11.02.1988
Sameinað þing: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 4480 í B-deild Alþingistíðinda. (3111)

242. mál, innflutningur loðdýra til kynbóta

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því að þessi till. skuli hafa verið lögð fram og þakka skýra framsögu fyrir þessu máli.

Um þessar mundir má segja að málefni séu mjög að skýrast í landbúnaðarumræðunni. Áhrif búvörulaganna eru sem óðast að koma fram þannig að það er nú hægt að leggja talnalegt mat á áhrif þeirra á afkomu bændanna í landinu.

Í því sambandi hefur m.a. oft og einatt verið um það talað að hér væri fylgt samdráttarstefnu í landbúnaðarmálum. Það gagnstæða liggur hins vegar fyrir. Íslenskur landbúnaður hefur verið að auka framleiðslu sína, auka verðmæti sem er að sjálfsögðu óumdeilanlegt þegar farið er yfir þessi mál. Það liggur líka fyrir talnaleg niðurstaða um hvernig búskaparhættir hafa breyst með tilliti til nýrra viðhorfa í landbúnaðinum þannig að til mikils sparnaðar hefur leitt, bæði í búrekstri og eins með tilliti til kostnaðar við landbúnaðinn. Það er þess vegna einmitt um þessar mundir sem menn geta farið að ræða um landbúnaðinn frá nokkuð öðrum sjónarhóli en verið hefur og þá reyndar með meiri sóknarþunga til framfara og umbóta í landbúnaði en hefur verið á allra síðustu árum.

Það er alveg hárrétt, sem kom fram hjá hv. flm., að á þessu breytingarskeiði voru miklar vonir tengdar loðdýrabúskap, enda eru aðstæður í okkar landi einkar ákjósanlegar fyrir þá búgrein. Það er svo annað mál að um þessar mundir eiga loðdýrabændur í erfiðleikum og þá sérstaklega þeir sem stunda refabúskap og þá einkum og sér í lagi þeir sem hafa treyst á þessa búgrein og binda afkomu sína einvörðungu því hvernig skipast í þeirri búgrein.

Það leiðir af sjálfu sér að auðvitað hvílir á þessum bændum mikill fjármagnskostnaður, ekkert sambærilegt því sem gerist hjá nágrönnum okkar sem hafa stundað þessa búgrein lengi, og að sjálfsögðu kemur ekki til nokkurra mála að láta þá sem hafa haft hér nokkra forgöngu um gjalda þess. Menn verða að athuga í þessu sambandi m.a. að margir þessara manna hafa afsalað sér réttindum til framleiðslu í hefðbundnum búgreinum og tekið þessa áhættu og auðvitað hlýtur hún að vera sameiginlegt viðfangsefni bændastéttarinnar.

En það er m.a. af þessum ástæðum sem það er ánægjuefni að hér skuli vera lögð fram á Alþingi till. sem stefnir til sóknar í þessu máli með því að gerðar séu sérstakar ráðstafanir til að tryggja að hér geti átt sér stað eðlileg ræktun þessarar búfjárgreinar.

Það má sjálfsagt finna því einhver rök að enn um sinn eigi loðdýrabændur á brattann að sækja. Ég er fyrir mína parta sannfærður um hvernig þeirri baráttu muni ljúka. Það er hins vegar alveg óhætt að fullyrða að árangur í þessari búgrein næst ekki nema framleiðslan verði jafnverðmæt og gerist með grannþjóðunum sem keppa um þennan markað. Einmitt á allra síðustu árum, eins og kom raunar fram hér hjá flm., hafa orðið þar gífurlega miklar framfarir í því að auka verðgildi þessarar framleiðslu sem byggist á ræktun þessarar greinar. Það er alveg ljóst að við höfum enga möguleika á því á næstu árum að ná árangri í þessum efnum nema hefja innflutning með skipulegum hætti eins og hér er lagt til og markvisst ræktunarstarf hlýtur að grundvallast á.

Ég styð þess vegna till. og vona að hún nái fram að ganga. Ég endurtek þakklæti mitt til frsm. og flm. þessarar till. og ég vona að hún verði hvatning bæði til þeirra bænda sem stunda þennan búskap núna og ég vona líka að hún verði nokkur áminning til ríkisstjórnarinnar um að enn þá hafa menn fullan hug á að takast á við verkefni í þessari búgrein og að nú ríður á að menn taki rösklega til hendinni bæði í ræktun og endurskipulagningu þannig að þessi búgrein eflist og að ekki hljótist óhöpp af sem vissulega gæti orðið ef ekki væri brugðist vel og hratt við með að rétta loðdýrabúskapnum nokkra aðstoð í þeim vanda sem hann er í um þessar mundir.