11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4442 í B-deild Alþingistíðinda. (3068)

255. mál, alnæmi

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrmrh. fyrir glögg svör. Vissulega kom það glöggt fram í hans máli að við Íslendingar höfum allt frá 1983 brugðist fljótt við og ég tel með jákvæðum og opnum huga við þessum ógnvaldi mannkynsins. Ég held að menn verði að setja traust sitt á læknana, á að stjórnendur landsins og þá ekki síst heilbrmrh. hugi að þessum vörnum á tvennum vígstöðvum, þ.e. bæði í baráttu við að finna sjúklingana og verjast því að sjúkdómurinn breiðist út, og ekki síður á hinu sviðinu, að ungt fólk temji sér heilbrigt líf og lífsvenjur sem skipta sennilega langstærstu máli í þessu efni, að skapaðar verði hollar og heilbrigðar tómstundir ungum til handa og að fólk leiti inn á þær brautir sem einmitt gera það að verkum að það forðast óheilbrigt líferni sem kom fram í máli ráðherrans að um allan heim, eins og eiturlyfin, á sennilega stærri þátt í útbreiðslu þessa sjúkdóms og tilurð hans en nokkurn grunar. Ég fagna því að árangur hefur orðið, eins og kom fram hjá ráðherranum, af ýmsu því sem heilbrigðisyfirvöld hafa gripið til. Ég hvet ráðherrann til að fylgja þessu máli eftir.