11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4464 í B-deild Alþingistíðinda. (3087)

249. mál, húsnæðismál á landsbyggðinni

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svarið við fsp. mínum. Ég fagna því að hún skuli hafa gert sér grein fyrir því að húsnæðiskerfið eins og það er uppbyggt í dag þjónar ekki landsbyggðinni með sama hætti og höfuðborgarsvæðinu.

Hún nefnir kaupleiguíbúðir sem lausn á vanda landsbyggðarinnar. Það má vel vera að það geti orðið. Hins vegar er ýmislegt óljóst í þeim efnum. Það er m.a. óljóst um þátttöku sveitarfélaganna, hvernig þau eiga að koma inn í þetta kerfi, t.d. með fjármögnun. Ég óttast það, ef gerð verður hörð og ströng krafa til þess að sveitarfélögin beri verulegan kostnað af þessu kerfi, að það muni þá e.t.v. koma þeim síst að gagni sem hafa mesta þörf fyrir að afla sér leiguhúsnæðis en það eru minni sveitarfélögin úti á landi. Hins vegar kynni það að leiða til þess að betur stæðu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gætu nýtt sér þetta kerfi með allt öðrum og miklu betri hætti. Einnig er nauðsynlegt í þessu sambandi að taka mið af eðli markaðarins á landsbyggðinni eins og hann er á hverjum tíma.

Ég sakna beinna svara ráðherrans við seinni lið fsp. minnar, um hvort hún hafi ekki skoðað neitt þær hugmyndir sem sveitarstjórnarmenn og landsbyggðarmenn hafa bent á til að snúa þessum vanda við hvað varðar mismun á byggingarkostnaði, áhvílandi lánum annars vegar og hins vegar á endursöluverðinu, því þetta er einn stærsti vandi þessa máls.

Í þriðja lagi nefnir hún byggðanefnd sem mun vera starfandi á vegum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Í sjálfu sér fagna ég því, en þar er væntanlega bara um einhverja embættismenn að ræða sem eru að ræða sín á milli. Ég er reyndar ókunnugur málinu. Mér þykir miður, og vonandi hef ég rangt fyrir mér í því, ef enginn landsbyggðarmaður á beina aðild að þessari endurskoðun.

Að lokum vildi ég ítreka að það er gríðarlega stórt vandamál sem landsbyggðin stendur frammi fyrir, vandinn í sambandi við húsnæðismálin, bæði húsnæðisskorturinn, það vandamál að enginn þorir lengur að byggja og það vandamál að fólk getur hvorki selt né keypt vegna hins gífurlega munar á byggingarkostnaði og endursöluverði.