11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (3063)

238. mál, niðurstöður áfengismálanefndar

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. svör hans, en ég vil jafnframt minna á að hér eru skipaðar nefndir að tilstuðlan Alþingis ár eftir ár eftir ár og margar hverjar vinna bæði mikla og oft mjög gagnlega vinnu og skila ítarlegum niðurstöðum í tillöguformi. Það sem ég er kannski einmitt að tala um í þessari fsp. er: Hvernig á að nýta ítarlegar tillögur? Það er mjög gott að meginandi tillagnanna sé tekinn upp og borinn áfram í öðrum málum, eins og t.d. í íslenskri heilbrigðisáætlun o.s.frv. Hins vegar hefur farið þriggja ára vinna eða meir í að útfæra tillögurnar. Ég er að velta því upp hérna hvort það þurfi ekki að fara fram slík umræða í þinginu t.d. þegar er verið að tala um áfengisstefnu innan íslenskrar heilbrigðisáætlunar eða í tengslum við önnur mál sem lögð eru fram á þinginu. Hvort ekki væri rétt að hafa hliðsjón einmitt af þeirri vinnu sem unnin var af nefndinni og kemur fram í skýrslunni. En það er oft tilhneiging slíkra skýrslna að detta ofan í skúffur og lokast þar niðri og verða ekki nýttar eða teknar upp einmitt þegar mest þarf á þeim að halda.

Þess vegna er það líka á ábyrgð stjórnvalda, jafnvel þeirra stjórnvalda sem taka við af öðrum, að gera sitt til að halda slíkri vinnu á loft og gæta þess að hún falli ekki í gleymsku. Á þeim stutta tíma sem ég hef verið á þingi hef ég gert fyrirspurnir um nokkrar skýrslur sem hafa verið unnar af nefndum sem skipaðar hafa verið af ríkisstjórn að beiðni Alþingis. Sumar hverjar eiga að fjalla um efni sem er kannski pólitískt ágreiningsmál og eru þess vegna viljandi þaggaðar í hel. Aðrar hreinlega falla í gleymskunnar dá fyrir andvaraleysi og vegna þess að menn eiga annríkt og láta bera sig á næstu öldu. Það er mjög mikilvægt að við nýtum alla þá vinnu sem við erum að beina fólki í og krefjast að það skili okkur niðurstöðum úr. Það er ekki síst þess vegna sem ég er að bera fram þessa fsp. Ég tel nauðsynlegt að nýta þessa vinnu á jákvæðan hátt.