11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4447 í B-deild Alþingistíðinda. (3070)

241. mál, jafnréttismál

Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í tilefni þeirrar fsp. sem hér er fram borin í fjórum tölul. á þskj. 533 mun ég svara henni í heild með því að gera í stuttu máli grein fyrir hvað gert hefur verið og hvað í undirbúningi er að því er varðar átak í jafnréttismálum eins og það er orðað í þeirri fsp. sem hér er til umræðu.

Eins og fram kemur í fsp. var því af hálfu félmrn. 22. júlí sl. beint til allra ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja ríkisins að gera átak til að ná þeim markmiðum sem ríkisstjórnin setti sér í jafnréttismálum. Því var beint til framangreindra stofnana í fyrsta lagi að unnið verði markvisst að því að tala kynjanna í stjórnum, nefndum og ráðum á vegum þessara aðila verði sem jöfnust, í öðru lagi að ráðuneytið vinni að því að konur sem starfa hjá hinu opinbera fái aukin tækifæri til að gegna ábyrgðarstöðum. Í þriðja lagi að ráðuneyti og opinberar stofnanir á vegum ríkisins beiti sér fyrir að komið verði á sveigjanlegum vinnutíma til að stuðla að jafnari þátttöku kynjanna í heimilisstörfum og atvinnulífinu. Í fjórða lagi að launastefna ríkisins miði að því að stuðla að jafnrétti í launakjörum og hlunnindagreiðslum hjá ríkinu.

Í því bréfi sem sent var til ráðuneyta og stofnana 22. júlí sl. kom fram að félmrn. mundi einnig síðar fylgja þessu máli eftir með könnun á framkvæmd og stöðu mála innan ráðuneyta og ríkisstofnana. Það eru nú liðnir rúmir sex mánuðir frá því að bréf þetta var sent frá félmrn. Ég tel að til að sjá hvort marktækur árangur hafi náðst vegna þessara tilmæla, sem ég beindi til ríkisstofnana og ráðuneyta, þurfi að líða lengri tími þar til þessu máli verður fylgt eftir af hálfu ráðuneytisins. Ég tel að tímabært verði að fylgja þessu eftir og gera þá könnun sem nefnd var í bréfinu til ráðuneyta og stofnana á komandi hausti, en þá er liðlega ár liðið frá því að þessu var beint til ráðuneytanna og ríkisstofnana.

Ég vil einnig nefna í tilefni þessarar fsp. að á undanförnum mánuðum hefur nefnd á vegum félmrn. starfað að því verkefni í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að leita leiða til að stytta vinnutíma hér á landi án þess að tekjur skerðist. Er þetta liður í þeirri viðleitni að taka meira tillit til þarfa fjölskyldunnar og þess að foreldrar beri jafna ábyrgð á börnum sínum, svo og leið til launajafnréttis þar sem verulegur hluti af launamun kynjanna hefur verið skýrður með lengri vinnutíma. Nefndin mun fljótlega skila áfangaskýrslu til mín að því er þennan þátt varðar, en nefndin hefur m.a. fjallað um sveiganlegan vinnutíma sem er einn liður í þeirri fsp. sem hér er fram borin.

Um áramótin skipaði ég nefnd sem ættað er að stuðla að auknu launajafnrétti karla og kvenna í störfum hjá hinu opinbera. Nefndinni er falið að fjalla um endurmat á störfum kvenna hjá hinu opinbera þar sem m.a. verði höfð hliðsjón af mikilvægi umönnunar- og aðhlynningarstarfa og starfsreynslu á heimilum og gera tillögur þar um. Nefndinni er enn fremur ætlað að leita leiða til að tryggja jafna stöðu karla og kvenna við ráðningar og stöðuveitingar á vegum hins opinbera. Nefndin hefur þegar haldið nokkra fundi og rætt um með hvaða hætti unnið verði að verkefninu. M.a. hefur verið samþykkt að fara yfir og kanna laun hjá einstökum ríkisstofnunum og ef í ljós verður leitt að mati nefndarmanna að munur sé á launum karla og kvenna sem ekki verður skýrður sérstaklega er ljóst að það verður tekið til sérstakrar athugunar.

Einnig hefur verið um það rætt í þessari nefnd hvernig gera megi tillögur í kjarasamningum um jafnréttisákvæði. Nefndin hefur athugað laun greidd ríkisstarfsmönnum hjá launadeild og þar kemur í ljós að karlar bæta um 67% við laun sín með yfirvinnu, en konur um 34%. Af þessu má draga þá ályktun að töluverðan hluta af launamun hjá hinu opinbera megi rekja til lengdar vinnutíma. Karlar fá greidda mun meiri yfirvinnu en konur. Þá vaknar sú spurning hvort sú yfirvinna sé öll unnin. Ekki er hægt með þeim gögnum sem fyrir liggja að ganga úr skugga um það. Til þess þarf mun fullkomnari upplýsingar um viðvist en nú liggja fyrir.

Á það skal einnig bent í þessu sambandi að í upplýsingum sem voru lagðar fram á Alþingi á árunum 1984–1985 kom fram að ýmsar greiðslur, svo sem föst yfirvinna og bifreiðahlunnindi, renna hjá ríkinu að 95% hluta til karla. Þetta er í sérstakri skoðun í nefndinni, enda ákvæði um það í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að jafna þessar hlunnindagreiðslur.

Nefndin hefur einnig rætt um hvernig hægt er að tryggja betur aðgang kvenna í stöðuveitingar hjá hinu opinbera, en ég tel að ljóst sé að ef vilji stjórnvalda stendur til þess séu ýmsar leiðir færar í því efni.

Ég vil einnig nefna í þessu sambandi að í athugun er hjá félmrn. og Jafnréttisráði hvort rétt sé að beita ákvæðum 3. gr. jafnréttislaganna sem felur í sér svokallaða jákvæða mismunun, þ.e. séraðgerðir í þágu kvenna og þá hvernig því ákvæði verði best beitt. Þessi nefnd, sem hefur fjallað um þetta umfangsmikla verkefni sem ég hef hér lýst, mun innan skamms skila mér sínum tillögum.

Þess má í lokin geta að Jafnréttisráð hefur með bréfi nú í febrúar sem sent hefur verið öllum ráðuneytisstjórum óskað upplýsinga um stöðu karla og kvenna innan ráðuneytanna. Er þessi könnun gerð í framhaldi af könnun Jafnréttisráðs á hlut kvenna og karla í stjórnum og ráðum á vegum hins opinbera. Óskað er upplýsinga í fyrsta lagi um fjölda nýrra ráðninga sl. tvö ár, í öðru lagi hvaða stöður það voru, í þriðja lagi hvaða kröfur voru gerðar til stöðunnar, bæði menntun og reynsla, í fjórða lagi fjölda umsækjenda og í fimmta lagi menntun, reynsla, starfsaldur og kyn þeirra sem voru ráðnir, í sjötta lagi menntun, reynsla, starfsaldur og kyn þeirra sem var hafnað, í sjöunda lagi stöðuhækkanir innan ráðuneytisins og milli ráðuneyta, í áttunda lagi hver var fyrri staða þeirra sem fengu hærri stöðu og í níunda lagi menntun, reynsla, starfsaldur og kyn þeirra sem fengu stöðuhækkun. Munu niðurstöður þessarar könnunar liggja fyrir innan nokkurra vikna.

Ég vænti þess að það sem er hér greint frá svari að nokkru þeirri fsp. sem hér er fram borin.