11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4474 í B-deild Alþingistíðinda. (3104)

254. mál, aflagjald til hafna

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á þskj. 550 hef ég leyft mér að leggja fram svofellda fsp. til hæstv. samgrh. um aflagjald til hafna:

„Hver er afstaða samgrh. til beiðni Hafnasambands sveitarfélaga um hækkun á aflagjaldi til hafna?"

Hafnasamband sveitarfélaga lagði fram þá ósk á aðalfundi sínum í septembermánuði sl. að fá verulega hækkun á aflagjaldi til hafna. Ég hygg að þar hafi verið um að ræða beiðni um hækkun frá 0,85% upp í 1,50 og vil ég út af fyrir sig ekki leggja mat á hvort þar hafi verið um óeðlilega beiðni að ræða hvað snertir prósentuhækkun, en hitt liggur fyrir að hér er um stórt hagsmunamál að ræða fyrir hafnir í landinu sem margar hverjar búa við heldur þröngan kost. Lengi vel var þetta aflagjald 1% en var síðan lækkað niður í 0,85% og hér hefur verið farið fram á leiðréttingu af hagsmunaaðilum, Hafnasambandi sveitarfélaga.

Einnig mun hafa verið farið fram á hækkun á vörugjöldum um sama leyti og hæstv. samgrh. heimilaði slíka hækkun sem nam um 20%, svo og á skipagjöldum, heldur meira að ég hygg, 22% eða nálægt því. Það kemur dálítið undarlega fyrir sjónir að þarna skuli hafa verið tekið á málum með mismunandi hætti, að heimild hafi ekki verið veitt til hækkunar á aflagjaldi, en þar eiga í hlut sérstaklega þær hafnir þar sem mikið er um löndun á fiski að ræða, en vörugjöldin koma sérstaklega til góða höfnum þar sem innflutningur á vörum er mikill eins og t.d. í Reykjavík.

Ég veit um að mikil óánægja ríkir meðal hafnayfirvalda víða á landinu og sveitarstjórna með afgreiðslu hæstv. ráðherra að þessu leyti og þess vegna hef ég leyft mér að bera fram fsp. Ég sé að í einu stjórnarmálgagnanna, ef svo má að orði komast, þ.e. í Alþýðublaðinu í dag, er vikið að þessu máli og hæstv. ráðherra mun væntanlega skýra það nánar og ætla ég ekki að gera það hér að umtalsefni, en ég tel að það hefði verið eðlilegt að bregðast með öðrum hætti við en gert var af samgrn. í sambandi við þessa beiðni.