11.02.1988
Sameinað þing: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4477 í B-deild Alþingistíðinda. (3108)

254. mál, aflagjald til hafna

Samgönguráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það hefur þá verið misskilningur. Ég hef ekki talað nógu skýrt, en gert er ráð fyrir því að öll hafnagjöld fara til sveitarfélaganna. Vel má vera að byggt sé á því sem segir í Alþýðublaðinu. Það er hvorki haft eftir mér né sett þar eftir því sem ég hef sagt. Það er, eins og hv. þm. réttilega sagði, frv. um breytta verkaskiptingu. Þetta er aðeins einn þáttur, en er að öllu leyti sjálfstætt frv. og kemur til með að fjalla um öll þau gjöld sem hafnalögin gera ráð fyrir.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. kom hér upp og af því sem hann sagði gat ég ekki annað en metið að hann hefði ekki verið inni í þingsalnum þegar ég talaði. Ég var að segja frá því að hér yrði flutt frv. til að auka forræði sveitarfélaganna. Sveitarfélögin gera ályktun, óska eftir hækkun á gjaldskrá, fá til baka. Gjörið þið svo vel. Þið skulið ákveða þetta sjálf. Samt sem áður kemur hv. þm. upp og segir að það hafi aldrei verið meiri miðstýring. Ég trúi ekki að þm. hafi verið hér inni þegar ég talaði.

Með tilliti til þess að það er flutt frv. um breytingu á hafnalögum þar sem lagt er til að þessi gjöld verði til ákvörðunar hjá sveitarfélögum, eigendum hafnanna, taldi ég ekki eðlilegt að breyta þar öðru en því sem eðlilegt þótti að breyttum verðlagsforsendum á milli ára, en gjaldskrá hafði síðast verið gefin út fyrir ári.