11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4460 í B-deild Alþingistíðinda. (3084)

249. mál, húsnæðismál á landsbyggðinni

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Eitt stærsta vandamál landsbyggðarinnar um þessar mundir er húsnæðisvandinn. Af 1455 umsóknum er borist höfðu Húsnæðisstofnun ríkisins um nýbyggingarlán á tímabilinu 1. sept. 1986 til 31. des. 1987 voru einungis 285 frá fólki sem hyggst byggja úti á landi eða um 19% umsækjenda. Sú staðreynd liggur þó fyrir að víða á landsbyggðinni er mikill húsnæðisskortur sem á mörgum stöðum hamlar fólksfjölgun. Sérstaklega er víða mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Staðreyndin er sú að tryggt atvinnuástand og næg vinna eru ekki lengur næg ástæða til þess að fólk ráðist í íbúðabyggingar á landsbyggðinni. Ástæðurnar eru eflaust fleiri. Ein er sú mikla óvissa sem nú ríkir í stöðu landsbyggðarinnar, en fólksflótti þaðan fer vaxandi og fátt er gert til að snúa þeirri þróun við. Önnur ástæða, sem ég tel jafnvel aðalástæðuna, er sjálfhelda húsnæðismarkaðarins. Endursöluverð íbúðarhúsnæðis er víðast mjög lágt og helst langt undir kostnaðarverði og jafnvel undir eftirstöðvum áhvílandi lána. Gott atvinnuástand, eftirspurn eftir vinnuafli og mikil eftirspurn eftir húsnæði nægir þannig ekki til þess að snúa þessari þróun við.

Fasteignamarkaðurinn á landsbyggðinni er þannig í kreppu. Fólk vill selja íbúðir en getur það ekki vegna þess hve verðið er lágt. Fólk vill kaupa íbúðir en þorir það ekki vegna þess að það er hrætt við að fjárfesta í verðlitlum og illseljanlegum eignum. Íbúðaskorturinn og sjálfheldan á markaðnum kemur í veg fyrir fólksfjölgun og leiðir til byggðaröskunar. Landsbyggðarmenn hafa iðulega bent stjórnvöldum á þessar alvarlegu staðreyndir. Margir hafa varpað fram hugmyndum til úrbóta, m.a. sá sem þetta talar.

Verðjöfnunarsjóður fasteigna, sjóður er stuðlaði að minni mun á endursöluverði og byggingarkostnaði, er ein hugmyndin. Önnur er sú að afborganabyrði áhvílandi byggingarsjóðslána breytist í hlutfalli við áættað endursöluverð eigna. Þriðja leiðin er sú að landsbyggðin hafi forgang að byggingu félagslegra íbúða.

Víst er að málið er samfélagslegt vandamál sem ríkisstjórnin hlýtur að leita lausnar á. Því er spurt:

„1. Hyggst ríkisstjórnin grípa til aðgerða til að leysa húsnæðisvanda landsbyggðarinnar?

2. Hefur ríkisstjórnin í hyggju einhverjar sérstakar aðgerðir til að draga úr óhóflegum mismun milli landshluta

a. á endursöluverði og byggingarkostnaði íbúða,

b. á endursöluverði og áhvílandi lánum opinberra byggingarsjóða?"