11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4478 í B-deild Alþingistíðinda. (3110)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Flm. (Elín R. Líndal):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um innflutning loðdýra til kynbóta. Till., sem ég er flm. að ásamt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur, er þess efnis að Alþingi álykti að fela landbrh. að hefja þegar undirbúning að árlegum innflutningi kynbótadýra til loðdýraræktar.

Í grg. segir:

„Vöxtur loðdýraræktar hefur verið mikill hér á landi frá árinu 1980. Í ársbyrjun 1987 voru um 220 loðdýrabú starfrækt í landinu. Um síðustu áramót fjölgaði þeim um nálægt 60. Áætlað er að fjárfesting í loðdýrarækt sé orðin um 1,3–1,4 milljarðar kr.

Framleiðslutekjur þessa árs eru áætlaðar 450–500 millj. kr. á núverandi verðlagi. Loðdýraræktin er mjög gjaldeyrisskapandi. Afgangshráefni frá fisk- og kjötframleiðslu er breytt í þarfan gjaldeyri. Á þessu ári má ætla að notkun fiskúrgangs verði 15 000–16 000 tonn og sláturúrgangs 1500–2000 tonn.

Loðdýraræktin skapar mikla atvinnu í hinum dreifðu byggðum og er ekki fjarri lagi að ætla að um 300 ársverk séu bundin í loðdýrarækt samanlagt (uppbygging meðtalin).

Til að geta stundað samkeppnishæfa loðdýrarækt má tilkostnaður ekki vera hærri hér en gerist í helstu samkeppnislöndunum. Með aðgerðum hins opinbera undanfarin ár hefur ýmsum kostnaðarþáttum verið komið niður í viðunandi horf, t.d. með eftirgjöf eða niðurfellingu aðflutningsgjalda og söluskatts. Byggingar eru þó dýrari hér en víðast hvar annars staðar, en þær má afskrifa á eitthvað lengri tíma en tíðkast með þau skýli sem notuð eru erlendis. Að sama skapi þurfa tekjur af loðdýrarækt að geta verið sambærilegar við það sem þekkist í helstu loðdýraræktarlöndum. Til að svo megi vera þarf að stunda loðdýrarækt af kunnáttu. Því er rannsóknar- og leiðbeiningarstarf greininni mikilvægt.

Þegar næg kunnátta í meðferð dýranna er fyrir hendi markast afkoma loðdýrabúa einkum af þremur þáttum: frjósemi bústofnsins, fóðurverði og síðast en ekki síst af gæðum framleiðslunnar. Það er loðdýraræktinni því afar mikilvægt að eiga kost á úrvalslífdýrum til að geta framleitt þá gæðavöru sem er samkeppnishæf og eftirsótt.

Í minkaræktinni er svarta litarafbrigðið uppistaðan í framleiðslu Íslendinga. Til samanburðar við framleiðslu Dana á sama litarafbrigði er staðan þessi miðað við sl. ár: Meðaltal danskra skinna fær gæðastuðulinn 100. Hæsta danska búið fær 132 fyrir gæði sinna skinna. Á sama tíma var hæsta íslenska búið verulega fyrir neðan danskt meðalbú eða með gæðastuðulinn 85, og íslenska meðaltalið var 76. Öflugt kynbótastarf er því mikilvægt og innflutningur loðdýra nauðsynlegur, sérstaklega meðan vöxtur búgreinarinnar er svo mikill sem raun ber vitni. Einkum er þörfin mikil fyrir innflutning minka á næstu árum en minni í refarækt vegna samdráttar í henni og þess að í refaræktinni nýtast kynbótadýrin betur með tilkomu sæðinganna. Nauðsynlegt er að geta flutt árlega inn minka næstu árin til að bæta stofninn og til að svara eftirspurn vegna væntanlegrar aukningar í greininni. Sóttkvíarbú fyrir um 200 minkalæður hefur verið byggt upp á Möðruvöllum í Hörgárdal. Það eitt nægir ekki eins og sakir standa. Nauðsynlegt er að eiga kost á að flytja inn fleiri dýr á næstu árum. Til þess þarf að byggja upp aðstöðu á sérstökum sóttkvíarbúum. Einnig kemur til greina að koma upp sóttkví á völdum búum hjá bændum meðan þörfin er mest.

Erfitt er að áætla þörfina en hún er mjög mikil. Brýnt er að flytja inn verulegan fjölda dýra á næstu tveimur til þremur árum. Þegar fram í sækir og stofninn er kominn í meira jafnvægi ætti að nægja að flytja inn 200–300 minkalæður árlega. Til þess að svo megi verða þarf a.m.k. tvö sóttkvíarbú því að sóttkví tekur allt að tveimur árum.“

Virðulegi forseti. Við loðdýraræktina hafa ávallt verið bundnar miklar vonir og henni jafnframt ætlað stórt hlutverk í þeim búháttabreytingum sem íslenskur landbúnaður gengur nú í gegnum. Vissulega hefur fjármagni verið veitt til þessarar búgreinar og slíkt ber að meta. En sé hendinni sleppt af minkaræktinni í núverandi stöðu má líkja því við að hætta við hálfklárað verk. Afar brýnt er að hið opinbera hafi forgöngu um að tryggja þessum atvinnuvegi þann rekstrargrundvöll sem dugir á erlendum samkeppnismörkuðum. Fyrirhyggja í þeim efnum er nauðsynleg því markaður loðskinna er með þeim hætti að þegar dregur úr eftirspurn eru það fyrst og fremst bestu skinnin sem seljast á viðunandi verði.

Verð á síðasta ári gefa ekki rétta mynd af gæðum framleiðslunnar. Á sl. ári voru Íslendingar með næst hæsta verð á minkaskinnum í danska uppboðshúsinu. Ástæður fyrir þeim árangri eru aðallega tvær.

Í fyrsta lagi: Hlutfallslega framleiddu Íslendingar mun meira í verðmætari litarafbrigðum en aðrar þjóðir. Í meðalverði allrar framleiðslunnar kemur það okkar skinnum ofar. Í öðru lagi voru Íslendingar að selja framleiðslu ársins 1986 á þeim uppboðum sem gáfu hæst verð.

Þessi tvö atriði urðu til þess að verð gaf skekkta mynd af gæðum framleiðslunnar. Réttari mælikvarði á gæðin óháð verðbreytingum á milli uppboða er sú stigagjöf sem fram kemur í grg. með till.

Að lokinni þessari umræðu leyfi ég mér að fara fram á að till. verði vísað til síðari umræðu og atvmn.