11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3072)

241. mál, jafnréttismál

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil fyrst og fremst þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hennar og það var fróðlegt að fregna af því hvernig þessu verkefni gengur. Ég vissi að sjálfsögðu að það er stuttur tími liðinn síðan erindið var sent út til ráðuneyta, stofnana og fyrirtækja ríkisins, en hins vegar er mjög mikils vert að fá að fylgjast með framgangi þessara mála.

Það vakti athygli mína hvernig Jafnréttisráð ætlar sér að kynnast því hvernig stöðuveitingar fara fram. Ég tel það vera mjög jákvætt. Hins vegar væri líka fróðlegt að fylgjast með því eða fá að vita hvernig ráðuneytið ætlar í raun að fylgjast með erindi þess bréfs sem það sendi, hverjir eiga að meta hvernig svarað verður, hvort það eru fyrirtækin, stofnanirnar eða ráðuneytið eða hvort félmrn. og þá ráðherra mun beina alveg sérstökum spurningum til þess að fylgjast með öðrum en þeim sem ráðherra tilgreindi.

Í sjálfu sér er kannski ágætt að kanna nánar, ef á að fara að útfæra hlutina, hvernig ástandið er, en mér finnst samt að það séu komnar nægilega margar kannanir ár eftir ár eftir ár sem sýna okkur fram á misréttið svart á hvítu. Það vitum við að er til staðar. Það sem vantar fyrst og fremst eru leiðir og aðgerðir og vilji til þess að fara þessar leiðir og beita þessum aðgerðum til að ná fram réttlæti.

En ég heiti hæstv. félmrh. fyllsta stuðningi og hvet hana áfram í þessum fyrirætlunum sínum og minni hana á að mikils er vænst af henni í þessu starfi.