11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (3064)

238. mál, niðurstöður áfengismálanefndar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins ítreka að ég er efnislega sammála því, sem fram kom hjá fyrirspyrjanda nú, að það hefur verið lögð mikil vinna í þessa skýrslu og ég hef farið yfir hana, en ég ítreka að ég tel eðlilegt að hennar niðurstöður tengist svo sem verða má þeirri íslensku heilbrigðisáætlun sem ég vænti að Alþingi eigi eftir að fjalla um í vetur. Ég vil einnig minna á það, sem ekki kom fram áðan, að formaður áfengismálanefndarinnar, það vill svo til, var einmitt og er einnig formaður þeirrar nefndar sem samdi frumdrögin að íslenskri heilbrigðisáætlun. Ég hygg að hans sjónarmiðum og nefndarinnar hafi verið komið nokkuð vel á framfæri í drögum að heilbrigðisáætluninni. Nú er verið að vinna hana upp með hliðsjón af þeim athugasemdum sem fram komu á því heilbrigðisþingi sem ég gat um áðan og með hliðsjón af ítarlegu nefndarstarfi sem unnið var við undirbúning þess þings og ég vænti þess að á þann hátt verði a.m.k. áliti þessarar nefndar nokkuð vel fyrir komið í þeirri heildarumfjöllun um heilbrigðismál sem ég vona að hér eigi eftir að fara fram og þá sé e.t.v. betur séð fyrir áliti og nefndarstarfi þessu en kannski má segja um ýmislegt annað nefndarstarf sem hv. þm. tilgreindi eða nefndi.