostinn af náttúrufarsástæðum. Þrátt fyrir markvissan undirbúning heimamanna hefur enn ekki tekist að laða fram þá lausn sem ein getur leyst þetta mál, þ.e. ákvörðun eðlilegs raforkuverðs þannig að rekstur veitunnar sé tryggður. En harðast gagnrýnir Borgaraflokkurinn þá vantrú á möguleikum íslenskra atvinnuvega, landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar og útflutningsverslunar sem öðru fremur einkennir stefnu ellegar öllu heldur stefnuleysi þessarar ríkisstjórnar. Sú vantrú mun reynast þjóðinni dýr. Hún mun koma þyngst niður á þróun landsbyggðarinnar og auka enn á byggðaröskunina. Hvergi örlar á raunhæfum vilja til að snúa þessari öfugþróun við. Skilin skerpast á milli þjóðanna tveggja í þessu landi, sem mörgum varð tíðrætt um fyrir síðustu kosningar. Það hlýtur að vera meginkrafa landsbyggðar til þjóðarheildarinnar að samgöngumálum og þá ekki síst hafnamálum verði gerð mun betri skil með stórátaki þar sem heimamenn fái tækifæri til þátttöku á jafnréttisgrundvelli. Því mun Borgaraflokkurinn ekki unna sér hvíldar í stjórnarandstöðu heldur gagnrýna stöðugt og án afláts það sem honum finnst miður fara og leggja til aðrar leiðir landi og þjóð til heilla.

Hæstv. forseti. Borgaraflokkurinn býður landsmönnum öllum góða nótt. Ég þakka fyrir.