11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4455 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

248. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ástæðan fyrir þeirri fsp. er ég flyt á þskj. 541 er slæm rekstrarskilyrði skel- og rækjuvinnslunnar á sl. ári og mjög erfið fjárhagsstaða þessara greina um þessar mundir.

Á árinu 1986 hækkaði rækjuverð verulega og hélst gott verð til vors 1987. Í fyrravor hrapar verðið síðan niður um ein 30%. Þrátt fyrir erfið rekstrarskilyrði og taprekstur allt sumarið frá vori og fram á haust eru fyrirtækin áfram krafin um greiðslur í Verðjöfnunarsjóðinn. Þær greiðslur fara þó nokkuð lækkandi eða úr um 17% niður í um 7% þegar síðast var greitt í sjóðinn. Vegna verðlækkana féllu greiðslur síðan endanlega niður í september 1987 sem var auðvitað allt of seint.

Þrátt fyrir lækkun útflutningsverðs hélst hráefnisverð til útgerðarinnar óbreytt fram í október sl. er það lækkaði nokkuð. Útflutningsverð á rækju hefur síðan nánast haldist óbreytt og stöðugt frá vorinu 1987, en hráefnisverð til útgerðarinnar hækkaði aftur 1. febr. sl.

Allt frá því að verðlækkunin átti sér stað á sl. vori hefur vinnslan verið rekin með bullandi tapi. Vanskilaskuldirnar hlaðast upp með tilheyrandi dráttarvaxtareikningi og kostnaði. Á sama tíma er innstæða í rækjudeild Verðjöfnunarsjóðsins um 450 millj. kr. eða hálfur milljarður. Átelja verður harðlega þá framkvæmd að krefja fyrirtækin áfram um greiðslur í sjóðinn frá verðfallinu vorið 1987 og fram í september sl. Jafnframt verður að átelja að ekki skuli hafa verið gripið til þess ráðs á seinni hluta sl. árs að greiða verðbætur úr sjóðnum.

Með tilliti til bágrar afkomu vinnslunnar og vanskila hennar er óviðunandi í þessari stöðu að horfa upp á að um hálfur milljarður króna, er þessi atvinnugrein á í Verðjöfnunarsjóðnum, skuli læstur niðri í skúffu í Seðlabankanum á Arnarhóli á meðan fyrirtækin ramba á barmi rekstrarstöðvunar vegna vanskila. Þess vegna spyr ég hæstv. sjútvrh.:

„1. Hvað veldur því að ekki hafa verið greiddar verðbætur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins á rækju og hörpuskel með tilliti til verðlækkana á þessum afurðum og bágrar afkomu greinanna á sl. ári?

2. Hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir endurskoðun á lögum og starfsemi sjóðsins á næstunni?"