11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4474 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

253. mál, vörugjald á búrnet til loðdýraræktar

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. hans svar. Eins og þar kom fram hafa orðið mistök í þessu efni og hæstv. ráðherra gaf til kynna að það hefði orðið á fleiri sviðum þannig að vænta megi frv. til l. um breytingar á þeim þáttum til leiðréttingar á slíkum mistökum. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að vinna að málinu með meiri hraða en hann gaf til kynna og sem hann ræddi um að það yrði fyrst fyrir lok ársins sem slíkt frv. kæmi fram. Ég teldi skynsamlegt að það yrði stefnt að því á yfirstandandi þingi að leiðrétta slíkt.

Hjá hæstv. ráðherra kom einnig fram, sem er þakkarvert út af fyrir sig, að gert sé ráð fyrir endurgreiðslu á þessu gjaldi, en ég inni hæstv. ráðherra eftir því með hvaða hætti að því verði unnið, hvort það kosti skriffinnsku fyrir þá sem búrnet kaupa til loðdýraræktar eða hvort hægt sé að koma þessu við með einfaldari hætti. Ég áttaði mig ekki á því í svari hæstv. ráðherra hvernig fyrirkomulagið yrði.

Erfiðleikar eru miklir í loðdýrarækt í landinu, sérstaklega í refabúskap, og það er ekki á það bætandi með íþyngjandi og óeðlilegum ákvæðum sem hér hafa orðið vegna mistaka og því skylt að reyna að auðvelda framkvæmd þessara mála þangað til lagabreyting hefur verið gerð eins og frekast er kostur.