11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4456 í B-deild Alþingistíðinda. (3081)

248. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er spurt hvað valdi því að ekki hafi verið greiddar verðbætur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins á rækju og hörpuskel með tilliti til verðlækkana á þessum afurðum og bágrar afkomu greinanna á sl. ári. Við þessu vil ég gefa eftirfarandi svar:

Hlutverk Verðjöfnunarsjóðs er skv. 1. gr. laganna um sjóðinn að draga úr áhrifum verðsveiflna er verða kunna á útflutningsafurðum fiskiðnaðarins. Fyrir upphaf hvers framleiðslutímabils ákveður stjórn sjóðsins verðgrundvöll þann sem út- og inngreiðslur í sjóðinn miðast við. Skv. 9. gr. laganna skal stjórnin við þá ákvörðun einkum hafa hliðsjón af verðlagi undanfarinna þriggja ara, en stjórnin skal einnig líta til annarra atriða, svo sem markaðsog aflahorfa sem og afkomu í viðkomandi grein. Við ákvarðanir sínar hefur sjóðstjórn jafnan stuðst við úttektir Þjóðhagsstofnunar um svokallað staðvirt meðalverð einstakra afurðaflokka á síðustu þrem til fimm árum og áætlað markaðsverð á þeim tíma sem ákvörðun er tekin.

Á árinu 1986 og fyrri hluta ársins 1987 var verðlag á frystri skelflettri rækju afar hátt. Þannig áætlaði Þjóðhagsstofnun að meðalverð á rækju í janúar 1987 samsvaraði 4,42 SDR á pund cif sem var 45% hærra en staðvirt meðalverð síðustu fimm áranna þar á undan, þ.e. 3,05 SDR á pund cif. Í samræmi við þetta háa markaðsverð var mikil inngreiðsla í Verðjöfnunarsjóðinn vegna rækju í upphafi ársins 1987 og nam hún 17,5% af cif-verði. Meðalverð á rækju fór síðan lækkandi eftir því sem á árið leið og lækkaði inngreiðsluhlutfall til sjóðsins til samræmis við það og var inngreiðsla alveg felld niður frá 14. sept. Þjóðhagsstofnun taldi að meðalverð á skelflettri rækju væri í september komið niður í 3,28 SDR á pund cif. Hinn 22. sept. tók sjóðstjórn ákvörðun um nýtt viðmiðunarverð sem hefði að óbreyttu rækjuverði haft í för með sér rúmlega 3% útborgun úr sjóðnum ofan á cif-verð rækju.

Sem betur fer hækkaði markaðsverð á rækju nokkuð aftur undir árslok. Af þessum sökum kom ekki til þess að ákvörðun viðmiðunarverðs í september leiddi til útborgunar á síðasta framleiðslutímabili ársins. Í janúar sl. var áætlað að meðalverð á skelflettri rækju lægi á bilinu 3,70-3,75 SDR á pund cif, en það er hærra en meðalverð undanfarinna ára hvort sem litið er til þriggja ára eða fimm ára meðalverðs.

Við ákvarðanir viðmiðunarverðs fyrir skelfletta rækju hefur stjórn sjóðsins fylgt þeim meginreglum sem 9. gr. laganna um sjóðinn kveður á um. Fyrst og fremst hefur verið litið til meðalverðs liðinna ára, en tillit jafnframt tekið til annarra þeirra atriða er nefnd eru í lagagreininni. Í þessu sambandi verða menn að hafa í huga að rækjuverð var á árinu 1986 og fyrri hluta ársins 1987 með eindæmum hátt og að rækjuverðið er enn ofan við meðalverð liðinna ára þótt allmikil verðlækkun hafi orðið frá því að verðið reis hæst.

Ekki er hægt að ætlast til að Verðjöfnunarsjóður jafni öll skakkaföll sem hinar einstöku greinar fiskvinnslunnar verða fyrir. Sjóðnum er fyrst og fremst ætlað að draga úr áhrifum verðsveiflna með því að halda eftir hluta andvirðis sjávarafurða þegar verðlag er yfir meðallagi en greiða verðbætur þegar afurðaverð er undir meðallagi. Að sjálfsögðu verða þeir sem í fiskvinnslu starfa sjálfir að bregðast við breyttum aðstæðum, t.d. með því að aðlaga hráefnisverð að markaðsverði afurða hverju sinni o.s.frv.

Mikið verðfall varð á frystum hörpudiski á árinu 1987, en verðlag á þessari afurð hefur eins og kunnugt er lengi verið mjög óstöðugt. Ákvarðanir stjórnar Verðjöfnunarsjóðs um viðmiðunarverð, er byggðust fyrst og fremst á meðalverði liðinna ára, leiddu því til þess að tilefni varð til verulegra útgreiðslna úr sjóðnum. Þar sem óseldar birgðir voru enn til í árslok 1987 frá öllum framleiðslutímabilum ársins var ekki unnt að gera útgreiðslur úr sjóðnum endanlega upp vegna neins þeirra tímabila. Stjórn sjóðsins tók það þá til bragðs í desember sl. að ákveða bráðabirgðaútgreiðsluhlutföll vegna ársins 1987. Nemur útgreiðslan 6,5% vegna framleiðslu á tímabilinu janúar til júlí, 12% vegna framleiðslu í ágúst til september og 15% vegna framleiðslu í október til desember. Nú þegar hafa verið afgreiddar verðbætur í samræmi við þetta og allan greiddan útflutning, til hlutaðeigandi sölusamtaka eða framleiðenda. Í byrjun febrúar var búið að ráðstafa um 18 millj. kr. til uppgjörs verðbóta. Afgreiddar verða verðbætur á ógreiddan útflutning og á birgðir þegar þær hafa selst við framvísun á vottorði um gjaldeyrisskil. Áætlað er að greiðsla verðbóta muni nema um eða yfir 50 millj. kr. og verði inneign í hörpudiskreikningi sjóðsins þá nærfellt uppurin. Sjóðurinn mun því þess ekki megnugur að greiða uppbætur á framleiðslu ársins 1988, enda þótt markaðsverð sé áfram mjög lágt.

Í öðru lagi er spurt hvort ríkisstjórnin hyggist beita sér fyrir endurskoðun á lögum um starfsemi sjóðsins á næstunni. Þetta hefur ríkisstjórnin þegar gert. Í fyrsta lagi er rétt að geta þess að nefnd skilaði áliti í október 1986 um endurskoðun á Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins og varð ekki sammala. Hinn 20. jan. sl. skipaði sjútvrh. nefnd til að endurskoða gildandi lög og reglur um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hlutverk nefndarinnar er að meta hvort verðjöfnun sé raunhæf leið til að draga úr sveiflum í afkomu sjávarútvegs miðað við núverandi verðmyndun á fiski og skipulag á sölumálum sjávarafurða og með hvaða hætti slíkri verðjöfnun verði komið fyrir með sem virkustum og hagfelldustum hætti. Í nefndinni eiga sæti þeir Bolli Þór Bollason, efnahagssérfræðingur í fjmrn., Ólafur Ísleifsson, efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, og Árni Kolbeinsson, ráðuneytisstjóri sjútvrn., en Kristján Skarphéðinsson, deildarstjóri í sjútvrn., er ritari nefndarinnar. Er nefndinni í skipunarbréfi falið að leita í störfum sínum samráðs við samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Nefndin hefur þegar haldið fjóra fundi og átt viðræður við fulltrúa samtaka margra hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Á þessu stigi vil ég ekki fullyrða hvenær vænta má tillagna nefndarinnar en tel þó ekki ólíklegt að það verði í aprílmánuði nk.