11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4450 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

244. mál, launastefna ríkisins

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Í mars 1987 var haldin ráðstefna ASÍ og BSRB til að endurskoða fjölskyldustefnu heildarsamtaka verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. Meginniðurstaða umræðna, sem fóru fram á þessari ráðstefnu, var að auka þyrfti vægi dagvinnu, draga úr yfirvinnu og leggja hana af þannig að fólk gæti lifað af dagvinnunni. Menn töldu þetta ákveðinn lykil af velferð fjölskyldunnar og einnig lykil að launajafnrétti.

Við vitum öll að á Íslandi er óhóflega langur vinnutími og það er einmitt hann sem stendur undir þeim aukna kaupmætti sem stjórnvöld hafa státað af. Þessi langi vinnutími er bæði heilsuspillandi og hann krefst margvíslegra félagslegra aðgerða vegna þess að heimilin, börnin og allir aðrir, sem umönnunar þurfa, eru vanræktir. Þetta vitum við öll og þetta höfum við margoft rætt hér og hefur verið rætt úti í þjóðfélaginu.

Við vitum líka að framleiðniskýrsla á vegum ýmissa samtaka launafólks og atvinnurekenda var unnin á árunum 1973–1983. Hún sýndi að hagvöxturinn og hin aukna verðmætasköpun, sem leiddi til bættra lífskjara, byggðist á mjög löngum vinnutíma og ekki síst á aukinni atvinnuþátttöku kvenna, mikilli atvinnuþátttöku kvenna sem í raun bera uppi þessa auknu verðmætasköpun. En hvernig er þeim síðan launað fyrir verk sín? Jú, launamunur milli karla og kvenna fer vaxandi. Þegar ég hóf störf hér á þingi 1983 lét nærri að karlar hefðu 51% hærri laun á ársverk en konur. Nú er hann kominn hátt yfir 60% og trúlega í áttina að 70 ef teknar eru giftar konur og giftir karlar og borin saman. Og við vitum líka að konur eru að öllu leyti hálfdrættingar í launum á við karla. Einungis konur á besta aldri ná meðallaunum og eru þá jafnháar í launum öldruðum körlum og ungum drengjum. Það er sama á hvaða könnun við lítum. Launamunur er þannig að karlar hafa hærri tekjur í dagvinnu en konur í sömu starfsgrein. Þeir fá yfirleitt meiri yfirvinnu. Síðan koma allar aukagreiðslurnar og sporslurnar. Þetta stafar kannski ekki síst af því að karlar eru enn álitnir hin sígilda og eina sanna fyrirvinna heimilanna og þá er litið fram hjá vaxandi fjölda einstæðra mæðra, á 7. þúsund, sem hafa fyrir a.m.k. 14 þúsund börnum að sjá en margir álíta að sárust fátækt á Íslandi sé einmitt á slíkum heimilum, og einnig á heimilum aldraðra og öryrkja.

Á sama tíma hefur kostnaður við rekstur heimilanna aukist mikið. Í grein í Alþýðublaðinu 14. nóv. sl. er verðsamanburður sem sýnir að það tekur þrisvar sinnum lengri tíma fyrir Íslendinga en t.d. Hollendinga að vinna fyrir mat sínum og jafnvel í Englandi „Thatcherismans“ er ódýrastur matur af þeim Evrópulöndum sem könnuð voru. Þó var þetta fyrir matarskattinn sem lagður var á um áramótin, en nú miða margir tímatalið við álögu hans.

Það er orðið löngu tímabært og verður sífellt brýnna að eyða því launamisrétti sem viðgengst hér á landi og því hef ég mikla ástæðu til þess að spyrja ásamt öðrum þingkonum Kvennalistans bæði hæstv. forsrh. og fjmrh. um launastefnu ríkisins með tilliti til komandi kjarasamninga: Hvað líður framkvæmd á launastefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún er túlkuð í starfsáætlun stjórnarinnar? Ég vitna, með leyfi forseta: „Launastefna ríkisins sem aðila að kjarasamningum miði að því að bæta kjör hinna tekjulægstu og að endurmeta störf kvenna og stuðla að jafnrétti í launakjörum og hlunnindagreiðslum hjá ríkinu.“