14.10.1987
Efri deild: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

5. mál, meðferð opinberra mála

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Hæstvirtur forseti. Ég mæli fyrir frv., sem ég flyt og er á þskj. 5, um breytingu á lögum nr. 74/1974, um meðferð opinberra mála. Þetta frv. er ekki stórt í sniðum, aðeins tvær greinar og önnur greinin er um gildistöku laganna.

1. gr. frv. varðar breytingu á 138. gr. laga um meðferð opinberra mála, um að við hana bætist ný málsgr. svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta.

„Brot, sem falla undir XXI. og XXII. kafla hegningarlaga um sifskaparbrot og skírlífisbrot, skulu hafa sérstakan forgang fram yfir önnur hegningarlagabrot hvað varðar rannsókn og meðferð. Dómur í undirrétti skal ganga innan átta mánaða frá ákæru nema sérstakar ástæður hamli.“

Það hefur verið mikil umræða um kynferðisafbrot gagnvart börnum allt sl. ár og það ekki að ástæðulausu. Mörg þessara atbrota eru svo gröf og eðli þeirra slíkt að þau hljóta að setja mark sitt óafmáanlega á þá sem fyrir þeim verða og aðstandendur þeirra.

Samkvæmt upplýsingum geðlækna eru dæmigerð einkenni fyrir ástand barna sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun að þau þjást af hræðslu, sektarkennd og sjálfsmorðshugmyndum. Þeim finnst þau sjálf vera óhrein og saurug vegna þess sem fyrir hefur komið.

Slíkar þjáningar hljóta að marka djúp spor í sálarlíf barnanna sem erfitt er að má burtu. Og hver áhrif kunna að verða síðar meir, t.d. á kynþroskaárunum, er ómögulegt að geta sér til um, en ljóst að þau eru mikil.

Ef halda á uppi réttarríki hér á landi er nauðsynlegt að virðing ríki fyrir lögum og reglum. En hætt er við að sú virðing þverri þegar í ljós kemur að sami maðurinn kemst upp með að brjóta af sér gagnvart börnum áratugum saman eins og dæmin sanna.

Ég gæti nefnt hér átakanlegt dæmi máli mínu til sönnunar sem varðar ungan dreng og lýsir þeim hörmungum sem hann og aðstandendur hans hafa mátt þola, en þar sem hér er um viðkvæmt mál að ræða hef ég kosið að sleppa slíku en mun láta nefnd þá sem fær þetta frv. til meðferðar fá þau gögn sem ég hef undir höndum.

Umrætt mál er búið að bíða í dómskerfinu í eitt og hálft ár frá því að atburðurinn gerðist þar til það var loks tekið fyrir fyrir fáum dögum og er verið að byrja að vinna í því. Ekki þarf víst að geta þess að sá sem framdi afbrotið gengur laus.

Þegar móðir drengsins leitaði upplýsinga um hvenær málið yrði tekið fyrir fékk hún þau svör hjá dómaranum að hann hafi verið svo upptekinn í stóru málunum, þess vegna hafi það dregist. Og hver ætli séu stóru málin í dómskerfinu sem hafa forgang, hæstv. forseti? Jú, það er hætt við að það séu málin sem snúa að veraldlegu gæðunum, auðgunarbrotin eða fjársvikamálin. Það er dapurlegt ef svo er komið að auðgildið verður metið ofar manngildi þegar lífshamingja og framtíðarheill barna eru í veði.

Það verður að bregðast strax við afbrotum af þessu tagi, rannsaka þau til hlítar og ljúka allri meðferð þeirra á sem skemmstum tíma. Skjót málsmeðferð er sérstaklega nauðsynleg þegar börn eiga hlut að máli, en auðvitað á það við um öll mál sama eðlis.

Börnin þurfa á öllu sínu að halda til að þroskast og komast til vits og ára. Eigi þau hins vegar um lengri tíma stöðugt yfir höfði sér upprifjun á þeim voðaatburði sem hratt þeim úr öruggri og áhyggjulausri barnæsku yfir í kvalafulla veröld er næsta víst að sá þroski verður ekki áfallalaus. Þess vegna er það einlæg ósk mín að mál þetta fái skjóta afgreiðslu á hv. Alþingi svo að hegningarlögin nái tilgangi sínum til fulls hvað þessi brot varðar.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.